12.11.1985
Sameinað þing: 14. fundur, 108. löggjafarþing.
Sjá dálk 550 í B-deild Alþingistíðinda. (441)

1. mál, fjárlög 1986

Fjmrh. (Þorsteinn Pálsson):

Herra forseti. Þessar umræður hafa verið athyglisverðar á marga lund. Meginniðurstaða þeirra er sú að það er í reynd viðurkennt að náðst hefur verulegur árangur í stjórn ríkisfjármála með því frv. sem hér liggur fyrir til fjárlaga og þeim brtt. sem kynntar hafa verið hér við umræðuna. Það er athyglisvert að talsmenn Alþb. og annarra stjórnarandstöðuflokka hafa lýst því yfir að þeir treysti sér ekki að ræða efni frv. við þessa umr. Í því felst viðurkenning á því að ríkisstj. hefur náð því meginmarkmiði, sem hún setti sér í upphafi, að tekjur skyldu mæta gjöldum og að erlend lán yrðu ekki meiri en sem nemur afborgunum af eldri lánum. Þetta voru meginmarkmiðin og þeim tókst að ná með því fjárlagafrv. sem fyrir liggur.

Því hefur verið haldið fram í þessari umræðu, fyrst af hv. 5. þm. Reykn., að því hafi verið lýst yfir af hálfu sjálfstæðismanna að frv. væri ónothæft og marklaust plagg. Þetta er auðvitað rangt. Þetta hefur aldrei verið sagt af hálfu ríkisstj. eða Sjálfstfl. Þetta eru orð stjórnarandstæðinga sjálfra sem þeir leggja öðrum í munn.

Ég vil af þessu tilefni rifja upp hvers vegna ákveðið var að gera tillögur um breytingar á fjárlagafrv. Á sameiginlegum fundi miðstjórnar og þingflokks sjálfstæðismanna í Stykkishólmi var, með leyfi forseta, gerð svofelld bókun:

„Vegna ábendinga og tillagna, sem fram komu á fundunum, ítrekaði formaður flokksins þá stefnu Sjálfsttl. að utanríkisviðskipti verði sem næst hallalaus og að skuldasöfnun erlendis verði stöðvuð. Hann taldi nauðsynlegt að efnahagsstefna ríkisstj. þjónaði þessu markmiði, þar á meðal gerð fjárlaga, lánsfjárlaga og þjóðhagsáætlunar. Drög að þjóðhagsáætlun, sem fyrir liggja frá Þjóðhagsstofnun, þyrfti því að endurskoða til samræmis við þessa yfirlýstu stefnu. Vegna breytinga sem af því kunna að leiða væri því einnig nauðsynlegt að móta tillögur um sparnað og niðurskurð ríkisútgjalda við meðferð Alþingis á fjárlagafrv. og munu ráðherrar flokksins leggja því starfi lið þannig að unnt verði að afgreiða fjárlög fyrir næsta ár án rekstrarhalla. Formaður taldi að með samdrætti opinberra útgjalda væri best stuðlað að jafnvægi á vinnumarkaði og þannig skópuð skilyrði fyrir því að þensla og launaskrið spillti ekki viðleitni til að bæta kjör hinna lægst launuðu.“

Ástæðan fyrir því að menn töldu nauðsynlegt að ná frekari árangri en að var stefnt voru þær breytingar sem þá höfðu orðið á erlendum gjaldeyrismörkuðum o~ settu okkur sem þjóð auðvitað í nýja aðstöðu. Á grundvelli þessarar bókunar var ákveðið að gera tillögur um frekara aðhald í ríkisútgjöldum. Að því hefur verið unnið. Sá árangur hefur náðst á mjög skömmum tíma með markvissum vinnubrögðum og þær niðurstöður hafa verið kynntar hér.

Árangurinn er sá að það hefur tekist með þessu að lækka lántökuáform um 800 millj. kr. Það hefur tekist að ná meiri og betri jöfnuði í rekstri ríkissjóðs en að var stefnt og tekin hefur verið ákvörðun um að falla frá 400 millj. kr. áður fyrirhugaðri skattlagningu í formi söluskatts. Þetta er umtalsverður árangur. Ég skil mætavel að stjórnarandstaðan treysti sér ekki til þess að viðurkenna að svo sé, a.m.k. ekki frammi fyrir þjóðinni, og ég er viss um að íslenska þjóðin hefur meðaumkun með þeirri stjórnarandstöðu sem ekki vill viðurkenna það að ríkisstj. hefur að þessu leyti náð árangri, en ég hygg líka að afstaða þjóðarinnar sé bundin við þá meðaumkun.

Það hefur verið rækilega á það bent að í ýmsum efnum er þetta frv. nú betur úr garði gert en áður, m.a. vegna þeirra breytinga sem fyrrv. fjmrh. beitti sér fyrir. Það gefur nú skýrari og gleggri mynd af heildarstöðu fjármála ríkisins.

Ég ætla ekki að fara mörgum orðum um ræðu hv. 5. þm. Reykn. Gífuryrði hans um nefnd sláturleyfishafa og annað í þeim dúr lýsa því best hversu mikil málefnafátækt er í herbúðum stjórnarandstöðunnar, hversu fátt þeir hafa fram að færa til gagnrýni á þetta frv.

Hv. 3. þm. Reykv., Svavar Gestsson, lýsti því yfir að hann gæti ekki fjallað um frv. Þess í stað fjallaði hann um landsfund Alþb. Mér skilst af fréttum að þar hafi tekist á lýðræðiskynslóðin innan flokksins og flokksræðiskynslóðin sem hann er fulltrúi fyrir. Krafa lýðræðiskynslóðarinnar var sú að fá völdin í flokknum. Vandamál flokksins væru í því fólgin að flokksræðiskynslóðin, sem á fulltrúa sína hér á Alþingi, réði of miklu og vandamálin væru í því fólgin að það væru forustumennirnir og þingmennirnir sem tækju ákvarðanir og töluðu fyrir hönd flokksins. Til þess að koma flokknum á réttan kjöl á nýjan leik þyrfti lýðræðiskynslóðin að fá að taka ákvarðanir og tala fyrir hönd flokksins. Mér skilst að það sé einmitt lýðræðiskynslóðin sem hafi unnið á þessum fundi og nú sé það hún sem eigi að taka ákvarðanir og afstöðu til mála og tala fyrir hönd flokksins.

Það er auðvitað skýringin á því að hv. 3. þm. Reykv., formaður Alþb., lýsti því hér yfir að hann gæti ekki talað um efni frv. Nú eru það aðrir en formaðurinn sem eiga að taka ákvarðanir og fjalla um þessi mál og lýsir kannske best þeim vanda sem Alþb. er í. Þess í stað las hann upp lofgjörðarlista, lofgjörðarlýsingu um sjálfan sig og flokkinn að hætti Kim Il Sung.

Hann drap þó á eitt atriði í stefnuyfirlýsingu Alþb. að því er varðar húsnæðismál. Það er kannske rétt að rifja upp í því sambandi að á 4. ársfjórðungi 1981 námu lán frá Húsnæðisstofnun 19,4% af kostnaðarverði staðalíbúðar, en þá var hv. 3. þm. Reykv., ef ég man rétt, félmrh. og bar ábyrgð á þeim málaflokki. Á 4. ársfjórðungi þessa árs, 1985, námu lán frá Húsnæðisstofnun 29,1% af kostnaðarverði. Þau hafa með öðrum orðum hækkað um 50%. Lánsfjárhæð til nýbygginga staðalíbúðar er í dag 916 þús. kr. Ef sama hlutfall af kostnaðarverði hefði gilt í dag og 1981 ætti lánsfjárhæð að vera 611 þús. kr., en það felur í sér að lánin hafi í reynd verið hækkuð um S0%. Þetta er það sem hv. 3. þm. Reykv. getur státað af og ætli nokkur trúi því, eftir þann viðskilnað sem raun varð á í félmrn. þegar hann fór, að Alþb. undir hans forustu geti bætt um betur í því efni`? Ég hef litla trú á því.

Hv. 3. þm. Vestf. vék að ýmsum athyglisverðum atriðum í sinni ræðu. Hann gat þess að það væri um tvennt að velja: að halda áfram að óbreyttu og horfast í augu við stóraukna skattheimtu ella yrðum við að gerbreyta fjárlagagerðinni. Það voru einmitt þessi atriði sem ég vakti athygli á í ræðu minni fyrir fjárlagafrv. og ég tel að við höfum með þeim brtt. sem hér voru kynntar stigið skref í því að breyta fjárlagagerðinni. Við höfum horfst í augu við að það verður að spyrna við fótum eigi að koma í veg fyrir stóraukna skattheimtu. Að þessu leyti falla sjónarmið okkar saman.

Hann benti einnig á að kerfi óbeinnar skattheimtu er á ýmsan hátt hrunið og þar verður að byggja upp frá grunni. Að hans mati á að endurbyggja söluskattskerfið. Ég hef um það verulegar efasemdir og tel meiri líkur á því að með raunhæfum hætti verði staðið að þessu verki með því að koma á virðisaukaskatti.

Það kom einnig fram að hann og hans flokkur eru sammála því sem unnið hefur verið að um lækkun tekjuskatts af almennum launatekjum. Að þessu hefur verið unnið. Fyrsti áfanginn kom til framkvæmda á þessu ári og með þessu frv. er ákveðið að stíga annað skref á næsta ári.

Hann vék einnig að því að Alþfl. teldi nauðsynlegt að stórauka eignarskatt með stighækkun eignarskatts. Í þessu sambandi vil ég benda á að dreifing eigna í landinu er býsna jöfn. Staðan er sú að innan við 1% framteljenda eiga eignir sem eru yfir 4 millj. kr., en þeir greiða 25% af eignarskattinum. Ég hygg að þessi einfalda staðreynd lýsi því best hversu erfitt er að ná inn umtalsverðum tekjum með stighækkandi eignarskatti. Ef það markmið ætti að nást yrði að leggja skatt á almennar eignir undir 4 millj. kr. Ég tel ekki að það sé skynsamlegt við þessar aðstæður að leggja auknar byrðar á venjulegar fjölskyldur í landinu sem eiga eignir undir 4 millj. kr. Þess vegna er ég ekki sammála þessum þætti í tillögugerð þeirri sem hv. 3. þm. Vestf. lýsti hér fyrir hönd síns flokks.

Hann gat þess einnig að það yrði að horfa á breytingar á útgjaldahlið frv. Í því efni yrði m.a. að taka meira tillit til sjálfstæðra stofnana ríkisins en ekki einungis að horfa á A-hluta frv. Þær brtt. sem lýst hefur verið og ríkisstj. hefur samþykkt að leggja til taka einmitt á þessu verkefni. Þar er verið að taka á sjálfstæðum stofnunum utan við A-hluta ríkissjóðs og draga úr útgjöldum þeirra þannig að í þessu efni er þegar verið að framkvæma það sem hv. 3. þm. Vestf. taldi að menn ættu að stefna að.

Ég sé ekki ástæðu til þess að fara fleiri orðum um þau atriði sem fram komu í þessari umræðu. Hún var um margt athyglisverð. Meginatriðið er að þrátt fyrir skamman tíma hefur tekist að gera tillögur um breytingar á þessu frv. sem gera það að virkara tæki til þess að við náum efnahagslegum markmiðum, getum lækkað erlendar skuldir án þess að höggva í velferðarkerfið og án þess að skerða kaupmátt launa sem ég tel að sé mjög mikilvægt grundvallaratriði þegar við glímum nú við þau verkefni sem óleyst eru á sviði efnahags-, kjara- og atvinnumála. Frv. með þeim breytingum sem hér hefur verið lýst miðar að því að við náum betra jafnvægi í þessu efni.