13.11.1985
Efri deild: 14. fundur, 108. löggjafarþing.
Sjá dálk 563 í B-deild Alþingistíðinda. (446)

2. mál, lánsfjárlög 1986

Helgi Seljan:

Virðulegi forseti. Það fer ekki milli mála að hæstv. fjmrh. nýbakaður kann sitt fag þegar hann er að leggja fyrir landslýð þann boðskap að allt sé svo erfitt og því verði fólk að una. Ég tók eftir því í framsöguræðu hæstv. fjmrh. fyrir fjárlagafrv., þessari ómynd sem má kannske kalla tilraunaútgáfu með afbrigðum, sem fjárlagafrv. er núna, að þá sagði hann að nú væru tiltölulega góð aflabrögð, daginn eftir að flokksbróðir hans, sá ágæti maður fiskimálastjóri, sagði okkur frá því að það stefndi í nýtt Íslandsmet í sjávarfangi okkar. Þetta er auðvitað réttlæting þess enn einu sinni að við lifum á erfiðum tímum og þrengingar alþýðuheimilanna, neyð þeirra sem verið er að bjóða aleiguna ofan af, válegt ástand víða á landsbyggðinni sé eðlilegt og í órofa samhengi við eðlilega tíma þegar m.a.s. Íslandsmet í aflabrögðum okkar á sjávarfangi er túlkað á þann hátt að aflabrögðin séu svona sæmileg, tiltölulega góð. Það er greinilegt að hæstv. fjmrh. kann að snúa eymdarsnældunni sinni bærilega þegar hann er að tala til fólksins í landinu.

Annars áttu þetta ekki að vera neinar almennar hugleiðingar um það stóra mál sem hér liggur fyrir því að því hafa þegar verið gerð góð skil af hv. 3. þm. Norðurl. v. Ég get hins vegar ekki stillt mig um að vekja athygli á því sem hv. 4. þm. Austurl. sagði áðan um stefnu okkar Alþýðubandalagsmanna í orkumálum og það hvernig ætti að koma fram við útlendinga. Hann lýsti stefnu framsóknarmanna á þann hátt að þegar selja á orkuna á algjöru undirverði til erlendra auðhringa og fólkið, almenningur í landinu, á að borga fyrir auðhringana kallar hann það að ganga fordómalaust að verki. Þetta er alveg dæmalaust framsóknarlegt og þarf ekki fleiri orð þar um. En fólkið í landinu, sem nú þegar borgar fyrir þessa auðhringa og sem á eftir að borga fyrir þessa auðhringa, tekur áreiðanlega eftir þessu algjöra fordómaleysi framsóknarmanna.

Ég ætla að víkja hér að tveimur atriðum sem ég hef áður vikið að við umræðu um lánsfjárlög. Það er í fyrsta lagi um að ræða II. kafla frv., skerðingarákvæðin svokölluðu, sem hvergi nærri eru ný af nálinni en hefur aldrei verið beitt jafnharkalega og freklega og af þessari hæstv. ríkisstj. Hér eru samþykkt lög á Alþingi, sum mjög nýlega, sem kveða á um ákveðið árlegt framlag ríkissjóðs til ýmissa þarfra málaflokka. Hæstv. fyrrv. fjmrh. hefur lýst því yfir, hæstv. núv. iðnrh., að hann hafi verið að láta gera úttekt á því hvað öll þessi samþykktu lög hefðu í raun og veru að segja og hvað menn hefðu verið að gera mikið að þessu á undanförnum árum og gert mikinn usla í ríkisfjármálunum með þessum hætti. Ég held að það hafi ekki komið mikið að sök hjá hæstv. núv. ríkisstj. því hún hefur séð svo rækilega til þess að lögbundin framlög til hinna ýmsu þörfu málaflokka hafi verið skorin það rösklega niður að það þarf ekki undan því að kvarta.

Ég staldra alveg sérstaklega við 16. gr. því þar er niðurskurðurinn að mínum dómi alvarlegastur. Þar eru tveggja ára gömul lög um málefni fatlaðra þverbrotin. Það er málaflokkur, eins og allir þm. vita, sem lengi var illa vanræktur en hvarvetna kallar á um framkvæmdir, framkvæmdir sem í framtíðinni verða þjóðhagslega arðbærar. Ég undirstrika að þær framkvæmdir verða þjóðhagslega arðbærar með tímanum þó að þær kosti mikið í upphafi því að þar verður niðurstaðan sú að hugvit og verklagni fatlaðra ná fram til verðmætasköpunar af margvíslegu tagi í stað stofnanavistunar sem áður gilti hér um mikinn fjölda þessa fólks, að ekki sé nú um mannlega þáttinn rætt í þessu sambandi. Sameiginlegt fjármagn þessa sjóðs á þessu ári er 80 millj., en það skal tekið fram að það er með þeirri 15 millj. kr. aukafjárveitingu sem óhjákvæmilega varð að veita og hæstv. fyrrv. fjmrh., núv. hæstv. iðnrh., á vissulega miklar þakkir skildar fyrir. Við ræddum þessi mál hér í fyrra og fékkst þá þegar á nokkur leiðrétting og enn frekari síðar þegar sýnt var að útilokað væri annað en að standa þannig að máli. Hæstv. núv. iðnrh. var það ljóst þá, þegar hann fór að skoða þennan málaflokk betur, að það var útilokað annað en verja þessu fjármagni til sjóðsins. Núna kemur í ljós að upphæðin er sú sama og var í fyrra og raungildið þaðan af minna að sjálfsögðu, þ.e. þegar öll kurl eru til grafar komin varðandi þessa upphæð.

Bæði Öryrkjabandalagið og Landssamtökin Þroskahjálp hafa bent á hversu stórkostleg skerðing hér er á ferðinni. Samkvæmt þeirra útreikningi, sem hvergi hefur verið vefengdur, ætti þessi fjárhæð, ef farið væri að lögum, ekki að vera 80 millj. heldur 180 millj. svo allri sanngirni sé beitt. Þannig er farið með þessi lög og aldrei verið jafnlangt gengið og nú í þessari skerðingu.

Ég bendi á þetta líka í órofa tengslum við það að ekki er sama hvernig aðhafst er í hinum ýmsu málaflokkum. Á sama tíma og hæfilegt þykir að verja til allra framkvæmda í þágu fatlaðra 80 millj. er framlag inni á fjárlögum, í formi lántöku að vísu, til frægrar flugstöðvarbyggingar, eftirlætis þessarar ríkisstjórnar, samtals 300 millj. Næstum fjórum sinnum hærri upphæð á að verja til gæluverkefnis þeirra og Kananna, fjórum sinnum hærri upphæð en til allra framkvæmda í þágu fatlaðra. Þetta segir í raun og veru meira um hugarfar og stefnu en flest annað hjá hæstv. ríkisstj.

Að sjálfsögðu mun verða leitast við að fá hér leiðréttingu fram. Mér er ekki alveg ljóst, af því að þessi lög verða líklega afgreidd nokkuð samhliða fjárlögum, hvort það á að gerast með því að flytja brtt. eins og ég gerði í fyrra um hækkun skv. 16. gr. eða hvort á að fara með það beint inn á fjárlög. Trúlega er eðlilegast að leitað sé til fjvn., enda veit ég að Öryrkjabandalagið og Þroskahjálp munu ganga á fund fjvn. og gera tilraun til að fá leiðréttingu þar. Þannig er kannske eðlilegast að það fari í gegnum fjárlagaafgreiðsluna sjálfa.

Það mætti fleiri nefna hér til. Eitt atriða í fagnaðarerindi hæstv. fjmrh. í gær var um 6 millj. kr. skerðingu til Félagsheimilasjóðs. Þá er hann kominn niður í 12 millj. miðað við það sem 21. gr. og fjárlögin segja annars til um. Ég þykist vita að framsóknarmönnum, og heyrði það reyndar á hv. 4. þm. Austurl., er það ekki einskært fegins- og fagnaðarefni, enda hafa þeir verið allra manna iðnastir hér í þingi við að flytja tillögur um stórkostlega eflingu Félagsheimilasjóðs. Félagsheimilin gegna nú einu sinni því hlutverki, þó þau gegni því misjafnlega vel, að vera athvarf fyrir æskuna. Það er þess vegna verðugt á ári æskunnar að skera þetta allrösklega niður, sérstaklega ef ætti nú að fara út í það að Félagsheimilasjóður styrkti í auknum mæli félagsmiðstöðvar sem sérstaklega eru hugsaðar fyrir æskulýðinn.

Ég vildi svo í lokin víkja að máli sem er mér mjög hugleikið, en það snertir mengunarvarnir í fiskimjölsverksmiðjum. Við afgreiðslu lánsfjárlaga í fyrra flutti ég brtt. um lánsútvegun í þessu skyni því vandkvæði þeirra sem vilja bæta ástandið í verksmiðjunum eru bundin því að ekki fæst lánsfjármagn sem til þarf. Batnandi staða verksmiðjanna í kjölfar aukinnar vinnslu ætti hér að hjálpa til, en víst er að aðgerðir allar eru mjög kostnaðarsamar. Hins ber að geta að frambúðararður er ærinn, bæði í betri nýtingu og gæðum og orkusparnaði einnig. Þetta er tvímælalaust fjárfesting sem borgar sig í framtíðinni, auk þess sem mengunarvandinn er víða orðinn algerlega óviðunandi og hefur raunar verið svo og mættu menn gjarnan heyra og hlýða á raddir þess fólks sem býr við þennan ófögnuð mikinn hluta ársins.

Nú er enn frekari ástæða til þess að fylgja þessu eftir þar sem Alþingi samþykkti í fyrra svohljóðandi ályktun um þessi mál, með leyfi hæstv. forseta:

„Alþingi ályktar að fela ríkisstjórninni að gera áætlun um varanlegar úrbætur í mengunarmálum fiskimjölsverksmiðja í samvinnu við eigendur og samtök þeirra svo og yfirvöld heilbrigðismála.

Áætlunin miðist við að lágmarkskröfum um mengunarvarnir verði fullnægt í öllum starfandi fiskimjölsverksmiðjum og feli jafnframt í sér mat á fjárþörf og þeim tíma sem slíkar aðgerðir tækju. Verði í senn haft í huga ytra og innra umhverfi verksmiðjanna og lögð áhersla á bætta nýtingu hráefnis og orkusparnað ásamt viðhlítandi mengunarvörnum.“

Alþingi hefur því ótvírætt lýst yfir vilja sínum í þessu efni og þá er ótækt annað en fylgja þessu eftir. Annað er ekki sæmandi. Því mun ég endurflytja till. um nýja grein, 11. gr., þessara lánsfjárlaga, sem komi á eftir 10. gr. og orðist svo, með leyfi forseta:

„Framkvæmdasjóði Íslands er heimilt að taka lán að upphæð 100 millj. kr. til þess að endurlána Fiskveiðasjóði vegna mengunarvarna og orkusparnaðar í fiskimjölsverksmiðjum.“

Af hógværð og í heldur miklum takt við eymdarstefnu ríkisstjórnarinnar er þetta sama upphæð og í fyrra, en því auðveldara ætti að vera að samþykkja hana í ljósi mikillar nauðsynjar, í ljósi þess að þetta er arðbær aðgerð, í ljósi þess að Alþingi hefur lýst vilja sínum til að vinna að þessu máli og í ljósi vaxandi vinnslu í náinni framtíð og betri stöðu verksmiðjanna til að taka á þessu vandamáli.