23.04.1986
Neðri deild: 100. fundur, 108. löggjafarþing.
Sjá dálk 4588 í B-deild Alþingistíðinda. (4412)

396. mál, framleiðsla og sala á búvörum

Friðrik Sophusson:

Herra forseti. Senn líður að þinglausnum. Ég hafði reyndar hugsað mér að ræða nokkuð vanda kartöfluverksmiðjanna, en vegna lítils tíma mun ég stikla á örfáum aðalatriðum í örstuttu máli.

1. Þessi skattheimta, sem frv. gerir ráð fyrir, kann að stangast á við 40. gr. stjórnarskrárinnar. Hér er í raun verið jafnframt að gefa út óútfyllta ávísun sem gæti numið allt að 200% gjaldi á innflutning.

2. Skatturinn er kallaður jöfnunargjald en rétt er að benda á að í lögum, í tollalögum, er „dumping“-ákvæði. Eins er ástæða til að benda á að samkvæmt þeim upplýsingum, sem fyrir liggja, munu kartöflur ekki vera niðurgreiddar í Vestur-Evrópu né Norður-Ameríku. Hins vegar er mikið framboð á kartöflum þar, sem hefur lækkað verð á þeim.

3. Minnt skal á skuldbindingar okkar við GATT og réttindi okkar á móti sem eru nauðsynleg fyrir útflutning íslensku þjóðarinnar.

4. 24% vörugjald, sem íslensku verksmiðjurnar hafa átt að reiða af höndum til ríkisins, hefur ekki verið innheimt heldur aðeins af innflutningi á vörum unnum úr kartöflum.

5. Álögur á innfluttar iðnaðarvörur, sem unnar eru úr kartöflum, eru líklega fast að 170% þegar allt er talið. Í því er fólgin óvenjulega mikil vernd. Þá er talið með það sem kemur fram vegna þess að innlendu verksmiðjurnar þurfa ekki að greiða vörugjald og ég get rakið það nánar. Í því er fólgin óvenjulega mikil vernd, eins og ég sagði áður. Samt eru þær innlendu dýrari en þær erlendu.

6. Íslensku kartöflurnar eru óhentugar til úrvinnslu. Hér er súr jarðvegur, lítið kalk, lítill mjölvi í kartöflum og kartöflur smáar. Það er af þessum ástæðum sem erfitt er að nota íslenskar kartöflur til úrvinnslu.

7. Kartöfluúrvinnsla er iðnaður. Lán til verksmiðjanna koma úr Iðnlánasjóði í samræmi við það.

8. Það er sjálfsagt að íslenskar kartöflur séu einar seldar hér á landi þegar þær eru til og ætar. Mér finnst hins vegar eðlilegt að verksmiðjurnar fái allt árið, ef þær vilja, að flytja inn kartöflur sem hráefni fyrir framleiðslu sína til að bæta þannig samkeppnisaðstöðu sína. Það er nefnilega slæmt að það skuli hækka verð á þessari afurð jafnt þegar hallæri skellur yfir og í góðæri.

Það er rétt, sem hefur komið fram, að mótmæli hafa komið fram frá Neytendasamtökunum og ýmsum öðrum aðilum. Ég hef, herra forseti, flutt brtt. á þskj. 1066. Þær brtt. gera það að verkum, ef samþykktar yrðu, að ekki verði heimilt að leggja gjald á vörur unnar úr kartöflum, sem þýðir m.ö.o. að heimild ráðherra til álagningargjalds felst aðeins í því að leggja þetta gjald á nýjar kartöflur þegar þær eru í samkeppni við innienda uppskeru.

Hins vegar vil ég segja það, herra forseti, að yfirlýsing hæstv. ráðherra hefur breytt afstöðu minni. Sér í lagi vil ég vitna til yfirlýsingar hæstv. forsrh. sem ég skil svo að þetta gjald verði ekki lagt á nema þegar um óeðlilega verðfellingu er að ræða, svo að ég vitni beint í mál hæstv. forsrh. eins og hann orðaði það hér í ræðustól og ég skráði niður á mín blöð. Það þýðir að þeir sem leggja á gjaldið verða að sýna fram á að um óeðlilega verðfellingu sé að ræða.

Einnig sagði hæstv. forsrh. að séð verði fyrir því að framfærslukostnaður verði ekki hærri en hann er í dag og þar með ekkert brot á því samkomulagi sem gert var á milli aðila vinnumarkaðarins og hæstv. ríkisstj. (Forsrh.: Framfærslukostnaðurinn hækki ekki.) Alveg rétt. Ég endurtek vegna þess að hæstv. forsrh. kallaði fram í að vegna þessa frv., sem við erum að fjalla um hér, mun framfærslukostnaður ekki hækka. Það verður séð fyrir því að framfærslukostnaður mun ekki hækka vegna aðgerða sem gætu komið í framhaldi af samþykkt þessa frv. sem við erum hér að fjalla um. Sýnist mér hæstv. forsrh. samþykkja þá túlkun.

Að öllu þessu samanlögðu, herra forseti, tel ég rétt að kalla aftur þá till. sem ég hef flutt á þskj. 1066, en mun sitja hjá við afgreiðslu málsins.