13.11.1985
Efri deild: 14. fundur, 108. löggjafarþing.
Sjá dálk 568 í B-deild Alþingistíðinda. (449)

2. mál, lánsfjárlög 1986

Iðnrh. (Albert Guðmundsson):

Virðulegur forseti. Ég vil strax segja það að ég harma að ég hafði ekki tækifæri til að mótmæla þeim málflutningi um framlagningu fjárlagafrv. sem viðhafður var í gær í sameinuðu Alþingi af þeirri einföldu ástæðu að ég tel mig vera þó nokkuð ábyrgan fyrir því frv. sem lagt var fram og mælt var fyrir og var hart deilt á af flestum. Við skulum orða það þannig að ég harma að hafa að vera útilokaður frá því að geta varið það frv. og mig sem fyrrv. fjmrh. um leið.

Ég sé ekki í hverju það getur legið að flestir ef ekki allir þeir þm. stjórnarandstöðunnar sem tóku til máls segja að fjárlagafrv. sé marklaust plagg, tölur á ferð og flugi o.s.frv. Ég veit ekki hvaða orð hafa verið notuð áður. Ég held þó að alltaf hafi stjórnarandstaðan, hver sem hún er, talið það plagg sem hefur komið frá fjmrh. marklaust, einskis virði og tæplega þess virði að ræða málin. En það vill svo til í þessu tilfelli að fjárlagafrv. er betur unnið og skýrara fram lagt og gefur meiri upplýsingar en nokkru sinni fyrr. Þetta fjárlagafrv. er tvímælalaust unnið af þeim mönnum í þjóðfélaginu sem eru hvað fullkomnustum tækjum og hugviti búnir til að vinna frv. Þetta frv. er lagt fram eftir meiri samvinnu við ráðuneyti, ráðherra og ríkisstjórn en ég veit til að áður hafi verið og með meiri hörku framfylgt niðurskurði en ég þekki til að áður hafi verið gert. Það eru meiri og betri upplýsingar á einum stað í niðurstöðutölum, meiri skýringar með þeim og t.d., sem er nýjung og enginn fjmrh. hefur nokkurn tíma gert áður, er gefið sundurliðað yfirlit yfir aukafjárveitingar og framtíðarspá til viðbótar. Þetta hefur aldrei verið gert. En síðan er fjárlagafrv. sem slíkt tætt í sundur af óábyrgri stjórnarandstöðu sem augsýnilega hefur ekkí litið í frv. nema með öðru auganu. Nógu lengi er það þó búið að liggja frammi. Á sama tíma, og það er til viðbótar við það sem ég hef nú sagt, er lánsfjárlagafrv. líka til sýnis, skoðunar og umhugsunar fyrir stjórnarandstöðuna. Síðan verða mannaskipti í ríkisstjórninni og hæstv. núv. fjmrh. mælir með þessu frv. Hann leggur ekki fram nýtt frv. Frv. sem hann mælir fyrir er það frv. sem ég hafði lagt fram og með þeim niðurskurði, með þeim árangri sem náðst hafði þá með samþykki allra, bæði ríkisstj. og beggja þingflokka sem að henni standa.

Þegar mannaskipti verða nær hæstv. fjmrh. betri og meiri árangri í niðurskurði en ég hafði gert. Það getur vel verið að það sé vegna þess að hans ákvörðun og hans persóna vegi þyngra í þeirri vinnu sem við báðir höfðum unnið. Það er alveg augljóst. En eitt get ég sagt, að sá niðurskurður sem ég hafði farið fram á sem fjmrh. við fyrrv. iðnrh. er nú orðinn að veruleika eftir að ég tók við iðnaðarráðherrastarfinu, enda kom það fram hjá hæstv. fjmrh. í gær að hann fylgir sínum brtt. úr hlaði með þeirri ósk að fjvn. geri þær að sínum tillögum. Og ég stend heils hugar að öllu því sem hæstv. fjmrh. hefur lagt til.

Það er eins með fjárlagafrv. og önnur frumvörp að þau eru öll til umræðu, öll til skoðunar í nefndum og auðvitað er nefndum og öðrum þm. frjálst að gera breytingar á þeim, annaðhvort með niðurskurði eða til hækkana. Það er svo með öll frv., og þetta frv. er ekkert öðruvísi en öll önnur fjárlagafrv. sem lögð hafa verið fyrir Alþingi frá upphafi, að þau taka að sjálfsögu mismunandi miklum breytingum. Ég vil segja það eitt að hæstv. fjmrh. hefur náð alveg frábærum árangri sem ég heils hugar styð.

Ég veit ekki hvort það hefur áður skeð að með fjárlagafrv. hafi lánsfjárlagafrv. komið fram líka. Oft hafa þau komið fljótt - a.m.k. nokkrum sinnum fljótt á eftir fjárlagafrv. -en samtímis, ég veit ekki hvort það hefur skeð. Það held ég ekki. Hér er því ekki, eins og hv. 3. þm. Norðurl. v. sagði, marklaust plagg sem væri feilskot út í bláinn til einskis að ræða því það væri ómerkt plagg. Það er langt frá því að þessi fjárlög eigi skilið þau ummæli frá hæstv. fyrrv. fjmrh. sem lagði fram fjárlög byggð á 42% verðbólgu þegar verðbólgan var um 80%, og það vil ég segja að hafi verið marklaus fjárlög, enda stefndi verðbólgan í 130-140% þegar þessi ríkisstj. tók við. Og öll ráðuneyti voru um mitt ár peningalaus vegna þessa.

Um söluskattshækkun, að hún hafi verið afnumin. Söluskattshækkun var aldrei til umræðu, aldrei. Aftur á móti var rætt um að fella niður þær undanþágur sem nú eru í gildi, en þegar til kom þurfti þess ekki vegna þess að hæstv. núv. fjmrh. hefur náð þeim góða árangri sem raun ber vitni, enda hafa það verið tillögur stjórnarandstöðunnar í þann tíma sem ég hef verið fjmrh. að fella niður þessar undanþágur þó að þeir snúist eins og vindhanar þegar svo á að framkvæma jafnvel þeirra eigin tillögur. (RA: Ekki tillaga Alþb.). Ef nokkurs staðar er hringlandaháttur sem hægt er að segja að sé dæmalaus hringlandaháttur er það í málflutningi Alþb. Enda kom það fram í gær þegar umræðum er útvarpað og þeim er sjónvarpað. Allir dýrustu mátar, þ.e. þeir dýrustu fyrir ríkið, voru settir í gang til að koma boðskap stjórnmálaflokkanna á framfæri við þjóðina alla, um fjármálin. Hvað skeður? Alþb. notar sinn tíma sem auglýsingatíma fyrir fyrrverandi eða nýafstaðinn landsfund sem enginn hafði áhuga fyrir. En þetta var sterkasta innlegg fyrir einmitt fjmrh., sem stóð í að kynna fjárlög, að fá svo gjörsamlega handónýta stjórnarandstöðu að þeir höfðu ekkert um frv. að segja sem þó hafði legið frammi frá fyrsta degi Alþingis. Og frv., eins og öll önnur frv., liggur frammi til þess að vera rætt, til þess að taka breytingum til eða frá.

Talað er um 1000 millj. kr. hækkun vörugjalds og það er mælt í þeim tón að nýi fjmrh. sé að bæta við sköttum. Þetta er rangt. Þetta er niðurstaða af mikilli og góðri vinnu forvera míns í embætti fjmrh. sem ég tók við og reyndi að klára og núv. fjmrh. kemur vonandi í verk endanlega. Hún er fólgin í að lækka tolla og samræma tolla en tapa ekki tekjum við þá aðgerð heldur reyna að halda í þær tekjur sem fengust áður með tollum og vörugjöldum. Hér er ekki verið að tala um 1000 millj. kr. hækkun. Þetta er rangt og það veit hæstv. fyrrv. fjmrh. Síðan kallar hann þetta allt forkastanleg vinnubrögð. Ég vil segja að bæði forveri minn í embætti fjmrh., ég og núv. fjmrh. höfum unnið gott starf. En það er kannske ekki svo mikið okkur að þakka heldur þeim fagmönnum í ráðuneytinu sem eru að samræma það sem hefur verið unnið á alþjóðavettvangi.

Ég veit ekki hvort það er sagt til þess að gera fjárlagadæmið tortryggilegt þegar hv. 3. þm. Norðurl. v. talar um að enn vanti 1 milljarð upp á fjárlagadæmið. Ég hefði gjarnan viljað fá það betur sundurliðað áður en hann kallar það sýndarmennsku. Eða er það bara sýndarmennska að tala fyrir þá sem ekki trúa að unnið sé samviskusamlega að gerð fjárlaganna? Hér er verið að reyna að skapa tortryggni gagnvart þeim sem eru að störfum, eru í þeim trúnaðarstörfum að heita ráðherrar, sem ég held að fyrrv. ráðherrar a.m.k. ættu síst að dunda sér við.

Erlenda skuldahluttallið er líka gert tortryggilegt. Það var í frv. eins og ég lagði það fram undir 60% af vergri þjóðarframleiðslu og ég er sannfærður um að það hefur ekki versnað við niðurskurð. Og að tala um að niðurskurður Landsvirkjunar frá þeim tölum sem Landsvirkjun taldi vera lágmarksfé til framkvæmda og til starfsemi sinnar, 888 millj., sem ég hafði skorið niður í 740 millj. og hæstv. núv. fjmrh. hefur skorið niður í 490 millj. - hann hefur skorið það sem sagt um 250 millj. umfram það sem mér tókst að gera - geti skapað verri hlutföll á milli erlendra skulda og vergrar þjóðarframleiðslu er að sjálfsögðu tómt rugl. Það hlýtur að virka alveg þveröfugt.

Þá vék hv. 3. þm. Norðurl. v. að öðrum fyrrv. iðnrh. og taldi að honum hafi verið kennt um hina miklu erlendu skuldasöfnun Landsvirkjunar vegna orkuframkvæmda sem eru umfram þörf. Ég vil ekki ætla forvera mínum í núverandi embætti að hann hafi viljandi gert eitthvað rangt. Ég hef ekki heyrt ásökun í hans garð fyrir þessa hlið orkumála þannig að flokksbróðir hans, hv. 3. þm. Norðurl. v., er að búa til nýja ásökun og nóg var nú fyrir. Ég hef ekki tekið þátt í þeim leik, en nóg var nú fyrir. Ég trúi því tæplega að hæstv. fyrrv. iðnrh., Hjörleifur Guttormsson, hafi reiknað með að íslenskir aðilar, íslenskt þjóðfélag, stæðu einir undir byggingu kísilmálmverksmiðju á Reyðarfirði vegna þess að það getur ekki verið að á sama tíma og hæstv. fyrrv. samráðherra fyrrv. iðnrh. er að kvarta undan erlendri skuldasöfnun hafi hann ætlað iðnrh. að koma með alíslenskt fjármagn til kísilgúrverksmiðju á Reyðarfirði. Því trúi ég alls ekki. Það hefði kostað stórauknar erlendar lántökur fyrir utan annað, og mér er ekki kunnugt um að sú verksmiðja mundi hafa þann trygga sölumarkað sem þarf til þess að standa undir slíkum mannvirkjum sem raforkuframkvæmdir eru sem þurfa að eiga sér stað vegna slíkrar verksmiðju.

En ég ætlaði að svara hv. 3. þm. Norðurl. v.; hann spurði hvort samningar hefðu tekist við Alusuisse og ég svara því játandi. Ég sé ekki ástæðu til að eyða tímanum í að lesa upp fréttatilkynningar sem þegar hafa verið birtar. Ég reikna með að þm. hafi fylgst með því að þeir samningar sem hæstv. fyrrv. iðnrh., núv. menntmrh., gerði við Alusuisse s.l. sumar - mig minnir að það hafi verið í júlí - voru endanlega frá gengnir 11. þ.m. þannig að í því góða andrúmslofti sem hæstv. fyrrv. iðnrh. Sverrir Hermannsson skapar þrátt fyrir alla erfiðleikana, sem á undan hafa gengið yfir bæði land og þjóð og okkar viðsemjendur, eru þessir samningar þegar undirskrifaðir og frv. þeim til staðfestingar mun verða lagt fram - ég þori ekki að lofa í þessari viku vegna þess að greinargerð er ekki tilbúin, en alla vega í næstu viku, ég reikna með því.

En ég segi við hv. 3. þm. Norðurl. v. alveg eins og ég sagði við útvarpsmann sem var á staðnum þegar samningarnir voru gerðir: „Var það blekking“, spurði útvarpsmaðurinn, „þegar þú lést hafa eftir þér í gær eða fyrradag að koma dr. Ernst til Íslands nú væri eingöngu kurteisisheimsókn til að heilsa upp á nýjan iðnrh.?" Ég sagði: „Nei, það var engin blekking. Það stóð ekki til þá að ljúka þessum samningum.“ Þá spyr hann: „Hvernig stendur þá á því að það er hægt að ljúka þessum samningum á svona stuttum tíma eftir að þið hittist í fyrsta sinn?" Ég svaraði: „Það er bara vegna þess að Sverrir Hermannsson, forveri minn í embætti, hafði skapað það andrúmsloft og gengið það langt til undirbúnings lokaundirskriftum samninganna að það var lítið eftir.“ „Það var ekki nóg; það hlýtur að vera eitthvað annað.“ Þá sagði ég: „Það getur verið vegna þess að andrúmsloftið var það gott að það má kalla þetta ekki „ást við fyrstu sýn“ heldur „traust við fyrstu sýn“.“ Og þannig andrúmsloft vona ég að ríki á milli bæði þessara viðmælenda okkar og samningsaðila og annarra sem við eigum eftir að semja við í framtíðinni. En til þess að svo geti orðið er alveg nauðsynlegt að Alþb. komi hvergi nálægt. Það er nú svo auðvelt.

Ég skal ekki segja hvort það eru draumórar eða hvort það er raunverulega hægt að fá 18-20 mill fyrir okkar raforku í dag. Það er hátt. Ég hef rætt við forustumenn í frönskum alúminíumiðnaði, og þeir borga ekki nærri svo mikið fyrir þá raforku sem þeir nota. Ég segi það alveg eins og er að ég held að það sé rangt af okkur að halda verðinu það háu að við getum ekki selt það sem við viljum selja. Við getum verið með bestu vöru sem til er í veröldinni. Ef við geymum hana í hillu og segjum engum að við eigum hana til sölu seljum við hana aldrei, töpum á henni. En aftur á móti mun ég leggja mikla áherslu á það, jafnframt því að ná samningum við þá sem við okkur vilja semja, ef um stóriðju er að ræða, að full vinnsla komi við hliðina þannig að hér verði sköpuð fleiri ný atvinnutækifæri. Og ég held að það sé miklu, miklu meira virði fyrir okkur og gefi okkur meira í aðra hönd en að standa eins og múlasni, sem ekki er hægt að draga áfram, á einhverju ímynduðu orkuverði sem við fáum hvergi, enginn vill kaupa, bara af því að það er íslensk orka úr hreinu fjallavatni og er þess vegna aristokratisk orka. Hún er einhvern veginn öðruvísi orka en sú sem fólk kaupir annars staðar. (Gripið fram í: Þetta er ekki jökuláin.) Þetta er myndin af Alþb. eins og hún kemur mér fyrir sjónir.

Ég sé ekki ástæðu til að hafa þessi orð fleiri en vil ítreka - ég hef gert það áður úr ræðustól hér á hv. Alþingi og ég geri það aldrei nógu oft - að kannske ætti ég að vera þakklátur fyrir það sjálfur að hafa fengið tækifæri til þess að starfa með því fólki sem hefur undirbúið fjárlögin. Og hæstv. fyrrv. fjmrh. veit fullvel að ég tala þar af mikilli sanngirni til þess fólks sem vinnur í fjárlaga- og hagsýslunni og í fjmrn. Og það skal enginn hér segja án þess að ég andmæli því að þau gögn sem koma þaðan séu ekki vel unnin og af fullri fagmennsku og samviskusemi. Þetta plagg, sem þið kallið hér marklaust, er það ekki. Það er góð undirstaða undir framtíðarfjárlög fyrir utan að vera marktækt við fjárlagagerðina í ár. (RA: Það er ríkisstj. sem tekur ákvarðanir.) Ríkisstj. tekur ákvarðanir, það er rétt. En ákvarðanir hennar eru byggðar á því sem hún hefur til að vinna úr og það er fortíðin. Við byggjum ekki neitt, hvorki fjárlög né annað, nema hafa einhverja undirstöðu. Og það er undirstaðan sem ég er að tala um.

Ég get verið sammála hv. 2. þm. Austurl. um 16. gr. Ég er dálítið veikur fyrir þeim lið og það er rétt hjá honum að það kom fram í aukafjárveitingum síðast. Það var að hans beiðni og fyrir hans áhuga á málaflokknum að hann sannfærði mig á tiltölulega stuttum tíma, og þar af leiðandi reyndi ég að bæta þar úr sem mér fannst sanngjarnt. Ég er veikur fyrir þeim lið og tel að ég þurfi ekki hafa fleiri orð um það.

Hv. þm. gat um úttektina sem væri verið að gera á lagasafni til þess að hafa á einum stað yfirlit yfir hvern málaflokk og hvað Alþingi hefði samþykkt í hverjum málaflokki til þess að við þm. gerum okkur grein fyrir því, sem ég hef margendurtekið hér, að við höfum samþykkt meiri útgjöld fyrir ríkissjóð heldur en tekjumöguleikar okkar leyfa. Þar af leiðandi er það eðlilegt að ekki bara núv. fjmrh. heldur ég sem fyrrv. fjmrh. og allir fyrrv. fjmrh., geri ég ráð fyrir, hafi beitt skerðingarákvæðum, eins og hv. 2. þm. Austurl. gat um, og er að finna í Il. kafla þessa frv. til lánsfjárlaga á þskj. 2. Svona verður það vegna okkar vinnubragða, ekki vegna mannvonsku, eins og mér fannst skína í gegn í ræðu hv. 2. þm. Austurl.

Ég held að ég hafi ekki þessi orð lengri. Ýmislegt af því sem fram hefur komið sem ádeila frá þeim kvennaframboðskonum og þá sérstaklega í þessari hv. deild frá hv. 11. þm. Reykv. er ágætar tillögur en eiga meira heima í sveitarstjórnarmálum og ég held að ég taki jafnvel sumt af því upp þar. En að tölur séu á ferð og flugi - einhver önnur ástæða hlýtur að vera fyrir því að tölurnar dansa fyrir augum hv. 11. þm. Reykv. en sú að hún hafi lesið eða hafi fjárlagafrv. fyrir framan nefið.