13.11.1985
Efri deild: 14. fundur, 108. löggjafarþing.
Sjá dálk 561 í B-deild Alþingistíðinda. (445)

2. mál, lánsfjárlög 1986

Jón Kristjánsson:

Virðulegi forseti. Ég vil ekki láta hjá líða að taka til máls hér við 1. umræðu um lánsfjárlög og koma inn á þær meginlínur sem fram koma í frv. Frv. fer að venju að lokinni þessari umræðu til fjh.- og viðskn. til skoðunar í einstökum atriðum. Við 2. umræðu gefst því vafalaust tækifæri til að fjalla nánar um einstaka þætti ef þurfa þykir. Lánsfjárlög eru nú lögð fram samhliða fjárlögum og er það mikið framfaraspor frá því sem var á síðasta þingi. Þá var verið að fjalla um lánsfjárlög þegar komið var fram á vor og er það að sjálfsögðu aldeilis óhæft vegna þess hve þessi lagasetning kemur inn á marga þætti í efnahagslífinu og hefur áhrif á ýmsar framkvæmdir í landinu. Framkvæmdaaðilar þurfa að gera áætlanir og leita til ýmissa fjárfestingarlánasjóða sem geta ekkí gert áætlanir um útlán fyrr en þessi lagasetning liggur fyrir. Það er vonandi að nú takist að afgreiða lánsfjárlög á skikkanlegum tíma.

Það sem er einkennandi fyrir frv. til lánsfjárlaga nú er að dregið er úr erlendum lántökum. Það er framhald á þeirri stefnu sem var tekin með lánsfjárlögum síðasta árs. Eins og kom fram í framsöguræðu hæstv. fjmrh. hér áðan lækkar hlutfall erlendra lána í opinberum framkvæmdum verulega á tveggja ára tímabili ef þetta frv. verður samþykkt eins og það liggur hér fyrir. Það má því segja að ríkissjóður gangi á undan í því að lækka erlendar lántökur en auðvitað mun það þýða að draga verður saman á ýmsum sviðum. Það er því ekki úr vegi að drepa í örfáum orðum á það hvað stöðug aukning erlendra skulda þýðir fyrir þjóðarbúskapinn.

Við höfum hingað til haft sæmilegt lánstraust erlendis. Skiptir þar áreiðanlega mestu máli að þrátt fyrir allt höfum við staðið í skilum við lánastofnanir og haldið uppi öflugri framleiðslu og útflutningi. Hins vegar eru ýmis hættumerki á lofti og þar getur komið að lánstraustið minnki eða þrjóti og erlendar lánastofnanir hafi úrslitaáhrif á ákvarðanir okkar í efnahagsmálum. Þá er styttra í það en margir hyggja að við töpum okkar efnahagslega sjálfstæði. Ég trúi því ekki að nokkur stjórnmálamaður vilji bera ábyrgð á slíkri þróun og að ég vil heldur þola þau óþægindi sem verða af samdrætti en bera þá ábyrgð.

Mönnum hefur orðið tíðrætt hér um ýmsa liði og hefur verið vikið sérstaklega að því að svartar hendur niðurskurðarmanna hafi skorið niður tíunda hvern lið eða svo í félags- og menningarmálum og sveiflað öxinni yfir menningunni í landinu. Það er vissulega rétt að menn hafa þurft að ráðast að ýmsum liðum. Það er ekki létt verk að gera það og það eru margir fleiri sem hafa orðið að þola niðurskurð. En þó er það ekki nema smáræði hjá því sem við yrðum að þola ef erlendar lántökur vaxa okkur yfir höfuð. Það er miklu betra að fresta einhverjum framkvæmdum um sinn en að erlendar lántökur verði úr hófi fram í þjóðfélaginu.

Það er í tísku núna að tala um ægivald Seðlabankans og einstakra bankastjóra hans í fjármálum okkar Íslendinga, með réttu eða röngu, ég leiði það alveg hjá mér í þessum orðum. En það er þó smáræði að eiga við þá hérna niðri í Seðlabankanum hjá því að sú stund kæmi að bankastjórar í New York eða einhverjum öðrum fjármálamiðstöðvum heimsins hefðu úrslitaáhrif í efnahagsmálum okkar Íslendinga.

Erlendar skuldir þjóðarinnar nema nú skv. nýrri reiknireglu 53% af landsframleiðslu og þær nema í krónum á meðalgengi ársins 1985 rúmlega 58 milljörðum kr. Það er alveg sama hvaða reiknireglur menn nota í þessu sambandi, þetta er hættulega mikið. Það lætur nærri að ein króna af hverjum fjórum, sem við öflum í gjaldeyristekjum, fari til að greiða vexti og afborganir af þessum skuldum. Vaxtakjör á fjármagnsmörkuðum heimsins hafa orðið veruleg áhrif á vaxtastefnuna hérlendis vegna þess hve stór hluti af því fjármagni, sem er í umferð, er erlent lánsfé. Í ljósi þessa er það grundvallaratriði að erlent lánsfé þarf að nota til að auka framleiðsluna og þar með útflutningstekjurnar og það fé sem við höfum til ráðstöfunar.

Það mætti fala langt mál um ráðstöfun erlends fjármagns á undanförnum árum en ég læt það liggja á milli hluta að sinni. Því miður hefur orðið misbrestur á að ráðstöfun þess væri nógu markviss. Ég held að ekki verði hjá því komist að nefna þær gífurlegu lántökur sem varið hefur verið til orkuframkvæmda. Erlendar skuldir orkugeirans nema nú 70% af skuldum opinberra aðila og um 47% af skuldum þjóðarbúsins í heild. Ég vil síður en svo halda því fram að þessu fé hafi öllu verið varið í óráðsíu því að það er ekki rétt. Og áreiðanlega mun öll þessi fjárfesting koma okkur til góða, þótt síðar verði. En við höfum farið hratt í þessum efnum. Við gerðum stórátak í því að nýta innlenda orkugjafa í kjölfar olíuverðshækkana, m.a. með því að byggja hitaveitur um land allt. Það mun koma okkur til góða þrátt fyrir tímabundna erfiðleika sumra hitaveitna.

Við þurfum auðvitað að nýta okkar vatnsafl en það ber að undirstrika að orkusala verður að fylgja virkjunarframkvæmdum. Þessir tveir þættir verða að fylgjast að. Við höfum rekið harða virkjunarstefnu án þess að nógu vel væri frá því gengið hvers konar orkunýting fylgdi í kjölfarið. Hér þarf að verða breyting á og í raun varð stefnubreyting í þessum efnum á síðasta ári. Það var fyrsta árið sem Landsvirkjun fékk ekki allar sínar óskir uppfylltar í lánsfjáráætlun.

Það er rétt að ekki er fyrirséð við óbreyttar aðstæður að þörf sé fyrir orku Blönduvirkjunar það sem eftir lifir af þessum áratug. Hins vegar er það grundvallaratriði að leita að sölumöguleikum fyrir orku því að vatnsaflið í landinu er auðlind sem okkur ber að nýta fordómalaust.

Sjónarmið Alþb. í þessum efnum komu vel fram í ræðu hv. 3. þm. Norðurl. v. hér áðan þar sem hann sagði um umleitanir um orkusölu til álversins í Straumsvík: „Sem betur fer hafa þessi áform brugðist.“ Þessi orð segja meira en löng ræða. Við verðum að ganga fordómalaust að því verki að leita að erlendum aðilum til að selja orku ef við ætlum að virkja í stærri stíl. Við getum ekki gengið að þessu efni með fordómum um erlent fjármagn og fordómum um samninga við útlendinga og þátttöku þeirra í atvinnumálum hér á Íslandi þó að auðvitað verðum við að hafa virkt forræði í þeim efnum.

Ég mun ekki fara lengra út í þessa sálma núna. Oft hefur verið rætt um undirstöðuatvinnuvegina í sambandi við erlenda skuldasöfnun, einkum sjávarútveginn. Skuldir hans eru þó smáræði miðað við skuldir í orkugeiranum. Og því verður þó engan veginn á móti mælt að við lifum fyrst og fremst á sjávarafla og tökum yfir 70% af útflutningstekjunum frá þessum atvinnuvegi.

Erlendar lántökur þurfa nú fyrst og fremst að ganga til þess að byggja upp atvinnulífið í landinu og leggja grunn að því velferðarþjóðfélagi sem við viljum lifa í, leggja þann grunn að við þurfum ekki að skera niður, hvorki til Kvikmyndasjóðs, Þjóðarbókhlöðu eða annarra slíkra málefna sem okkur langar til að sinna. Það væri vissulega gaman að geta gert það allt saman, en við höfum því miður ekki efni á því eins og er eins og svo fjöldamörgu öðru sem ég gæti talið upp. Ég gæti lesið upp langan lista og haldið ræðu það sem eftir er af tíma okkar í dag um verkefni sem mig langar til að vinna að og taka lán til, en ég ætla að láta það liggja á milli hluta. Staða okkar núna er einfaldlega þannig að efnahagur okkar leyfir ekki slík verkefni.