13.11.1985
Neðri deild: 15. fundur, 108. löggjafarþing.
Sjá dálk 576 í B-deild Alþingistíðinda. (457)

66. mál, land í þjóðareign

Flm. (Sighvatur Björgvinsson):

Herra forseti. Fyrir þessari hv. deild liggja nú nokkuð mörg þingmál sem fjalla um svipuð eða sambærileg efni, þ.e. um eignarráð á landi og landréttindum, þar á meðal náttúruauðlindum í einni eða annarri mynd. Ég reikna með því að hugmyndin að þessum frumvarpsflutningi sé sú að leita nú eftir því hvort ekki geti fengist afgreiðsla hjá hv. Alþingi á þessum málum, hver sé sá stærsti samnefnari sem allir þm. geti komið sér saman um að afgreiða.

Það er ekki æskilegt að mál af þessu tagi bíði mjög lengi og séu flutt ár eftir ár án þess að úr því fáist skorið um hvað Alþingi getur orðið ásátt. Það er ekki æskilegt og ekki eðlilegt að málin séu ekki afgreidd. Þvert á móti er bæði æskilegt og nauðsynlegt að afgreiðsla eigi sér stað og menn verða þá að sætta sig við það, bæði þeir sem lengra vilja ganga og eins hinir sem e.t.v. vilja ekkert aðhafast í málinu, að meirihlutaviljinn ráði. Það er mjög óeðlilegt, eins og tekið hefur verið fram í umræðum um svipuð mál áður, að minni hluti hér í þinginu geti komið í veg fyrir það ár eftir ár að þingvilji komi fram í þessum málum og afstaða þingsins, hver séu eðlileg mörk einkaeignarréttar og almannaeignarréttar á landi og landgæðum.

Herra forseti. Ég ætla ekki að hafa mörg orð fyrir þessu frv. því það hefur svo oft áður verið flutt hér á þingi að flestallir þm. þekkja efnisatriði málsins. Þau eru einfaldlega að kveða svo á að það land skuli teljast þjóðareign sem enginn annar getur sannað eignarheimildir sínar á. Með þessu frv. er sem sé ekki stefnt að því að taka réttindi af einum eða neinum, heldur aðeins að gengið sé endanlega svo frá að þau landsvæði sem enginn getur gert lögmætt tilkall til, hvorki einstaklingur, félög né sveitarfélag, skuli skoðast ríkiseign.

Það er ekki að ástæðulausu sem slíkt frv. er flutt og vil ég í því sambandi benda mönnum á grg. sem fylgir frv. en það hefur komið fram í dómsúrskurði frá Hæstarétti að hann bókstaflega kallar eftir því að slík ákvæði eins og hér um ræðir séu í lög leidd, þannig að það sé ótvírætt skorið úr um hvar mörk einkaeignarréttarins og almannaréttarins liggja. Það er náttúrlega mjög óeðlilegt þegar Hæstiréttur fellir slíkan dómsúrskurð að þá skuli Alþingi láta líða mörg ár án þess að kveða upp úr um þessa takmörkun.

Ég vil aðeins í því sambandi benda mönnum á hversu miklu betra það væri fyrir alla aðila að legið hefði fyrir, áður en hinar miklu virkjanaframkvæmdir hófust á voru landi, hvar þessi mörk milli almannaeignarréttarins og einkaeignarréttarins liggja. Þetta var eitt af því fyrsta sem Norðmenn gengu frá áður en þeir hófu sínar miklu virkjunarframkvæmdir þar í landi, þ.e. þeir byrjuðu á því að setja niður sérstaka nefnd sem hafði það verkefni að safna saman öllum eignakröfum einstaklinga, félaga og sveitarfélaga á landi og landgæðum, úrskurða síðan hvar mörkin skyldu liggja milli almannaeigunnar og einkaeignarréttarins og ganga síðan á vit dómstóla til að fá endanlegan úrskurð ef ekki næðist samkomulag á milli aðila um að draga þessi mörk. Þannig lá fyrir, áður en hinar fjárfreku virkjanaframkvæmdir hófust í Noregi, eftir hvaða bótum hver og einn gæti kallað og hver mörkin væru á milli eignarréttar viðkomandi einstaklinga, sveitarfélaga eða félaga annars vegar og almannavaldsins hins vegar.

Ég vil aðeins í þessu sambandi geta þess að það þarf ekki endilega að vera að þessi eignarmörk, hvað land varðar og landgæði, liggi alls staðar og í öllum tilvikum eftir sömu landfræðilegu mörkum. T.d. getur mætavel verið og er eðlilegt að beitarréttindi og réttur til þess að nytja afréttarlönd þurfi ekki endilega að vera jafntakmarkaður gagnvart einkaaðilanum, félögum eða sveitarfélögum eins og sjálfur yfirráðarétturinn á námum, jarðhita og öðru slíku. Það er mjög eðlilegt að menn hafi beitarréttindi - þó þeir hafi e.t.v. ekki getað sannað lögformlega eign sína á landinu öllu þá hafi þeir beitarréttindi, rétt til þess að beita fé á landi sem þeir hafa nýtt með þeim hætti í mörg ár, kannske um aldir - og það er líka eðlilegt að slíkum aðilum séu greiddar bætur fyrir því að slíkum réttindum sé spillt. En það þarf ekki endilega saman að fara þó einstaklingar, upprekstrarfélög eða sveitarfélög eigi slíkan nýtingarrétt, eins og t.d. beitarréttindi eða veiðirétt, að þá geti þeir gert kröfu um það að geta notið allra þeirra landréttinda sem um er að ræða þarna, þar á meðal námuréttinda og jarðhitaréttinda.

Ég vil aðeins ítreka, herra forseti, að áður en við höldum mikið lengra en við höfum gert í okkar virkjunarmálum þá ber brýna nauðsyn til þess að það liggi alveg ótvírætt fyrir hvernig þessi eignarréttarskipti eru svo það sé alveg ljóst fyrir hvað er hægt að krefjast bóta af landeigendum, hvort sem um er að ræða einkaaðila, upprekstrarfélög eða sveitarfélög, og hvað teljist vera ríkiseign.

Herra forseti. Mér finnst það eðlilegt - og er bókstaflega að því stefnt með framlagningu þessara frv. allra saman nú að reyna að fá Alþingi til þess að taka afstöðu til málanna, reyna að fá því framgengt hér á Alþingi að úr því verði skorið hver meirihlutaviljinn sé. Það er því mjög eðlilegt að öll þessi mál fari til einnar og sömu nefndarinnar. Það er einnig mjög þörf ábending, sem fram hefur komið, að þetta séu svo yfirgripsmikil og umfangsmikil mál að það orki a.m.k. tvímælis hvort eðlilegt sé að leggja þau öllsömul til skoðunar hjá einni af hefðbundnum fastanefndum þingsins, sem hefur auk þess fjölmörg önnur mál á sinni könnu. Þess vegna held ég að það gæti verið eðlilegt, án þess þó að ég vilji gera um það tillögu á þessu stigi málsins, að notuð yrðu ákvæði hinna nýju þingskapa sem heimila deildum þingsins, og sameinuðu þingi raunar út af fyrir sig einnig, að setja niður sérstakar þingnefndir sem þær síðan fela úrlausn og vinnslu ákveðinna mála.

Þau mál sem hér hafa verið rædd, þ.e. eignarrétturinn á landi og landgæðum, í þeim fjölmörgu frv. sem fram hafa verið lögð hér í deildinni eru einmitt dæmigert slíkt mál. Þetta er dæmigert mál sem ætti að leysa þannig að fela sérstakri þingnefnd skv. heimildum hinna nýju þingskapa að taka þessi mál öllsömul til sérstakrar athugunar og reyna að ná þeirri niðurstöðu sem ætla má að meirihlutavilji sé fyrir hér á hinu háa Alþingi.

Herra forseti. Ég vil ekki hafa þessi orð öllu fleiri. Miðað við það sem ég hef áður sagt ítreka ég að ég geri að svo stöddu ekki tillögu um að þetta frv. fari til neinnar ákveðinnar nefndar að lokinni 1. umr. um málið. Ég vil áskilja mér rétt til að gera þá tillögu síðar, en óska eftir því við hæstv. forseta að atkvæðagreiðslum að lokinni 1. umr. um þetta mál sé frestað um sinn, eins og varðandi þau önnur mál af svipuðum toga sem búið er að mæla fyrir, á meðan menn eru að athuga hvort ekki sé eðlilegt og rétt að þessi mál fari öll í eina og sömu nefndina og hvort ekki sé eðlilegt og rétt að nýta hin nýju ákvæði þingskapa um að setjá niður sérstaka nefnd til að fjalla um þessi mál öll.