14.11.1985
Sameinað þing: 16. fundur, 108. löggjafarþing.
Sjá dálk 639 í B-deild Alþingistíðinda. (496)

Hafskip og Útvegsbankinn

Valdimar Indriðason:

Herra forseti. Hér hafa mörg orð verið látin falla um málefni Útvegsbankans og Hafskips og þau rædd þannig að mikill ókunnugleiki ríkir og ætla ég ekki að fara út í sérstakar leiðréttingar í þeim efnum.

Það kemur kannske spánskt fyrir eyru að ég vil þakka hv. 5. þm. Reykv. fyrir að koma þessu máli á dagskrá vegna þess að þá fá sparifjáreigendur, sem skipta við Útvegsbankann, staðfestingu á því frá hv. Alþingi að þeirra mál séu tryggð þar. Það hefur borið of mikið á því í umræðunni undanfarið að lætt sé inn þeim grun hjá ýmsum aðilum að Útvegsbankinn sé svo illa kominn að hann sé að fara á hausinn og þess vegna sé varhugavert fyrir sparifjáreigendur að eiga fé sitt geymt þar. Stuðlar þetta að því að stofnunin fái einhverju áorkað í sinni starfsemi? Þess vegna ítreka ég að ég þakka umræður vegna þess arna. Hér er búið að undirstrika á sjálfu hv. Alþingi að sparifjáreigendur, sem eiga sín viðskipti við Útvegsbankann, þurfa engu að kvíða. Þeir eru tryggðir.

Ég vil einnig í leiðinni minnast á þann ókunnugleika að tala alltaf um geysileg útlán útvegsbankans til Hafskips. Hver eru þau í peningum? Það sem skeð hefur er ekkert leyndarmál. Skipin sem hafa verið í eigu Hafskips hafa rýrnað verulega í verði þannig að veðhæfnin sem þar hvílir bak við hefur rýrnað verulega. Annars skal ég ekki fara frekar út í þau mál að sinni, en stikla á þessu máli í nokkrum punktum ef það gæti orðið til einhverra upplýsinga.

Í fyrsta lagi: Hafskip hf. hefur starfað í rúmlega 27 ár og rekstur þess hefur oft gengið erfiðlega, eiginfjárstaða því lengst af verið slæm og lánsfjárþörf mikil eins og sagt er. Gagnger endurskipulagning var gerð á rekstrinum árið 1977. Engu að síður hafði ekki tekist fram til s.l. árs að tryggja nægilega styrka eiginfjárstöðu félagsins. Þau gífurlegu áföll sem fyrirtækið varð fyrir á árinu 1984 og það sem af er yfirstandandi ári urðu því félaginu þung í skauti þrátt fyrir hlutafjáraukningu á síðasta vetri sem nam 80 millj. kr.

Tvennt hefur einkum komið til sem gerbreytt hefur eiginfjárstöðu fyrirtækisins til hins verra síðustu misseri, en hún var sem áður segir slæm fyrir. Annars vegar var stórfelldur taprekstur á fyrirtækinu á árinu 1984 sem að hluta stafaði af óviðráðanlegum ástæðum. Jafnframt hefur mikill hallarekstur haldið áfram á yfirstandandi ári þvert ofan í áætlanir stjórnenda um bata. Hins vegar hafa skip félagsins fallið í verði vegna markaðsaðstæðna, eins og ég sagði áðan.

Talið er að flutningaskip hafi yfirleitt lækkað í verði á alþjóðamarkaði um 15 -20% á s.l. þremur árum. Enn þá meiri verðlækkun hefur orðið á skipum sem voru um 12-15 ára, eins og þau skip eru sem eru í eigu Hafskips. Um áramótin voru þau sex, en það er búið að selja tvö þeirra. Það eru fjögur núna í eigu fyrirtækisins.

Það var metið í reikningunum 1984 að skipaeign félagsins, sex skip, væri upp á 6,8 millj. dollara. Það er held ég raunsætt mat eins og það var þá. En þó við tökum mið af lækkuðu skipaverði á heimsmarkaði er ljóst að þetta verð er í það hæsta miðað við verð á slíkum skipum sem þarf oft að selja með skjótum hætti.

Á árinu 1983, það er rétt að ég komi því að, var hagnaður á rekstri Hafskips.

Í þeim ummælum sem komu fram áðan vegna stöðu hæstv. iðnrh., sem þá var í bankaráði Útvegsbankans, var látið liggja að því að hann hafi verið viðriðinn vafasamar aðgerðir vegna sinnar stöðu sem formaður bankaráðs Útvegsbankans og jafnframt formaður stjórnar Hafskips. Það mál þekki ég ekki og ég hef ekki séð nein dæmi um slíkt í rekstri bankans. Það má dylgja um slíka hluti, en ég hef engin dæmi séð um það. Það má ætla slíka hluti, en þá er eins gott að við slíkar dylgjur sé staðið. Það var hagnaður af rekstri Hafskips síðasta árið sem núverandi hæstv. iðnrh. sat sem formaður bankaráðs Útvegsbankans. Ég tók við því hlutverki í ársbyrjun 1984 og þá versnaði dæmið, og það má hver kenna mér um það sem vill þó að ég telji mig sjálfur ekki eiga þar sök á.

En dæmið snarversnar hjá Hafskipi 1984 og þá gerðist margt sem hafði óhjákvæmilega verulega neikvæð áhrif á rekstur skipafélagsins. Það var stórfelldur samdráttur í flutningum til varnarliðsins. Þetta höfum við heyrt hér í þingsölum. Gengislækkun varð meiri en yfirvöld, ég segi yfirvöld, stefndu að og áætlun var gerð um. Verkfall BSRB s.l. haust hafði veruleg áhrif á rekstur félagsins.

Á s.l. ári hóf Hafskip vöruflutninga yfir Atlantshafið til og frá Bandaríkjunum og Evrópu á leiguskipum - ég tek það fram að það eru leiguskip sem þar eru í förum, og þau eru leigð til skamms tíma í senn. Fyrsta skrefið til undirbúnings þessara Atlantshafsflutninga var stofnun umboðsskrifstofa erlendis eða dótturfélaga. Miklar vonir forráðamanna Hafskips voru bundnar við þessa flutninga. Gert var ráð fyrir að þeir mundu tvöfalda veltu fyrirtækisins - ég vil láta þetta koma fram hérna; það er engu að leyna í þessum efnum gert var ráð fyrir að þeir mundu tvöfalda veltu fyrirtækisins og nýta betur þá fjárfestingu og mannafla sem þegar var fyrir hendi hjá félaginu.

Áætlanir um þessi efni sýndu góðan afrakstur af starfsemi sem einkum kæmi sér vel til að vega á móti tapinu sem varð þegar flutningar fyrir herinn féllu niður. Gert var ráð fyrir að flutningar fyrir varnarliðið - það var ein áætlunin hjá þeim - til og frá Bandaríkjunum hæfust að nýju snemma á yfirstandandi ári, og féllu þeir vel inn í siglingaáætlanir yfir Atlantshafið. Eins og kunnugt er hefur ekki orðið af þessu vegna málaferla í Bandaríkjunum og siglinga Rainbow Navigation-félagsins. Þá verður að segjast að vonir um bættan hag Hafskips hf. vegna Atlantshafsflutninganna hafi fram til þessa brugðist.

Á það skal minnt að í upphafi ársins 1985 var hlutafé aukið um 80 millj. kr., eins og fram hefur komið hjá mér áður. Það var gert að kröfu Útvegsbankans, vegna þess að bankastjórar Útvegsbankans og bankaráð fylgdust mjög nákvæmlega með þessum málum, og þeir gerðu það að kröfu sinni til viðskiptanna að hlutaféð yrði aukið. Það var gert og eftir þá ráðstöfun var félagið orðið jákvætt efnahagslega. Ég vil að lokum - ég ætla ekki, eins og ég sagði áðan, að hafa mörg orð um þessi mál - leggja áherslu á eftirfarandi atriði af hálfu Útvegsbankans varðandi Hafskipsmálið:

Í fyrsta lagi: Stórfelldur taprekstur Hafskips hf. árið 1984 varð að verulegu leyti vegna snöggra breytinga á ytri aðstæðum. Tapið kom ekki endanlega í ljós fyrr en við reikningsuppgjör í maí s.l. vor. Bankastjórnin setti það skilyrði í byrjun árs 1985 að hlutaféð yrði aukið. Í öðru lagi var þess mjög vænst að Hafskip gæti haslað sér þann völl í Atlantshafssiglingunum sem áætlanir voru gerðar um. Og í þriðja lagi var það von skipafélagsins fram á síðustu mánuði að flutningar fyrir varnarliðið hæfust að nýju á svipaðan hátt og áður var því þeir höfðu gefið góðar tekjur.

Ómögulegt var að sjá fyrir svo mikið verðfall á flutningaskipum eins og raun hefur borið vitni um og þar með verulega skerta raunverulega eiginfjárstöðu fyrirtækisins eins og það er í dag. Eins og ég sagði áðan barst vitneskjan um mikið tap fyrstu fjóra mánuði þessa árs bankastjórn 17. júlí s.l.; allt var talið með felldu um afkomu þá mánuði í áætlun sem barst um miðjan maí með ársreikningum félagsins.

Þegar þessar upplýsingar lágu fyrir var tekin ákvörðun á sameiginlegum fundi bankastjórar og Hafskips um að selja eignir og viðskiptasambönd félagsins. Forráðamenn Hafskips ræddu í u.þ.b. tvo mánuði við Eimskip um hugsanleg kaup þess félags á Íslandssiglingum Hafskips. Jafnframt standa yfir sölutilraunir á Atlantshafssiglingum félagsins. Bankastjórn Útvegsbankans hefur um nokkurt skeið verið í beinum viðræðum við Eimskip um þá þætti í yfirtöku lána sem hlytu að fylgja slíkum kaupum. Þær viðræður eru nú á lokastigi.

Um viðræður þessar, fjárhæðir, skuldastöðu og hugmyndir til lausnar er ekki hægt að ræða hér eins og hefur margoft komið fram í sambandi við þau lög sem í gildi eru. Það er kallað bankaleynd og fleiri slíkum nöfnum. Ef hv. Alþingi vill breyta lögunum sem það hefur sett um bankana er því rétt að gera það, en á sama tíma mótmæli ég því algjörlega að sömu aðilar séu að biðja um að brjóta þau lög sem þeir eru til þess að gera nýbúnir að setja sjálfir. Það eru ekki vinnubrögð sem hægt er að mæla með. Og það er sama hvernig reynt er að særa út úr okkur ýmsar tölulegar upplýsingar þessu viðkomandi, við gefum þær ekki vegna þess að við erum bundnir af þeim lögum sem sett hafa verið í þessum efnum. Það er ráðist á bankaráðsmenn og sagt að þeir séu í einhverri sérstakri tryggingu, þori ekki að segja sannleikann, og þeim er ögrað af fjölmiðlum með því að þeir þori ekki að segja um hvað efnið snýst tölulega. Ég bið ekki afsökunar á að við gerum það ekki, og ég mun ekki gera það meðan þau lög eru í gildi sem hér er fjallað um og bankamálaráðherra fór yfir áðan og ég ætla ekki að fara að tvítaka þá hluti.

Ég sé ekki ástæðu til að fjölyrða um þessi mál. Ýmsar spurningar hafa komið fram sem ég tel ekki svaraverðar og lesið hefur verið upp úr mörgum blaðagreinum og hafðar uppi ýmsar dylgjur í þessum efnum sem engar sannanir eru fyrir. Ég segi ekki meira en það - maður kveður ekki fastara að orði. En það er hvers og eins að sanna eða afsanna í þeim efnum.

Fyrst og síðast vil ég benda á að þetta mál, Hafskipsmálið, Útvegsbankamálið, er til umfjöllunar á viðskiptalegum grundvelli. Ógætileg opinber umræða gæti hæglega torveldað hugsanlega lausn á þessu máli þannig að það gæti valdið miklum skaða.