23.04.1986
Neðri deild: 101. fundur, 108. löggjafarþing.
Sjá dálk 4600 í B-deild Alþingistíðinda. (4427)

341. mál, sala jarðarinnar Streitis

Frsm. minni hl. (Jón Baldvin Hannibalsson):

Herra forseti. Það fer vel á því að seinasta mál á dagskrá á þingslitadegi sé bæjarnafn með svo göfugu heiti, Streiti, sem mun vera einsdæmi á Íslandi þótt Örnefnastofnun tjái mér að eitthvert örnefni sé í Mývatnssveit sem beri sama heiti. Streiti er stofnskylt stríð og strit og það er göfugt stríð að streitast á móti sölu jarðar sem ber þetta göfuga nafn.

Tvennar röksemdir gera út um það mál. Þar af vega þyngst þær nýju upplýsingar sem ekki hafa víst komið hér áður fram en í ræðu næstseinasta ræðumanns. Það er m.ö.o. upplýst að þau fskj. sem fylgja þessu máli eru með öllu ómerk. Þau eru samansett og samþykkt áður en það bar til að heimamenn, eins og fram kom í máli næstseinasta ræðumanns, sem nytjað hafa þessa jörð, óskuðu eftir því við hreppsnefnd að eiga kost á að kaupa hana. Þar með er það sjónarmið, sem ræður kannske afstöðu einhverra, að þetta sé einróma samþykkt sveitarstjórnar og jarðanefndar, úr gildi fallið.

Í annan stað gildir svo hitt sjónarmiðið: Hér er augljóslega óeðlilegt, miðað við hver umsækjandinn er, þótt hann eigi hlað í grennd við hæstv. forsrh. í Mávanesi, að ef einhver alvara fælist í áformum hans um nýtingu á þessari jörð til að hirða æðarfugl og angórakanínur og stunda garðrækt, sem er ekki, samanber nafnið, mjög líklegt að sé best til þess fallin af jörðum á Íslandi, þá væri hægt að gefa honum kost á því með leigu uns það er sýnt hver alvara felst í búskaparáformum umsækjandans.

Þess vegna tek ég undir það með hv. seinasta ræðumanni og óvæntum bandamanni mínum í landbn., hv. þm. Eggert Haukdal, að þetta stríð að streitast að móti sölu á Streiti er gott stríð og það væri við hæfi að meiri hluti þingheims lyki þingstörfum á þessu ári með því að láta þetta strit bera nokkurn árangur.