23.04.1986
Neðri deild: 100. fundur, 108. löggjafarþing.
Sjá dálk 4593 í B-deild Alþingistíðinda. (4416)

396. mál, framleiðsla og sala á búvörum

Frsm. minni hl. (Jón Baldvin Hannibalsson):

Herra forseti. Í ræðu sinni áðan sagði hv. 2. þm. Reykv. að þetta frv. stangaðist á við 40. gr. stjórnarskrárinnar. Það er lögfræðingur sem var að tala. Hann vildi a.m.k. láta kanna mjög rækilega, því hefði verið haldið fram, hvort það stangaðist á við 40. gr. stjórnarskrárinnar þó að hann ekki fullyrti það.

Hann sagði í öðru lagi að þetta frv. væri óútfyllt ávísun og hefur væntanlega þá átt við að hér hafi Alþingi verið að framselja skattlagningarvald.

Hann færði í þriðja lagi rök fyrir því að þetta væri ekki réttilega nefnt jöfnunargjald vegna þess að upplýst er að það eru engar niðurgreiðslur stundaðar á Efnahagsbandalagssvæðinu né heldur í Bandaríkjunum né Kanada á kartöflum. Hann var ekki viss í sinni sök um hvort þetta stæðist skuldbindingar okkar gagnvart GATT. Það er rétt að staldra aðeins við þann punkt vegna þess að bæði síðasti ræðumaður og hv. þm. Steingrímur Sigfússon virtust ekki hafa skilið það fyllilega:

Við í landbn. fengum fulltrúa viðskrn. á okkar fund og það var rætt við hann um hvernig þetta stæðist alþjóðlegar skuldbindingar, í fyrsta lagi út frá EFTA og í annan stað út frá tollasamkomulaginu. Fulltrúinn útskýrði rækilega fyrir nefndarmönnum að út frá lagabókstaf EFTA-samnings værum við í rétti. Því yrði ekki haldið fram með réttum rökum að þetta stæðist ekki EFTA-samkomulagið. Hitt tók hann fram berum orðum, svo að það fari ekkert á milli mála, að að því er GATT varðaði bryti þetta í bága við það sem hann kallaði orðrétt „standstill“-skuldbindingu sem er um það að ríkisstjórnir innan GATT skuldbinda sig til að gera ekki neitt af þessu tagi, þ.e. leggja á verndargjöld, meðan ólokið er næstu samningalotu sem miðar að því að útrýma viðskiptahindrunum. Þetta fer ekkert á milli mála og er hægt að fá staðfest hvenær sem er þannig að ég vísa til föðurhúsa öllum dylgjum um að þarna sé ekki farið rétt með.

Hv. 2. þm. Reykv. gerði grein fyrir því hvernig innlendum verksmiðjuiðnaði í þessum efnum er hagað, þ.e. hvaða ívilnana hann nýtur að því er varðar vörugjald, og nefndi um það háar tölur, þegar allt er talið 170% að meðtöldu vörugjaldinu, og samt væru þær innlendu kartöflur dýrari.

Þrátt fyrir allar þessar röksemdir, að þetta kynni að varða við stjórnarskrá, að þetta væri óútfyllt ávísun og ósæmilegt ásamt með framsali skattlagningarvalds, þetta væri ranglega nefnt jöfnunargjald, það væri ókannað hvort þetta stæðist skuldbindingarnar gagnvart GATT, sem það ekki gerir, þrátt fyrir allt þetta lýsir hv. þm. því yfir að hann sé reiðubúinn að draga till. sína til baka. Og hver er ástæðan? Ástæðan er sú að hæstv. forsrh. lét þau orð frá sér fara að þessar heimildir, sem hér er verið að framselja, yrðu ekki notaðar ef það leiddi til hækkunar á vísitölu framfærslukostnaðar. (FrS: Óvefengjanlega.) Já, já. Það fer ekkert á milli mála hvað hæstv. forsrh. sagði. En hin réttu rök eru auðvitað þessi: Til staðfestingar því að hæstv. forsrh. sé ekki að fara fram á óeðlilegt skattálagningarframsal af hálfu Alþingis dugar honum prýðilega ef þetta á bara að varða kartöfluinnflutning á þeim tíma sem nægilegt framboð er af innlendum kartöflum. Þá er tryggingin fyrir því nefnilega samþykkt þessarar till. Þessi till. er þess eðlis að þá er á hreinu að það á ekkert að nýta heimildir að því er kartöflurnar sjálfar varðar umfram þetta. Ég held því að í framhaldi af orðum forsrh. sé eðlilegast að gert verði samkomulag um að ef hv. 2. þm. Reykv. dregur till. sína til baka dragi hæstv. ríkisstj. og hæstv. landbrh. frv. til baka. Að öðrum kosti mun ég, herra forseti, taka þessa till. upp og flytja hana óbreytta í mínu nafni og óska eftir afbrigðum um að hún verði tekin á dagskrá. Röksemdafærslan fyrir því er mjög einföld. Ef orð forsrh. skulu standa, sem ég ætla engan veginn að vefengja fyrir fram, þarf hann ekki á heimildum þessa frv. að halda. Þá dugar sú lagaheimild sem fáanleg væri með þessu frv.

Að því er varðar mál hv. þm. Steingríms Sigfússonar, þá er rétt að gera örstuttar athugasemdir. Hann talaði um traust til ríkisstj., það traust sem menn bæru til ríkisstj., það traust sem verkalýðshreyfingin bæri til ríkisstj. með því að gera við hana samninga og það traust sem ég bæri til þessarar ríkisstj. vegna þess að ég hefði mælt með þeirri leið sem verkalýðshreyfingin gerði tilraun með í síðustu kjarasamningum. Þessu er til að svara að það segir ekkert um traust á ríkisstj. og stjórnarstefnu þó að ég lýsi stuðningi mínum við tilraun verkalýðshreyfingar til að knýja viðkomandi ríkisstj. til að breyta sinni stefnu í þýðingarmiklum málum, bæði efnahagsmálum og húsnæðismálum.

Í annan stað vil ég upplýsa hv. þm. um að ég ber ekki traust til hæstv. landbrh., bara alls ekki, og hefur það ekkert með að gera persónulega afstöðu mína til mannsins, sem kann að vera hinn mætasti maður, en traust til hans sem landbrh. ber ég ekki. Það lýsir sér í því að mér er gersamlega með öllu fyrirmunað að samþykkja till. um að leggja í hendurnar á honum skattlagningarvald sem Alþingi einu ber og breytti þar engu um þótt annar maður gegndi embætti landbrh. Ég ber ekki slíkt traust hvorki til ráðherrans né ríkisstj.

Í þriðja lagi, hv. þm.: Þegar kjarasamningarnir voru til umræðu og þær efnahagsráðstafanir sem fluttar voru í frumvarpsformi á Alþingi þeim til staðfestingar kom mjög skýrt fram í okkar málflutningi að þó að við mæltum með því að þessi tilraun væri gerð vöruðum við mjög eindregið við því að sú leið sem ríkisstj. tók til að standa við sinn hlut af samkomulaginu, nefnilega sú að afla fjármuna eingöngu með lánum, væri mjög vafasöm. Við gagnrýndum hana mjög harðlega og töldum það vera veikasta hlekkinn í samkomulaginu með þeim eðlilegu rökum að skuldasöfnun ríkissjóðs er komin á það stig að sprengirými verðbólgunnar er einkum þar að finna. Það er mjög hætt við því að þegar ríkisstj. stendur ekki betur við sinn hlut fari að koma á daginn með haustdögum, ég tala nú ekki um ef eitthvað ber út af í ytri skilyrðum, að ríkisstj. verði um megn að standa við sinn samning.

Þannig er alveg á hreinu að ég ber ekkert ofurtraust til hæstv. ríkisstj. og hefði kosið að hún gerði aðrar ráðstafanir til að standa við sinn hlut, þ.e. að spretta upp fjárlögum og lánsfjárlögum, draga úr erlendum lántökum og afla fjár að sumu leyti með skattheimtu. Þetta er hv. þm. vel kunnugt um, enda höfum við flutt um það tillögur. Þar hefur ekkert farið á milli mála.

Kjarni þessa máls er ósköp einfaldlega þessi: Ef það er svo að ekki er verið að afla annarra heimilda en aðeins tímabundið á því tímabili sem nægilegt framboð er á innlendum markaði af innlendum kartöflum, nothæfum líka til verksmiðjuframleiðslu, þarf ekki að gera annað en samþykkja þær brtt. sem hv. þm. Friðrik Sophusson hefur lagt hér fram og þess vegna algerlega röng ályktun hjá honum að draga tillögurnar til baka. Það væri hins vegar prýðilegt samkomulag í málinu og mjög eðlilegt samkomulag í málinu, sér í lagi eftir ræðu hv. þm. Guðmundar J. Guðmundssonar, sem er einn af persónulegum ábyrgðarmönnum samkomulagsins við ríkisstj., að hv. þm. Friðrik Sophusson 2. þm. Reykv. drægi til baka sína till. og hæstv. landbrh. staðfesti það til að undirstrika orð forsrh. að hann væri reiðubúinn að draga frv. til baka. Þá þurfa menn ekkert að vera að ræða út í bláinn um traust sem menn bera hugsanlega hver til annars. Þá stendur það að Alþingi er ekki að framsala meiri heimildum til álagningar á almenning en samrýmist þeirri yfirlýsingu sem hæstv. forsrh. gaf.