13.11.1985
Neðri deild: 15. fundur, 108. löggjafarþing.
Sjá dálk 594 í B-deild Alþingistíðinda. (465)

89. mál, Húsnæðisstofnun ríkisins

Guðrún Agnarsdóttir:

Herra forseti. Ég kem hér upp til að styðja þetta mál eða reyndar ítreka stuðning við þetta mál sem við þm. Kvennalista höfum stutt við frá byrjun vegna þess að okkur þykir þetta, eins og áður hefur komið fram, vænlegur kostur og auka fjölbreytni félagslegra íbúðabygginga.

Á þessum síðustu og verstu tímum eru vandræðin í húsnæðismálum almennt orðin það mikil að það er jafnvel brýnni ástæða en áður að huga að því formi sem búsetahreyfingin býður upp á. Mig langar til að vitna í tvær blaðagreinar þessu máli mínu til stuðnings.

Í fyrsta lagi er stutt fréttayfirlýsing úr NT frá því í morgun. Það er reyndar yfirlýsing frá áhugamönnum um úrbætur í húsnæðismálum með fyrirsögninni Þingmenn nú verður fylgst með ykkur:

"„Þingmenn nú verður fylgst með ykkur. Það er kominn tími til þess að almenningur komi siðferðilegum böndum á svikula stjórnmálamenn.“

Þetta er yfirlýsing áhugamanna um úrbætur í húsnæðismálum sem kynntu viðhorf sín á fundi með fréttamönnum í gær. Húsbyggjendur gera þá kröfu til stjórnmálamannanna að þeir efni þegar fjölmörg loforð sín um úrbætur þeim til handa. M.a. vilja þeir fara að sjá eitthvað af þeim peningum sem aflað var með söluskattshækkun s.l. vor sem ekki kom síst niður á lántakendum. Tillögur húsnæðishópsins eru þær að leiðréttingar á greiðslubyrði húsbyggjenda umfram forsendur þegar lánin voru tekin verði með tvennum hætti: annars vegar með skattafslætti og hins vegar með skuldbreytingum á almennum bankalánum. Varðandi síðari tillöguna er farið fram á að ríkisvaldið sjái til þess að lánum húsbyggjenda og kaupenda í bönkum verði skuldbreytt til a.m.k. 15 ára og/eða að Húsnæðisstofnun veiti aukin skuldbreytingalán til sama tíma. Húsnæðishópurinn bendir á hve gífurleg áhrif hækkun raunvaxta hafi á greiðslubyrði af lánum, sérstaklega langtímalánum. Sem dæmi er tekin afborgun af 1 millj. kr. láni til 20 ára með 50 þús. kr. afborgun á ári. Væru vextir 2,5% eins og þeir voru á árunum 1980-1982 væri afborgun og vextir 75 þús. kr. á ári. Með 5% vöxtum eins og nú tíðkast fer afborgunin upp í 100 þús. kr., þ.e. hækkar um þriðjung. Færu vextirnir í 10% yrði ársgreiðslan 150 þús. kr. eða tvöfalt hærri en með 2,5% vöxtunum. Bent er á að fjölgun nauðungaruppboða og nýuppkomin okurglæpamál sýni svart á hvítu að ríkisstj. hafi engan vanda leyst. Þvert á móti hafi í skjóli hennar dafnað okurlánamarkaður og af fréttum megi ráða að ríkisstj. stefni að enn frekara vaxtaokri á almenningi. Húsnæðishópurinn tekur því undir fram komna tillögu á Alþingi um frestun nauðungaruppboða og gerir þá kröfu til þm. að þeir hætti ábyrgðarlausu orðagjálfri og snúi sér að alvörulausn þessa vanda.“

Þessi hópur lýsir vanda sínum í þessari stuttu blaðagrein. Og það er víst að fjöldi nauðungaruppboða eykst með viku hverri og degi hverjum og eitt er líka víst að margir þeir sem fóru út í það að byggja sér hús á s.l. 5 - 10 árum standa nú uppi í gífurlegum erfiðleikum. Hugmyndirnar að baki Búseta leiða til annarra lausna og í síðustu fréttum sem bárust frá Húsnæðisstofnun kom í ljós að eitthvað átti að gera til þess að auðvelda Búseta aðgang að lánakerfum Húsnæðisstofnunar. En ég vil vitna núna í grein í DV í dag. Þar segir:

„Búseti í klípu - fær aðeins lán fyrir 15 íbúðum. Hrakförum Búseta virðast engin takmörk sett. Þó að búið sé að samþykkja lán til Búseta virðist vera langt frá því að björninn sé unninn. Lán það sem Búseti hefur fengið vilyrði fyrir í húsnæðisstjórn hljóðar upp á lán til byggingar 15 íbúða á 15 mánuðum. Með slíku framhaldi tæki það Búseta fjögur ár að byggja hina 46 íbúða blokk sem Búseti hefur í hyggju að byggja.

„Þetta er ákaflega einkennileg staða og við sitjum í algjörri gildru“, segir Reynir Ingibjartsson starfsmaður Búseta. „Eftir að hafa staðið í þessu ströggli um að fá þessa lánveitingu sitjum við uppi með þetta sem er krækiber í helvíti miðað við samtök sem í eru 2500 manns.“

Hann segir að Búsetamenn viti ekki sitt rjúkandi ráð þessa stundina. Búseti hafi nokkra valkosti. Einn er að hætta öllu saman, annar að byggja og hanna nýtt hús, þriðji að fara út í þessar framkvæmdir upp á von og óvon og fjórði að byggja þessar íbúðir og hreinlega selja síðan eins og hvert annað byggingarfélag gerir. Ef Búseti ætlar aðeins að byggja þessar 15 íbúðir er fyrirsjáanlegt að það þurfi að hanna nýtt hús því 46 íbúða blokkin er þannig hönnuð að illmögulegt er að byggja hana í áföngum. „Svo sitjum við með gatnagerðargjöldin á herðunum og allan þann kostnað sem verktakinn hefur þegar eytt í undirbúningsvinnu fyrir væntanlegar framkvæmdir í Grafarvoginum“, segir Reynir.“

Af þessu tilefni vil ég spyrja hæstv. félmrh. hvort hann ætli að láta þar við sitja.

En að lokum, herra forseti, langar mig til þess að vitna í ályktun landsfundar Kvennalistans, sem haldinn var í Gerðubergi um s.l. helgi, þá ályktun sem fjallar um húsnæðismál:

„Landsfundur Kvennalistans telur að vandi fólks vegna húsnæðismála sé svo gífurlegur að ekki verði horft fram hjá honum. Fjölmörg heimili í landinu eru á barmi gjaldþrots sem rekja má til efnahagsráðstafana ríkisstj. Núverandi ríkisstj. virðist hvorki hafa vilja né getu til að leysa þennan vanda. Það virðist nú gert ráð fyrir að viðbótarskattlagning vegna sérstakrar fjáröflunar til húsnæðismála eigi öll að renna til hefðbundinna útlána á vegum Húsnæðisstofnunar. Ekkert á að fara til að leysa vanda þess fólks sem nú á í mestum erfiðleikum. Það á að auka vandann en ekki að leysa hann. Nú þegar verður að grípa til ráðstafana. Frestun nauðungaruppboða og breyting skammtímalána til lengri tíma eru aðgerðir sem hægt er að grípa til strax. Framlag ríkissjóðs í gegnum skattakerfið í formi vaxtafrádráttar þarf að renna til þeirra sem eiga í mestum erfiðleikum en ekki til þeirra sem mestar eignir eiga og eru tekjuhæstir. Við viljum breytta stefnu í húsnæðismálum, þar sem fólki verði tryggt húsnæði án þess að það þurfi að leggja á sig ok vinnu og skuldaklafa. Endurskoða verður lánakjör þeirra sem eignast vilja húsnæði til eigin afnota. Við viljum stórauka byggingu leiguhúsnæðis og styðjum búseturéttarhugmyndina. Það má öllum vera ljóst að lausn á húsnæðisvandanum kostar peninga. Húsnæðismálin og önnur mál, er varða mannlega velferð, verða að koma framar í forgangsröðina en nú er.“