13.11.1985
Neðri deild: 15. fundur, 108. löggjafarþing.
Sjá dálk 584 í B-deild Alþingistíðinda. (460)

76. mál, tekjuskattur og eignarskattur

Flm. (Jóhanna Sigurðardóttir):

Herra forseti. Mál þetta var tekið fyrir á fundi deildarinnar s.l. mánudag. Ég óskaði þá eftir að hæstv. forsrh. yrði viðstaddur umræðuna. Ástæða þess er í fyrsta lagi að ég tel að mál þetta snerti verkefni þeirrar nefndar sem forsrh. skipaði í mars s.l. til að gera úttekt á tekjuskiptingunni í þjóðfélaginu og í öðru lagi tel ég að þetta mál snerti einnig það verkefni sem forsrh. hefur fallist á að beita sér fyrir og snertir samanburðarkönnun á launum og kjörum kvenna og karla í þjóðfélaginu. Ég tel því eðlilegt að við 1. umræðu um þetta mál kæmi fram skoðun hæstv. forsrh. á þessu máli sem ég tel að snerti mjög þau tvö verkefni sem ég hef greint frá og forsrh. hefur beitt sér fyrir að unnið verði að.

Ég teldi það brýnt ef fram kæmi til að mynda stuðningur hæstv. forsrh. við þetta frv. sem hér liggur fyrir. Það mundi auðvelda mjög þau verkefni sem hæstv. forsrh. hefur beitt sér fyrir að hrundið verði af stað.

Hér á Alþingi hefur iðulega farið fram umræða þess efnis að brýnt sé að fram fari ítarleg úttekt á launakjörum og tekjuskiptingu í þjóðfélaginu. Í því sambandi skal minnt á till. til þál. sem samþykkt var á Alþingi 1980 um kannanir á tekjuskiptingu og launakjörum, en í þeirri till. var í tólf liðum úttært hvaða leiðir þyrfti að fara og hvaða upplýsingum þyrfti að ná fram til að fá heildaryfirsýn yfir raunverulega tekjuskiptingu í þjóðfélaginu.

Í framhaldi af umræðum, sem orðið hafa um þetta mál á Alþingi, hefur, eins og ég greindi frá, verið skipuð nefnd til að gera úttekt á tekjuskiptingunni. Einnig nefndi ég að forsrh. hefur samþykkt að beita sér fyrir að ítarleg samanburðarkönnun verði gerð á launakjörum kvenna og karla í þjóðfélaginu. Af því tilefni var þess óskað, m.a. af framkvæmdanefnd um launamál kvenna, að í þeirri könnun verði gerð ítarleg úttekt á samsetningu launa og kjara í heildartekjum.

Í viðræðum framkvæmdanefndar um launamál kvenna við forsrh. um það mál kom ljóslega fram að ýmsum vandkvæðum er bundið að, styðjast við skattframtöl við úttekt á tekjuskiptingunni í þjóðfélaginu. Er þar einkum til að taka að upplýsingar úr skattframtölum gefa litla mynd af samsetningu launatekna eða vinnutíma í einstökum greinum atvinnulífsins.

Í þeirri stjórnskipuðu nefnd, sem fengið hefur það verkefni að kanna þróun tekjuskiptingar á undanförnum árum, hefur komið fram að gögn, sem fyrir hendi eru varðandi tekjuskiptingu og tekjudreifingu, séu fyrst og fremst árlegar skýrslur ríkisskattstjóra um tekjur einstaklinga og fyrirtækja. Bendir margt til þess að tekjuskiptingarnefndin muni í störfum sínum styðjast að verulegu leyti við tekjuskiptingu og tekjudreifingu sem fram kemur í skattframtölum.

Ljóst er einnig að skattskýrslur eru undirstaða tekjuskýrslna sem Þjóðhagsstofnun gerir og að áætlunardeild Framkvæmdastofnunar ríkisins styðst mikið við upplýsingar úr skattframtölum í þeim skýrslum sem hún hefur gefið út, m.a. um mannafla og tekjur. Það er því ljóst að þegar kannanir eru gerðar um tekjuskiptinguna í þjóðfélaginu er í töluverðum mæli stuðst við upplýsingar úr skattframtölum. Þó er ýmsum vandkvæðum bundið að fá fram marktækar upplýsingar um tekjuskiptinguna, sérstaklega að því er varðar samsetningu launa og vinnutíma.

Skattframtölin geta þó, ef betur væri að staðið, þjónað þýðingarmiklu hlutverki til að upplýsa tekjuskiptinguna í þjóðfélaginu. Úr skattframtölum er unnt að afla mun ítarlegri upplýsinga um tekjur einstaklinga og uppruna þeirra en nú er gert, m.a. með því að óska sundurliðaðrar skýrslu frá atvinnurekendum um launagreiðslur til starfsmanna til að ná fram gleggri upplýsingum um samsetningu launanna.

Megintilgangur þess frv., sem ég hér mæli fyrir, er að hagkvæm og fljótvirk leið verði valin til að fá fram úttekt á raunverulegri tekjuskiptingu í þjóðfélaginu. Flm. ásamt mér eru hv. þm. Guðrún Agnarsdóttir, Guðrún Helgadóttir, Jón Baldvin Hannibalsson, Kristín Halldórsdóttir og Guðmundur J. Guðmundsson.

Í frv. er lagt til að kjararannsóknarnefnd fái aðgang að upplýsingum um kjaramál úr skattframtölum auk þess sem kjararannsóknarnefnd hafi áhrif á hvort, og þá með hvaða hætti, óskað væri ítarlegri upplýsinga um launagreiðslur og vinnutíma á launaseðlum en nú er gert.

Í lögum um tekjuskatt og eignarskatt er skattyfirvöldum gert skylt að veita Hagstofu Íslands og Þjóðhagsstofnun skýrslu í því formi er þessir aðilar ákveða um framtaldar tekjur og eignir. Kjararannsóknarnefnd gegnir ekki síður en þessir aðilar mikilvægu hlutverki á sviði kjararannsókna hérlendis. Ber því nauðsyn til að veita kjararannsóknarnefnd einnig aðgang að upplýsingaöflun úr skattframtölum, auk þess sem kjararannsóknarnefnd gæti haft áhrif á - og það er mikilvægt - í samráði við ríkisskattstjóra hvernig skýrslur atvinnurekenda um launagreiðslur til starfsmanna skuli úr garði gerðar. Með þessari breytingu væri opnaður möguleiki á að kjararannsóknarnefnd hefði áhrif á hvort, og þá með hvaða hætti, óskað væri ítarlegri upplýsinga en nú er gert um launagreiðslur og vinnutíma á launaseðlum.

Með þessu fyrirkomulagi eru hagsmunir hins opinbera í þessu efni engu lakar tryggðir en nú gerist, en kjararannsóknarnefnd og þar með hlutaðeigandi aðilum vinnumarkaðarins gefið tækifæri til að móta upplýsingaöflun. Við alla kjarasamningagerð er notagildi þeirra upplýsinga, sem þar fengjust, mjög mikið.

Frv. þetta hefur áður verið flutt á tveim þingum en ekki hlotið afgreiðslu. Það er vandséð af hverju Alþingi ætti að leggjast gegn því að kjararannsóknarnefnd fái aðgang að skattframtölum til að auðvelda nefndinni störf sín, en kjararannsóknarnefnd gegnir þýðingarmiklu hlutverki á sviði kjararannsókna hérlendis. Það ætti að vera í þágu allra aðila, bæði stjórnvalda og aðila vinnumarkaðarins, að nýta betur þau stjórntæki sem fyrir hendi eru til að fá fram sem gleggstar upplýsingar um tekjuskiptingu og launakjör í þjóðfélaginu. Minni ég í því sambandi enn á þá stjórnskipuðu nefnd sem nú hefur það verkefni með höndum að gera úttekt á þróun tekjuskiptingar hér á landi, nefnd sem að öllum líkindum kemur til með í starfi sínu að styðjast sem mest við skattskýrslur í sínu verkefni. Ekki verður annað séð en það ætti að vera útlátalaust fyrir stjórnvöld og að það væri til hagsbóta fyrir alla að kjararannsóknarnefnd hefði, ef hún svo kysi, aðgang að ítarlegum upplýsingum úr skattframtölum.

Eins og nú er er einungis unnt að fá úr skattframtölum upplýsingar um heildarlaunagreiðslur en ekki sundurgreindar upplýsingar um laun fyrir dagvinnu, yfirvinnu, bónus, greiðslur fyrir vaktavinnu, greiðslur fyrir ákvæðisvinnu, greiðslur í veikinda- og slysatilvikum eða sérstakar greiðslur sem ekki falla undir neitt af framantöldu, svo sem yfirborganir og þess háttar. Til þess að svo verði er eðlileg leið að opna kjararannsóknarnefnd aðgang að skattframtölum og að kjararannsóknarnefnd hafi þá áhrif á hvort, og þá með hvaða hætti, óskað væri ítarlegri upplýsinga um samsetningu launagreiðslna og vinnutíma á launaseðlum.

Ég legg áherslu á, herra forseti, að hér er um einfalda lagabreytingu að ræða sem mikla þýðingu hefði fyrir kjararannsóknir hér á landi, breytingu sem í einu og öllu er útgjaldálaus fyrir stjórnvöld en gæti haft mikil áhrif og verið mikils virði fyrir samtök vinnumarkaðarins að því er varðar upplýsingaöflun um samsetningu launatekna og vinnutíma í einstökum greinum atvinnulífsins. Sú breyting, sem hér er lögð til, gæti líka haft mikið notagildi fyrir stjórnvöld að því er varðar ákvarðanatöku um ýmis félagsleg úrlausnarefni sem miða að því að bæta kjör þeirra sem verst eru settir í þjóðfélaginu.

Herra forseti. Ég sé ekki ástæðu til að hafa öllu fleiri orð um þetta frv. É,g ítreka það, sem fram kom í upphafi míns máls, að ég teldi eðlilegt að hæstv. forsrh. greindi hér frá skoðun sinni á því frv. sem hér liggur fyrir vegna þeirra tveggja verkefna sem nú eru á döfinni varðandi úttekt á tekjuskiptingunni í þjóðfélaginu.

Einnig vil ég nota þetta tækifæri til að beina fsp. til hæstv. forsrh. um það hvort hann gæti upplýst þingheim um það hvar á vegi er stödd sú samanburðarkönnun á launum og kjörum kvenna og karla í þjóðfélaginu sem hann hefur upplýst að hann muni beita sér fyrir.

Ég legg svo til, herra forseti, að að lokinni þessari umræðu verði frv. vísað til hv. fjh.- og viðskn.