14.11.1985
Sameinað þing: 15. fundur, 108. löggjafarþing.
Sjá dálk 613 í B-deild Alþingistíðinda. (485)

85. mál, Jöfnunarsjóður sveitarfélaga

Félmrh. (Alexander Stefánsson):

Herra forseti. Sem svar við þessari fsp. á þskj. 95 varðandi Jöfnunarsjóð sveitarfélaga vil ég taka eftirfarandi fram:

Skv. lögum um Innheimtustofnun sveitarfélaga nr. 54/1971 með síðari breytingum er hlutverk hennar að innheimta hjá meðlagsskyldum foreldrum meðlög sem Tryggingastofnun ríkisins hefur greitt forráðamönnum barna þeirra og endurgreiða Tryggingastofnuninni innheimtuféð. Er þetta hlutverk nánar skilgreint í lögunum.

Í lögunum er ákveðið að Jöfnunarsjóður sveitarfélaga greiði Innheimtustofnuninni það sem á vantar að tekjur hennar nægi til endurgreiðslu til Tryggingastofnunarinnar. Einnig ber Jöfnunarsjóðnum að greiða reksturskostnað Innheimtustofnunarinnar.

Greiðslur Jöfnunarsjóðs sveitarfélaga til Innheimtustofnunarinnar vegna meðlagsgreiðslna hennar til Tryggingastofnunar ríkisins hafa frá 1980 verið sem hér segir: 1980 6 millj., 1981 7,7 millj., 1982 9,7 millj., 1983 18,2 millj., 1984 82,8 millj. og 1985 142,8 millj. Rétt er að útskýra þessar tölur nokkru nánar.

Í lögunum um Innheimtustofnun sveitarfélaga frá 1971 voru ákvæðin um greiðslur Jöfnunarsjóðs þannig að Innheimtustofnunin átti að láta Jöfnunarsjóði í té fyrir 30. júní ár hvert reikninga stofnunarinnar fyrir næstliðið reikningsár. Jöfnunarsjóður átti síðan að gera fullnaðarskil til Innheimtustofnunarinnar fyrir 1. október ár hvert miðað við reikningsskil í lok undanfarandi árs.

Með lögum nr. 43/1984, um ráðstafanir í ríkisfjármálum, peninga- og lánsfjármálum 1984, voru ákvæðin um endurgreiðslur Innheimtustofnunarinnar til Tryggingastofnunar ríkisins hert verulega. Skal Innheimtustofnunin nú skila Tryggingastofnuninni innheimtufé mánaðarlega eftir því sem það innheimtist. Það sem á vantar að Tryggingastofnunin hafi fengið meðlög að fullu endurgreidd með slíkum skilum skal Innheimtustofnunin greiða innan tveggja mánaða frá því að meðlag var greitt. Greiðslur Jöfnunarsjóðs skulu inntar af hendi það tímanlega að Innheimtustofnunin geti staðið í skilum við Tryggingastofnunina á réttum gjalddögum.

Þessi lagabreyting leiddi af sér svo mikla hækkun á framlagi Jöfnunarsjóðsins til Innheimtustofnunarinnar 1984 að ekki þótti rétt að Jöfnunarsjóðurinn tæki þá skerðingu á sig alla á einu ári. Með tilvísan til heimildar í þessum sömu lögum tók því Jöfnunarsjóðurinn lán að upphæð 4 621 600 Bandaríkjadollara, upphaflega ísl. kr. 138 372 000. Lán þetta átti að endurgreiðast á næstu fimm árum með sex jöfnum misserislegum afborgunum þann 15. júní og 15. desember ár hvert, í fyrsta sinn 15. júní 1987. Vextir greiðast einnig tvisvar á ári og voru greiddir í fyrsta sinn 15. júní á þessu ári. Var sú upphæð 23 442 400 kr. Ekki liggur fyrir hver þessi greiðsla verður í desember n.k. en líklegt er að upphæðin verði svipuð og í júní.

Þessar vaxtagreiðslur skerða að sjálfsögðu greiðslur Jöfnunarsjóðsins til sveitarfélaganna til viðbótar við beinu greiðsluna til Innheimtustofnunarinnar. Reksturskostnaður Innheimtustofnunar sveitarfélaga, sem Jöfnunarsjóðurinn hefur greitt, hefur frá árinu 1980 verið sem hér segir: 1980 396 800 kr., 1981 484 700, 1982 834 814 kr., 1983 1 460 500 kr., 1984 2 721 000 kr. Upphæðin 1985 liggur að sjálfsögðu ekki fyrir.

Í seinni lið fsp. er spurt hvort væntanlegar séu breytingar á þeim reglum sem nú gilda um greiðslur á framlögum úr Jöfnunarsjóði sveitarfélaga þannig að sömu reglur gildi um hreppa og kaupstaði. Ég vil taka fram að 1976 var ákveðið að greiða beint þessar upphæðir til sveitarfélaganna skv. stjórnvaldsákvörðun en þetta var tekið til baka vegna harðorðra mótmæla innheimtumanna ríkissjóðs og Ríkisendurskoðunar. Þá var kveðið svo á að þetta mundi ekki getað hentað því innheimtuformi sem þá var notað.

Síðan þetta var gert, sem var miður, hefur staða þessara mála mjög breyst. Innheimtumenn ríkisins fá nú persónuafslátt og barnabætur, sem falla til greiðslu, beint til sín og hafa þannig allt aðra stöðu gagnvart minni sveitarfélögum eða sveitarfélögum yfirleitt. Sömuleiðis er áformað - og ég hef þá stefnu - að réttarstaða allra sveitarfélaga verði sú sama gagnvart öllum málum og þar af leiðandi varðandi tekjustofna einnig.

Ég hef látið athuga þetta mál í félmrn. sérstaklega með tilliti til þeirra mótmæla sem komu upp þegar þessi breyting var gerð á sínum tíma og tekin aftur. Þeirri könnun er nú senn að ljúka og ég mun örugglega tilkynna ákvörðun mína um þetta mál fyrir n.k. áramót.