14.11.1985
Sameinað þing: 15. fundur, 108. löggjafarþing.
Sjá dálk 603 í B-deild Alþingistíðinda. (469)

30. mál, kennsluréttindi í grunnskólum

Fyrirspyrjandi (Guðrún Agnarsdóttir):

Herra forseti. Ég þakka ráðherra svör hans. Þessi fsp. er reyndar nokkuð flókin, enda tók talsverðan tíma að safna saman svörunum, og hefði ég e.t.v. átt að bera hana fram skriflega. Ég mun íhuga þessi svör og velta fyrir mér hinum ýmsu hlutföllum, en það sem fram kemur virðist svipað og það, sem kom fram sem svar við fyrri fsp. um sama efni á þessu þingi. Réttindalausum kennurum hefur fjölgað og þeir eru nú allt að 40% og er það mikið áhyggjuefni. Sömuleiðis að það eru mun fleiri réttindalausir kennarar úti á landsbyggðinni en hér í Reykjavík. Það vekur upp spurningar í sambandi við jafnrétti dreifbýlis og þéttbýlis til menntunar, jafnrétti barnanna sem búa í þessu landi. Ég vek athygli á því líka að það er ekki bara spurning um kennarana. Það er líka spurning um aðrar aðstæður og aðbúnað skólanna, eins og t.d. námsefni og öll kennslugögn sem eru líka af skornari skammti úti á landsbyggðinni en hér í Reykjavík.

Aðalástæðan fyrir því að það hefur reynst erfitt að fá til kennslu eða til starfa kennara með tilskilin kennsluréttindi, bæði við grunnskóla og framhaldsskóla, því hæstv. menntmrh. svaraði hér fsp. minni um daginn, sem fór nokkuð á sama veg, um kennara í framhaldsskólum landsins, - þetta stafar náttúrlega fyrst og fremst af því að launakjör, vinnuaðstaða og sú virðing sem kennurum er boðin fer þverrandi. Þess vegna leita fullmenntaðir kennarar í önnur störf. Þeir una ekki lengur í þeim störfum sem þeir menntuðu sig til að stunda. Ég lýsi yfir miklum áhyggjum, bæði áhyggjum mínum og annarra þm. Kvennalistans, yfir því að núverandi stjórnvöld virðast hvorki hafa vit né vilja til að búa þessa þjóð undir framtíðina eins og hún á skilið því að menntun er ein af grundvallarundirstöðum þessarar þjóðar fyrir framtíðina.