23.04.1986
Neðri deild: 101. fundur, 108. löggjafarþing.
Sjá dálk 4602 í B-deild Alþingistíðinda. (4430)

341. mál, sala jarðarinnar Streitis

Ólafur Þ. Þórðarson:

Herra forseti. Hér er á ferðinni mikið alvörumál eins og menn vita og ég hef verið að reyna að afla mér upplýsinga um sögu þessa staðar, hvað það geti verið sem er svo girnilegt að menn ákveði að hætta búsetu í Arnarnesi en flytja að Streiti. Satt best að segja er ekki um mjög auðugan garð að gresja en þó hefur þessi staður komið við sögu í ýmsu tilliti. M.a. er það vitað að Tyrkir gerðu áhlaup á þennan stað á sínum tíma. Ég hygg að það geti varla ráðið úrslitum í þeim efnum að menn leita svo stíft eftir búsetu á þessum stað en þó gæti verið fróðlegt að kynna sér að þarna er nokkuð auðvelt að komast að landi og spurning hvort það hefur einhver áhrif á áhuga manna á búsetunni.

Ég hef aftur á móti aflað mér þeirra upplýsinga, þó að þær séu munnlegar en ekki skriflegar, að þetta er með kaldari stöðum á Austfjörðum og dregur það mjög úr því að hagstætt sé að stunda þar garðyrkju. En varðandi kanínurnar hefur komið í ljós að landið er fjöllótt og gæti verið hæpið að sleppa kanínunum. Ég vakti athygli á því áðan að við blasir að án þess að hafa búsetu þarna allan ársins hring er hæpið að það sé gjörlegt að stunda kanínurækt en sé ætlunin að sleppa kanínunum hlýtur það að vera mikið atriði að landið sé þannig að sæmilegt sé að smala þeim þegar í það verk er farið.

Mér sýnist allt benda til þess, hvort sem mönnum líkar það betur eða verr, að þetta mál sé ekki þann veg undirbúið að nokkuð mæli með því að rjúka til og afgreiða það út úr þinginu. Mér skilst að það þurfi verulegan undirbúning til þess að hægt sé að hefja þarna búskap og það er ekkert sem kæmi í veg fyrir að viðkomandi aðili ætti kost á því að fá jörðina leigða til búsetu og gæti farið að viða að sér efni í uppbyggingu jarðarinnar. Hins vegar sýnist mér að ef menn rjúka til og afgreiða þetta mál á þann hátt sem hér er lagt til sé fenginn sölugrundvöllur fyrir flestum jörðum sem ríkið hefur í sinni eigu til þéttbýlisins á höfuðborgarsvæðinu, hvort sem menn mundu þá útbúa trúverðugri skýrslu um fyrirhugaðan búskap en hér liggur fyrir.

Ég er yfirleitt andvígur því að þingið láti svona mál frá sér fara, að leggja til að jörð sé seld aðila sem leitar eftir henni og hefur áður hafnað því að taka hana á leigu með eðlilegum hætti, vitandi það að jörðin er nú nytjuð af ábúanda í þessari sömu sveit og viðkomandi ábúandi hefði þá allt eins hug á því að kaupa jörðina heldur en tapa þeim nytjum sem hann hefur af henni. Mér sýnist að það séu ákaflega fá rök sem mæla með því að þetta sé gert. Þau einu rök hafa komið fram sem tengja þennan umrædda einstakling við þessa jörð að móðir hans sé fædd á þessum stað og út af fyrir sig ætla ég ekki að gera lítið úr því að tilfinningatengsl geti skapast vegna slíkra hluta en samt sem áður get ég ekki talið það nægan grundvöll til ákvarðanatöku um sölu á jörðinni. Mér sýnist að eitthvað meira þurfi að koma til og ég held að landbn. hefði þurft að hugleiða það betur hvaða dyr hún er að opna með þeim hugmyndum sem hér eru fram settar. Mér finnst það dálítið undarlegt að þrátt fyrir harða gagnrýni í þingsal hefur talsmaður nál., hv. 1. þm. Norðurl. v., talið það vitlegast að víkja úr salnum meðan umræðan fer fram og skyldi maður þó ætla að hann hefði ekki talið sér neitt að vanbúnaði að verja þetta mál ef hann teldi að hann hefði kannað það svo gjörla sem hefur verið látið í skína.

Ég veit ekki hvort það er nokkuð verri meðferð á þessu efni en sú sem hefur verið viðhöfð að lesa hér örstuttan kafla, með leyfi forseta, þar sem minnst er á þegar Tyrkir gerðu áhlaup á sínum tíma og hjuggu þar strandhögg og kannske segir það okkur vissa hluti um þennan stað. Ég gæti hugsað mér, með leyfi forseta, að lesa örstuttan kafla upp úr bókinni Tyrkjaránið á Íslandi sem Sögufélagið gaf út og prentað var í prentsmiðju Gutenbergs 1906-1909. Þar er sagt frá málum á Austfjörðum. Það er búið að gera grein fyrir árásum á aðra staði og þetta er úr miðjum kaflanum:

„Sem þetta fólk frá Hamri var komið til skips fóru þeir enn aftur yfir um fjörðinn að Berunesi og fóru svo norður yfir fjöllin til þess þeir komu í Breiðudali.“ Með leyfi forseta. Þetta er frásögnin af árás Tyrkjanna á þennan stað. „Þeir voru átta í hóp og komu fyrst á þann bæ sem heitir Ós. Þar fundu þeir þrjá karlmenn og bundu þá bæði á höndum og fótum. Það var Gísli Þórarinsson og hans sonur og Ásmundur Hermannsson og þeir settu tvo vopnlausa að geyma þá á meðan hinir hlupu eftir mönnunum yfir um ána frá Eydölum sem áttu að koma undan nokkrum kistum síra Höskuldar. En þegar þeir voru í burt farnir flýði Jón frá Streiti með sitt fólk, en hann vissi ekki af neinum ófriði í Breiðudölum. En þá þessir tveir vaktarar sáu þetta fólk flýðu þeir upp í fjallið en Jón á Streiti leysti þessa menn og svo flýðu þeir með honum inneftir Breiðudölum og upp í Hérað. En þeir menn sem með kisturnar fóru yfirgáfu þær og flýðu sjálfir. Úr þeim kistum tóku ræningjarnir nærri til 30 hundraða, sem var klæði og silfur, en þeir klufu kisturnar í sundur; en aldrei fóru þeir til Eydala því þeim sýndist það vera klettur sem staðurinn var. En þeir leituðu víða um Breiðdalinn að mönnunum og fundu þá ekki en þeir rændu á bæjunum sem þeir komu og sneru svo aftur til skipanna.

Á sunnudaginn fóru þeir enn aftur inn í Breiðudali og vildu vita hvort fólkið vitjaði ei aftur heim til bæjanna og lágu í leyndum hér og hvar. En síra Höskuldur Einarsson hafði tilsett átta menn á njósn að forvitnast um hvað þeir sæi nýlegt um ræningjana og þeir ætluðu að ríða heim til Eydala, en áður en þeir komust heim til staðarins urðu í vegi fyrir þeim átta ræningjar sem stukku upp úr einni lág og tóku strax til að elta þá. Og þá þeir höfðu elt þá nokkra stund náðu þeir einum en á meðan þeir bundu hann þá riðu hinir þeim hvarf og komust svo undan.“

Herra forseti. Ég ætla ekki að hafa þennan formála lengri, en á þessum tíma virðist ekki hafa verið gjörlegt að stunda svo mikinn búskap á þessum bæ að þar væri nein auðs von því það er talað um Jón einan úr hópi karlmanna með sitt heimafólk. Og enn vaknar sú spurning hvaða hugmyndir það geta verið að flytja búsetur úr Arnarnesinu og austur á þessa jörð. Hvaða hugmyndir eru það sem geta verið svo girnilegar að menn taki slíkar ákvarðanir? (Gripið fram í: Átti Jón kanínur?) Það er spurt um það hér og ekki að ástæðulausu hvort ábúandi á Streiti á þeim tíma hafi átt kanínur. Það kemur ekki fram að svo hafi verið, en mér þætti það fremur undarlegt ef hann hefði stundað þar kanínurækt.

Ég held að öll sú umræða sem hér hefur farið fram um að þessi jörð sé æskileg til enduruppbyggingar, það girnileg að það sé skynsamur valkostur hjá einhverjum aðila úti í Arnarnesi að láta þar eigur sínar í skiptum fyrir jörð austur á fjörðum, nema e.t.v, sé hugsunin sú að þessi jörð verði aldrei seld nema fyrir mjög lága upphæð og tilgangurinn sé yfir höfuð ekki sá að flytja austur. Þá spyr maður sjálfan sig hvort hugsanlegt sé að ætlunin sé sú ein að kaupa jörðina og hafa þetta sem nokkurs konar sel yfir sumartímann, e.t.v. til þess að fylgjast með æðarkollunum og ekkert nema gott um það að segja. (Gripið fram í: Er nokkur æður á Streiti?) En ég efa aftur á móti mjög að garðyrkjan sé hentug á þessum stað. (Gripið fram í: Er nokkur æður á Streiti?) Já, það er ekki óeðlilegt að sú spurning komi hér fram. Ég tel það mjög trúlegt að það megi finna æðarkollur austur þar, en hvort þar er yfir höfuð æðárvarp eða ekki? Mér sýnist ekkert í þessum gögnum, sem fram hafa komið, staðfesta að svo sé. En það er aftur á móti viðurkennd staðreynd varðandi æðarvörp að ef þau eru með hæfilegu millibili þá eykst ekkert heildarvarpið þó að bætt sé við nýjum vörpum og sé æðarvarp þarna í sveitinni á nokkrum stöðum, sem ég vil þó ekkert um fullyrða, þá yrði það ekki til þess að auka æðarvarpið í heild, eða útflutningstekjur landsmanna þó að hluti af þeim æðarfugli, sem nú heldur sig annars staðar, tæki að venja komur sínar á þetta býli. Þess vegna sýnist mér að öll rök í þessu máli séu víðs fjarri.

Hér er það fyrst og fremst staðreynd að ákveðnir aðilar hafa valið þann kostinn að verða við tilmælum um að selja ríkisjörð í trássi við vilja þess manns sem hefur þó nytjað jörðina, hvort sem mönnum finnst að það hafi verið á þann veg að það mætti nýta hana betur eða verr. Og það er einnig upplýst að sá aðili, sem leitar eftir að fá jörðina keypta, átti kost á því að hefja búskap á jörðinni. Þá hefði hann að sjálfsögðu fallið inn í þá eðlilegu reglu að eiga rétt á að kaupa þessa jörð eftir tíu ára búsetu á henni. Undir þeim kringumstæðum hefði það verið sjálfgefið mál að honum hefði verið seld jörðin.

Ég efa stórlega að það sé þinginu til virðingar að menn setji annars vegar almennar leikreglur sem eigi að gilda fyrir þá sem búa á íslenskum ríkisjörðum en taki svo upp hjá sjálfum sér að útbúa aðra leikreglu sem ætlunin er að gildi ef einhverjir vel stöndugir menn á þéttbýlissvæðinu finna það út að þeir eigi ættartengsl við ákveðnar jarðir úti á landi og því sé sjálfgefið að þeir leiti þar eftir kaupum á viðkomandi jörðum.

Herra forseti. Það væri hægt að tala langt mál um þessa hluti. Hins vegar er það mjög bagalegt að flm. meirihlutaálitsins skuli vera horfinn úr salnum, en ég hefði gjarnan viljað spyrja hann örfárra spurninga og tel nánast að ég geti ekki lokið máli mínu fyrr en hann verður hér til staðar til að útskýra þá hluti. Mér hefur sem sagt m.a. láðst að spyrja að því hvert sé búmark þessarar jarðar því að hugsanlegt er að það fylgi henni svo stórt og mikið búmark að viðkomandi aðili sjái sér hag í því af þeirri ástæðu að komast yfir jörðina og væru þá komnar á því skýringar hvers vegna málið er sótt með slíkri festu. En þetta verður vafalaust ekki upplýst nema flm. nefndarinnar mæti hér og geri grein fyrir þessum hlutum.

Hér í umræðunni hefur komið í ljós að viðurkenndur stóðhestur mun vera ættaður frá þessum stað. Vissulega er það rétt að viðurkenndir stóðhestar geta verið mjög verðmiklir og hugsanlegt væri að selja þá út fyrir verulega fjármuni, en þetta segir náttúrlega ekkert um það hvort landrými er þarna til staðar almennt til að hafa einhverja hrossarækt eða hvort þarna hafa verið örfáir hestar og það er nú varla hugsanlegt að það sé rekstrargrundvöllur fyrir slíkum búskap ef niðurstaðan er sú að landrými sé af skornum skammti til þess að hafa þar stóð. En það er bagalegt að frsm. nefndarinnar skuli vera farinn úr salnum - en hann er mættur í salinn og því er rétt að spyrja hv. 1. þm. Norðurl. v.: Hvaða búmark fylgir viðkomandi jörð og hvernig skiptist það? (Gripið fram í.) Málið versnar því hann hverfur jafnhraðan úr salnum sem hann birtist hér og er erfitt undir slíkum kringumstæðum. . . (Gripið fram í: Hann er að leita að búmarkinu, maður.) Það er erfitt undir slíkum kringumstæðum, forseti, að halda áfram að spyrja manninn út úr. (Forseti: Forseti sér það af hyggjuviti sínu að hv. frsm. meiri hlutans er að gæta í bækur um þetta, hvert búmarkið muni vera.) Því verður vart trúað, herra forseti, að slík fljótaskrift hafi verið á afgreiðslu málsins að flm. hafi ekki kynnt sér landkosti og möguleika til búskapar áður en hann afgreiddi málið. En þó er hugsanlegt að þetta sé rétt og vildi ég þá, með leyfi forseta, mega gera hlé á ræðu minni þar til hv. 1. þm. Norðurl. v. gengur aftur í salinn, því ég hugðist leggja fyrir hann fleiri spurningar. (Forseti: Ég vil spyrja hv. þm. hvort hann mundi ekki vilja halda áfram ræðu sinni.) Það er eins og ég sagði ákaflega erfitt að spyrja þann ágæta þm., 1. þm. Norðurl. v., spurninga þegar hann er ekki við, en þó skal reynt að halda því áfram.

Komið hefur í ljós og hefur ekki verið mér vitanlega mótmælt af neinum að jörðin hentar illa undir garðrækt. Nú er það fram tekið að það þurfi að áskilja ríkinu land undir veg. Og mér er nú spurn hvort jörðin hentar undir kanínurækt ef ekki er vegur að býlinu. Því eftir því sem ég best veit þá mun nokkur þörf fyrir aðföng og eins hitt að flytja afurðir burtu sé þar kanínurækt og því æskilegt að vegur sé til staðar. (Gripið fram í: Kanínuvegur.) Þess vegna blasir það við að æskilegt væri að hæstv. samgrh. gerði grein fyrir því hvort á vegáætlun þeirra Austfirðinga sé gert ráð fyrir því að leggja veg þarna núna á næstunni. Gæti það upplýst menn um hvenær hugsanlegt væri að búskapur gæti hafist. Því ef þetta er nú ekki fyrr en eftir fjögur, fimm ár þá er spurning hvort það sé fortakslaus nauðsyn að afgreiða málið út úr þinginu nú á þessum degi.

Hitt atriðið sem ég ætlaði að spyrja hv. 1. þm. Norðurl. v. út úr, er hvort þarna séu heppilegir hagar fyrir stóðhald, því það er heimilt að hafa stóð þó að búmark sé ekki til staðar. Hrossaeign er fyrir utan búmarkið og því hugsanlegt að maðurinn ætti möguleika á því að hafa þarna kynbótabú, e.t.v. hrossarækt út af Blakk nr. 101, ef ég man þetta rétt. (Gripið fram í: 129.) 129 leiðréttir hér 2. þm. Norðurl. v. og rengi ég hann ekki í þeim efnum. (Gripið fram í: Hvað með tamningar?) Auðvitað er vonlaust að afgreiða þetta mál án þess að þessi gögn liggi fyrir. Auðvitað er það vonlaust. Þessi málatilbúnaður allur virðist vera einn skrípaleikur frá upphafi til enda. Hvaða orsakir geta legið til þess að maður ákveður að hafna því að setjast að á þessari jörð og leigja hana? Fyrsta spurning hlýtur að vera: Voru leigukröfurnar svo óhóflegar af hálfu ríkisins að vonlaust þótti að setjast þar að? Og þá er spurningin: Hvert er fasteignamat viðkomandi jarðar? Voru leigukröfurnar svo miklar að vonlaust þótti að setjast þar að? Það liggur alveg ljóst fyrir að allt sem viðkomandi aðili framkvæmir á jörðinni er ríkið skyldugt að kaupa af honum aftur. Þannig að hann er ekki í neinni hættu að tapa eignum sínum.

Mér sýnist að það séu margir lausir endar í þessu máli, herra forseti. Og mig undrar það satt best að segja að landbn. skyldi flýta sér svo að afgreiða þetta mál og að það skuli svo á eftir því rekið að sá sem er 1. flm. málsins, hv. 1. þm. Norðurl. v., telji nú á elleftu stundu að hann þurfi að vera á hlaupum út um borg og bý eftir upplýsingum í stað þess að vera hér í salnum til að svara athugasemdum. Það verður að teljast alveg merkileg málsmeðferð, herra forseti, ef það er eðlilegt að hér standi menn í ræðustóli og spyrji og spyrji um upplýsingar en þeir sem ættu að skrifa niður og búa sig undir að svara séu bara horfnir úr salnum. (Gripið fram í: Þetta nær engri átt.) Hverju gegnir með svona vinnubrögð? Það undrar mig satt best að segja ef þetta mál er orðið að slíku stórmáli að ríkisstjórn Íslands með ákaflega ríflegan þingmeirihluta telur nú að komið sé í það óefni að ekki sé hægt að slíta þingi án þess að málið sé afgreitt. Og forsrh. hefur lýst því yfir hér í ræðustól að hann hafi engra hagsmuna að gæta í þessu máli. Ég leit svo á að það væri hagsmuna að gæta fyrir hönd ríkisstj. Það hvarflaði ekki að mér að hann hefði neinna persónulegra hagsmuna að gæta. Ég tók þetta sem yfirlýsingu fyrir hönd ríkisstj. Þannig að það verður enn þá dularfyllra hvers vegna svo mjög er rekið á eftir þessu máli.

Ég ætla ekki að hafa mál mitt lengra. herra forseti, en vænti þess að það komi svör við þeim spurningum sem hér hefur verið varpað fram.