23.04.1986
Neðri deild: 100. fundur, 108. löggjafarþing.
Sjá dálk 4589 í B-deild Alþingistíðinda. (4413)

396. mál, framleiðsla og sala á búvörum

Steingrímur J. Sigfússon:

Herra forseti. É.g hef skrifað undir nál. meiri hl., sem mælir með samþykkt þessa frv., með fyrirvara. Fyrirvarar mínir lúta að því sem hér hefur nokkuð verið til umræðu, þ.e. hvort þær ráðstafanir, sem gætu leitt af samþykkt þessa frv., verða til hækkunar á framfærsluvísitölu eða ekki. Ég minni á svör hæstv. forsrh. og hæstv. landbrh. áðan þar sem því var lofað úr þessum ræðustóli að framkvæmd laganna yrði með þeim hætti að til hækkunar á framfærsluvísitölu af þeim sökum kæmi ekki. Ég vil lýsa því yfir að stuðningur minn var algjörlega bundinn þeim fyrirvara að slík yfirlýsing yrði gefin. Ella hefði ég ekki treyst mér til að standa að þessu frv.

Ég vil hins vegar segja það, vegna fullyrðingar hv. 5. þm. Reykv. um að með lagafrv. þessu sé um brot á ábyrgð ríkisstj. á gerðum kjarasamningum að ræða, að auðvitað felur lagafrv. sjálft ekki í sér þetta brot. Hins vegar er hætta á því að framkvæmd laganna, beiting heimildanna gæti orðið með þeim hætti að samkomulagi aðila vinnumarkaðarins yrði stefnt í voða, þ.e. að ábyrgð ríkisstj. á þeim samningum yrði brotin.

Nú vil ég segja um þetta tiltekna atriði að þegar menn gera samninga treysta þeir annaðhvort þeim sem þeir semja við eða ekki. Hv. 5. þm. Reykv. var einn af ötulustu stuðningsmönnum þessarar samningsgerðar og lýsti þessu sem tímamóta samningagerð og mjög jákvæðri samningagerð, þar með talin auðvitað aðild ríkisstj. að málinu. Í því tel ég að felist sú afstaða hv. þm. að hann treysti ríkisstj. til að standa við sinn hlut samningsins ella hefði hann væntanlega ekki verið jafnánægður með samningagjörðina og raun ber vitni. Maður hlýtur þá að spyrja hvað valdi þeim sinnaskiptum hjá hv. þm. að hann treysti ekki ríkisstj. nú til að fá hér einfaldar lagaheimildir vegna þess að hann gefur sér það að ríkisstj. muni misnota þær og nota þær til að bregða forsendum kjarasamninganna.

Hér er, hv. 5. þm. Reykv., eingöngu um heimildarákvæði að ræða. Nú hefur hæstv. forsrh. lýst því hér yfir, lofað því af þessum ræðustól - og þetta er nú ekki langt frá fótstalli Jóns Sigurðssonar - að þessar heimildir verði ekki notaðar ef þær brjóta á nokkurn hátt í bága við forsendur þessara kjarasamninga og valda hækkun á framfærsluvísitölu sem ekki rúmast innan þeirra.

Ég vil einnig minna á að samningarnir og ábyrgð ríkisstj. eru í fullu gildi. Þess vegna er ekki rétt að einangra þetta mál og líta á það sem einstakan hlut. Verðbreytingar, sem kynnu að leiða af samþykkt þessa frv., yrðu hluti af almennum verðbreytingum og þar með talið hluti af búvöruverðsbreytingum. En í fylgifrumvarpi kjarasamninganna, sem við afgreiddum hér á hv. Alþingi og flestir hv. þm. studdu, 303. máli, stendur einmitt á baksíðu að ríkisstj. taki sérstaklega ábyrgð á búvöruverðshækkunum. Það er einn af þeim liðum í verðlaginu sem sérstaklega er tekið fram um að ríkisstj. muni beita sér fyrir að hækkanir verði innan tilsettra marka. Ég vil því líta á þetta mál og þær heimildir, sem ríkisstj. eða hæstv. ráðherra fær, í samhengi við alla samningagjörðina og sem hluta af meðhöndlun ríkisstj. á verðlagsmálum. Annað væri að mínu viti óeðlilegt.

Nú held ég þessa ræðu ekki sem einn af ötulustu stuðningsmönnum ríkisstj. og ekki vegna þess að ég hafi öðrum þm. fremur traust á henni. Ég gæti út af fyrir sig sagt margt um efasemdir mínar um að þessi ríkisstj. sé til þess myndug að standa við sinn hlut að þessu samkomulagi. En gjört er gjört og menn skulu þá væntanlega hafa það traust á henni einnig í þessu máli sem þeir hafa annars og höfðu t.d. við samningagjörðina. Eða hefur eitthvað sérstaklega breyst sem veldur því að aðilar, sem studdu samkomulagið eða jafnvel gerðu það og treystu þar af leiðandi ríkisstj. til að fara með sinn hlut málsins, gera það nú ekki lengur?

Efnislega mætti svo velta því fyrir sér hvort hér er skynsamlega að málum staðið, bæði frá sjónarhóli neytenda, einnig vegna aðildar okkar að fríverslunarsamningum. Það er rétt hjá hv. 5. þm. Reykv. og 2. þm. Reykv. að það kann að orka tvímælis hvort þetta er skynsamleg ráðstöfun af okkar hálfu einmitt í því samhengi. Ég vil þó, herra forseti, lýsa því að ég er ekki sammála túlkun hv. 5. þm. Reykv. á afstöðu fulltrúa viðskrn. sem kom á fund landbn. Ég skildi þann ágæta mann svo að hann teldi að þetta væri tvímælalaust ekki brot á okkar alþjóðlegu skuldbindingum að þessu leyti en væri umdeilanlegt og orkaði e.t.v. tvímælis.

Það hefði einnig mátt velta því hér fyrir sér, herra forseti, ef tíminn hefði verið meiri, hvort ekki hefði verið réttara að ríkisstj. hefði gripið til annars konar ráðstafana en að leggja á svona gjald og nota það í þessu skyni, t.d. til beinna niðurgreiðslna innanlands á þeim vöruflokkum sem hér eiga í hlut og þá úr ríkissjóði. En tíminn leyfir naumast miklar vangaveltur um það.

Ég vil þá að síðustu undirstrika það að stuðningur minn við þetta frv. með þeim fyrirvara sem ég hef gert grein fyrir er algjörlega bundinn þeim loforðum sem hæstv. landbrh. hefur í fyrsta lagi gefið um að þetta gjald verði ekki lagt á þann tíma ársins sem sambærilegar íslenskar vörur eru ekki á markaði. Það er yfirlýsing númer eitt sem hér var gefin af hæstv. landbrh. Yfirlýsing númer tvö var gefin af hæstv. forsrh. og skiptir algjörlega sköpum. Hún var loforð um að aðgerðir í framhaldi af setningu þessara laga yrðu ekki látnar leiða til hækkunar á framfærsluvísitölu.