23.04.1986
Neðri deild: 100. fundur, 108. löggjafarþing.
Sjá dálk 4592 í B-deild Alþingistíðinda. (4415)

396. mál, framleiðsla og sala á búvörum

Frsm. meiri hl. (Stefán Valgeirsson):

Herra forseti. Það eru aðeins nokkur orð. Ef væri sett gjald á innfluttar kartöflur og vörur sem eru unnar úr kartöflum, við skulum segja 20 millj., og það væri notað til að greiða niður vörur sem mundu verka eins í vísitölunni er það ofvaxið mínum skilningi að það hefði áhrif á verðlag. Ég held að það sé þetta sem fyrir hæstv. landbrh. vakir þannig að þetta getur náð sínum tilgangi að vernda íslenska kartöfluframleiðslu og vinnslu úr þeim.

Ég er ekki kunnugur því hvernig eru greiddar niður t.d. kartöflur til iðnaðar erlendis, en það er fullyrt við mig af mörgum aðilum að bæði í Hollandi og Belgíu sé þetta gert í nokkuð ríkum mæli. En það hlýtur að vera hægt að fá úr þessu skorið.

Hv. 5. þm. Reykv. talaði mikið um heiðarleik og sannleika. Ég hef þekkt nokkra menn á minni lífsleið sem hafa sagt sem svo: Svei mér, svei mér, ég segi satt. En þá hafa þeir logið sem mest. Og það fór fyrir hv. þm. eins og þessum mönnum sem ég hef hitt á lífsleiðinni. Hann gat ekki einu sinni sagt frá því réttum orðum sem Sveinn Björnsson, fulltrúi frá viðskrn., sagði við nefndina eins og hv. þm. Steingrímur Sigfússon raunar sagði.

Ég er heldur ekkert hissa á því þótt sjálfstæðismennirnir sumir hverjir hringi frekar í hv. þm. Jón Baldvin Hannibalsson en í sjálfstæðismenn vegna þess að hann er mesti frjálshyggjupostulinn innan þessara veggja.