14.11.1985
Sameinað þing: 15. fundur, 108. löggjafarþing.
Sjá dálk 607 í B-deild Alþingistíðinda. (474)

38. mál, einkarekstur á heilsugæslustöðvum

Fyrirspyrjandi (Svavar Gestsson):

Herra forseti. Af því að hæstv. ráðh. vitnaði til þess frv. sem mun liggja fyrir frá nefnd um þetta mál er ljóst að í þeim frumvarpsdrögum sem ég hef undir höndum er ekki nákvæmlega tiltekið hvers konar heilbrigðisstarfsmenn er hér um að ræða. Þar er einungis talað um heilbrigðisstarfsmenn. Það er vafalaust hægt að túlka það mjög vítt ef sú afstaða er ríkjandi hjá þeim sem fer með valdið í heilbrrn. á hverjum tíma.

Ég þakka einnig hæstv. ráðh. fyrir ábendingar hennar til mín um að leita til sérfróðra aðila um þessi mál og vildi benda ráðherranum á það sama. T.d. teldi ég athyglisvert ef ráðherrann vildi bera sig saman við einn af höfundum laganna um heilbrigðisþjónustu, dr. Tómas Helgason yfirlækni.