13.11.1985
Efri deild: 14. fundur, 108. löggjafarþing.
Sjá dálk 573 í B-deild Alþingistíðinda. (450)

2. mál, lánsfjárlög 1986

Fjmrh. (Þorsteinn Pálsson):

Frú forseti. Ég vil í örfáum orðum fjalla um nokkrar þeirra athugasemda sem fram hafa komið hér í umræðunni. Hv. 3. þm. Norðurl. v. hélt áfram þeim fullyrðingum sem talsmenn Alþb. hófu í gær að frv. til fjárlaga og frv. til lánsfjárlaga væru marklaus plögg og bæru vott um hringlandahátt og þeir gætu af þeim sökum ekki tekið þátt í þeirri umræðu.

Allt er þetta nú heldur barnalegt og slagorðakennt. Sannleikurinn er auðvitað sá, eins og hefur verið bent á, að frv. er í vandaðri búningi og betur úr garði gert en áður hefur átt sér stað. Þær breytingar sem nauðsynlegt var talið að gera til þess að ná betri markmiðum hafa verið kynntar og skýrðar með mjög glöggum og ákveðnum hætti og það liggur ljóst fyrir að þær munu skila árangri og gera það að verkum að við náum betur tökum á verkefnum okkar en áður. Það er fyrst og fremst þessi staðreynd sem stjórnarandstaðan undir forustu talsmanna Alþb. þorir ekki að viðurkenna.

Það væri líka hollt fyrir hv. 3. þm. Norðurl. v. að rifja upp tíð sína í fjmrn. og hvernig hann stóð að verki þá. Gerðar hafa verið tillögur um ákveðnar breytingar á fjárlagafrv., lagt fram nákvæmlega hvernig hugmyndir eru uppi um breytingar í einstökum atriðum. Árið 1982 lagði hv. 3. þm. Norðurl. v. sem fjmrh. fram frv. og í því var almenn heimild til að lækka útgjöldin um 50 millj. kr. Árið áður hafði hann lagt fram frv. og í því var almenn heimild til þess að lækka útgjöldin um 3000 millj. kr. Hvað höfðu þm. að fjalla um með svona almenna heimild? Hvers konar plagg var það sem hann lagði fram með almennri heimild af þessu tagi og án nokkurra skýringa? Ég held að það liggi í augum uppi að hér er hv. þm. að kasta steinum úr glerhúsi.

Þm. minntist á að með einfaldri yfirlýsingu hefðu 400 millj. kr. horfið úr tekjuöflun vegna þess að ákveðið hefði verið að falla frá því að auka söluskattstekjur með því að falla frá undanþáguákvæðum sem verið hafa í gildi og með öllu hefði verið óskýrt og óútskýrt hvað koma ætti í staðinn. Auðvitað er þetta rangt. Það hefur verið gerð mjög nákvæm grein fyrir því hvað kemur hér á móti og hvernig útgjöld hafa verið dregin saman til að ná þessum árangri.

Þm. minntist einnig á að í einni setningu hefði það komið fram í gær að viðbótartekjuöflun kæmi fram með nýrri skipan vörugjalda og það væri m.a. af þeim sökum ekki hægt að ræða þetta frv. í dag því að fyrst með einni setningu í framsöguræðu fyrir fjárlagafrv. í gær hefði þetta komið fram. Á síðu 208 í fjárlagafrv. og í athugasemdum með því segir svo, með leyfi forseta:

„Skattar af framleiðslu eru taldir munu nema 1754 millj. kr. á þessu ári eða 27,5% hærri en 1984. Er hér um að ræða álgjald, vörugjald og sérstakt tímabundið vörugjald. Tvö hin síðarnefndu verða felld niður í tengslum við framlagningu nýs tollskrárlagafrv. Í stað þeirra verður tekið upp nýtt vörugjald. Áformað er að þetta nýja vörugjald mæti því tekjutapi sem af tolla- og öðrum skattbreytingum hlýst, jafnframt því að afla ríkissjóði sérstakra tekna í því skyni að draga úr rekstrarhalla á næsta ári. Til þess að þau áform nái fram að ganga þarf vörugjaldið að skila allt að 2800 millj. kr. á árinu 1986.“

Þessar upplýsingar hafa legið fyrir í frv. frá því að það var lagt fram. Ummæli hv. þm. benda til þess að ástæðan fyrir því að hann getur ekki um það rætt sé sú að hann hafi ekki lesið það, og þá á hann að kenna sjálfum sér um en ekki ríkisstj.

Hv. þm. fór nokkrum orðum um erlenda skuldasöfnun, hún hefði stóraukist sem hlutfall af þjóðarframleiðslu. Það er rétt að vekja athygli á því, sem hér hefur komið fram áður í umræðunni, að skuldasöfnunarstefnan hófst undir hans forustu í ríkisstj. þegar aflabrögð voru með besta móti. Þá hófst sú skuldasöfnunarstefna sem við erum að glíma við í dag. En í þessu sambandi er rétt að hér komi fram að áætlað hafði verið að skuldirnar mundu lækka á næsta ári úr 54,8% af landsframleiðslu niður í 54,4%. En með þeim breytingum sem hefur verið gerð tillaga um fer þetta hlutfall væntanlega niður í um það bil 51%. Þessar ákvarðanir munu því væntanlega skila verulegum árangri í þessu efni. En auðvitað horfir hv. þm. fram hjá því og vill ekki viðurkenna þá staðreynd.

Það þarf ekki að fara mörgum orðum um það sem hv. þm. sagði um orkuframkvæmdir. Auðvitað er öllum ljóst að sá vandi sem við er að glíma í þeim efnum á rætur að rekja til þeirra ákvarðana sem teknar voru í iðnrn. meðan Alþb. og hv. þm. Hjörleifur Guttormsson höfðu þar forustu. Það er meginástæðan fyrir þeirri orkuveislu sem við erum að súpa seyðið af og það kom reyndar fram í máli hv. 3. þm. Norðurl. v. Hann lýsti því beinlínis yfir að hann fagnaði því að ekki skyldu hafa náðst samningar um aukna orkusölu til ÍSALS; hann fagnaði því. Orkuframkvæmdirnar sem settar voru af stað í tíð hv. þm. Hjörleifs Guttormssonar miðuðu auðvitað að því að þessum markaði væri hægt að fullnægja, en samt fögnuðu þeir því að ekki var hægt að selja orkuna. Þannig rekur sig hvað á annars horn.

Í þeim aðhaldsaðgerðum sem kynntar hafa verið hefur verið tekið mjög ákveðið mið af þessum aðstæðum og 250 millj. kr. skornar niður af fjárfestingaráformum Landsvirkjunar í ljósi þeirra aðstæðna að við þurfum að selja þá orku sem við framleiðum, en á þessu var skortur meðan Alþb. hafði forustu þessara mála.

Hv. þm. taldi að lengra væri hægt að ganga í þeim efnum. Ég vil vekja hér athygli á því að um 260 millj. kr. af þeim fjármunum sem Landsvirkjun hefur til ráðstöfunar eftir þennan niðurskurð munu fara til greiðslu á vöxtum þannig að ég hygg að ekki verði lengra gengið á þessu sviði. Og mitt mat er það að um hafi verið að ræða nauðsynlega aðgerð, mjög umfangsmikla og rétta við þessar aðstæður.

Auðvitað er öllum ljóst að við aðstæður eins og við búum við þarf aðhald í útgjöldum ríkisins og það kemur víða við. Það er rétt sem komið hefur fram í máli nokkurra hv. þm. að við hefðum sjálfsagt allir kosið að geta gengið lengra í framlögum til þarfra og mikilvægra málefna. En mestu skiptir þó auðvitað að fjármálastjórn ríkisins í heild sé með þeim hætti að við getum bætt aðstöðu þjóðarbúskaparins, skapað skilyrði fyrir hagvexti og aukinni verðmætasköpun til þess að standa undir þeim útgjaldaáformum sem við kjósum með raunverulegum verðmætum. Það gerum við ekki með erlendum lánum. Það gerum við ekki með erlendri lántökustefnu eins og hafin var í tíð hæstv. fyrrv. ríkisstj.

Frú forseti. Ég þarf ekki á þessu stigi að fara fleiri orðum um þau atriði sem fram hafa komið í umræðunni.