14.11.1985
Sameinað þing: 16. fundur, 108. löggjafarþing.
Sjá dálk 646 í B-deild Alþingistíðinda. (498)

Hafskip og Útvegsbankinn

Iðnrh. (Albert Guðmundsson):

Hæstv. forseti. Margt hefur verið sagt í umræðum um þetta Útvegsbanka- og Hafskipsmál sem spunnist hafa út af saklausri fsp. hv. 5. þm. Reykv. sem ég veit að er fram sett til að finna lausn á alvarlegu vandamáli sem steðjar bæði að einum þjóðbankanna og öðru stærsta flutningafélagi þjóðarinnar.

Mér dettur ekki í hug eitt augnablik, eins og kom fram hjá hæstv. viðskrh., að þessi virðulegi forustumaður Alþfl. hafi borið upp þessa fsp. sérstaklega til að draga athygli að sjálfum sér. Mér finnst það svo ótrúlegt, þekkjandi manninn. Ég held að við verðum að ræða þetta mál á allt öðrum nótum og taka virkilega alvarlega allt það sem frá honum kom. Vandamál bæði Útvegsbankans og Hafskips, sem ég hafði þá ánægju af að vera forustumaður fyrir um tíma, eru eldri en ég hef þekkt bæði þessi fyrirtæki, bæði bankann og Hafskip. Ég kem ekki að bankanum fyrr en 1981, þá kjörinn sem trúnaðarmaður Alþingis og skömmu áður orðinn formaður stjórnar Hafskips. Og vandamálin voru mikil. En áður en ég kom til bankans var búið að taka ákvörðun um að bankanum skyldi hjálpað vegna þeirrar slæmu eiginfjárstöðu sem hann var í. Ég gekk svo mjög fast fram í því að staðið yrði við það loforð eftir að ég varð bankaráðsformaður.

Ég kom til Hafskips eftir að ný stjórn hafði tekið við fyrirtækinu, sem þá hafði verið í vandræðum, miklum vanda, um langan tíma, og ég verð að segja það alveg eins og er að ég veit ekki um hæfari unga menn til forustu í einu fyrirtæki en þá tvo sem ég hafði til samstarfs meðan ég var þar stjórnarformaður. Stjórn Hafskips samanstóð þá - og ég held að hún geri það enn þá - af þeim ungu mönnum sem hvað mest áberandi hafa verið með vel rekið fyrirtæki hér á landi.

Það getur verið rétt að siðlaust sé að nota þá sem slæðast inn á Alþingi, kjörnir af fólkinu, að mér skilst vegna mistaka þess, og hafa reynslu í atvinnulífinu til að gegna trúnaðarstörfum á þeim vettvangi sem þeir hafa vit á. Ég er alveg sannfærður um að athuga þarf þá hugmynd mjög vel, sem formaður Alþb. setti hér fram, að sá sem tæki að sér trúnaðarstöðu, eins og aðild að bankaráði, ætti ekki að vera reynsluríkur maður á sviði viðskipta og helst ekki að hafa neitt samband við viðskipti. Það þarf að kjósa menn í þannig stöður sem ekki hafa nein tengsl við atvinnulífið til að koma í veg fyrir að hugsanlega eigi þeir vini sem væri hægt að nota sem tortryggileg tengsl á milli bankaráðsmanna og þm. eða trúnaðarmanna Alþingis. Helst þyrftum við kannske að vera vinalausir og munaðarlausir líka til að hafa alla þá hæfileika og uppfylla þær kröfur sem hv. formaður Alþb. gaf í skyn að þeir menn þyrftu að standast sem koma nálægt peningamálum hins opinbera.

Mér dettur nú allt í einu í hug þegar ég lít yfir hópinn að ég sé ekki marga sem ég gæti hugsað mér í þessa stöðu. Það er þó til einn en ég ætla ekki að segja ykkur hvaða eina mann ég er með í huga. Það hlægir mig líka en ég ætla ekki að segja það.

Ég vil hryggja þá, sem hafa höggvið hér bæði að mér og öðrum, með því að segja að ég hafði engin bein afskipti af samskiptum Útvegsbanka Íslands og Hafskips meðan ég var þar stjórnarformaður á báðum stöðum. Enda vita þeir hv. þm., sem gegna trúnaðarstöðum í bankaráðum, að dagleg störf bankans og útlán eru ekki verkefni bankaráðsmanna og þau eru aðgreind með lögum.

Gefið er í skyn oftar en einu sinni að ég hafi viðhaft óheiðarleg vinnubrögð, eins og ég skrifaði orðrétt eftir hv. 5. kollega mínum frá Reykjavík. Þetta eru stór orð og mér dettur ekki í hug að maðurinn geti ekki staðið við sín stóru orð. Hann er þekktur fyrir það að fara rétt með eða a.m.k. ekki viljandi rangt með. Hann segir sjálfur- það eru ekki mín orð, það eru hans orð - að hann sé eini háskólagengni forsætisráðherrann, með próf upp á það að hann sé lærður til forsætisráðherra. (SvG: Forsætisráðherra Breta.) Hann gæti jafnvel orðið forsætisráðherra Breta, það er rétt, hv. 3. þm. Reykv., vegna þess að hann tók prófið úti í Bretlandi.

Ég vil þó segja það, áður en ég kem að kjarnanum í þessum orðum mínum, að enginn banki getur nokkurn tíma tryggt það að viðskiptavinir hans komist ekki í vanda. Það er aldrei hægt að tryggja það heldur að þeir sem eru vinir í dag, þegar allt gengur vel, verði vinir þegar allt blæs á móti. En það er óeðlilegt ef vinir fara að nota sér ógæfu annarra.

Öll viðskipti bera í sér áhættu, hver sem þau eru. Það er afskaplega auðvelt að deila á þegar illa gengur. En það er öllu erfiðara að finna lausnir. Hér hefur verið hart deilt á duglega, unga, framsýna menn sem hafa bryddað upp á mörgum nýjungum í samskiptum Íslands við aðrar þjóðir með sínu skipafélagi og mjög athyglisverðum nýjungum á mörgum sviðum. En engin lausn hefur legið í loftinu neins staðar, það hefur ekki verið gerð tilraun til að ræða málið sem vandamál sem þarf að leysa. En það hefur verið rætt sem vandamál sem verið sé að koma yfir á þjóðina alla. Það getur vel verið að svo fari.

Að mér læðist sá grunur-ég vona að hann sé rangur - að hv. 5. þm. Reykv. sé að nota þetta vandamál Hafskips í pólitískum tilgangi, að gera vandamálið sjálft að pólitískum leiksoppi. En hann hefur ekki reynt það hefur ekki komið fram enn þá - sem ábyrgur pólitískur leiðtogi að finna lausn á þessu vandamáli sem hann segir þó að blasi við að nú muni skella með öllum sínum þunga á sparifjáreigendur, fólkið í landinu. Hver er þá ábyrgð okkar hér? Hvert er þá hlutverk okkar? Er það bara að nota vandamál annarra í pólitískum tilgangi? Mér dettur ekki í hug að hann sé að gera það.

Þetta er rangt, það er illa gert af mér að hugsa svona. En svona læðist að manni grunur.

Þetta ásamt því sem kom fram hjá hv. 1. landsk. þm. eru alvarlegar ásakanir. Ég ætla ekki að ásaka Helgarpóstinn. Ég hef aldrei haft ástæður til að ásaka Helgarpóstinn. Ég hef haft mikið gaman af Helgarpóstinum. Ef ég hefði fundið til sektarkenndar vegna skrifa Helgarpóstsins eða annarra, þá gerði ég ekki annað en svara. Ég hef ekki gert það nema í einu eða tveimur tilvikum.

En hv. 1. landsk. þm. talaði um að einhver hefði óhreint mjöl í pokanum. „Í alvörulandi hefði Albert Guðmundsson aldrei gegnt báðum störfum.“ Nú þekki ég ekki nema svona fimm eða sex lönd. Það er þá ekkert þeirra alvöruland. „Erlendis er fylgst með verðmætum skipa.“ (Gripið fram í.) Erlendis, það er eflaust alveg rétt. Það er líka gert hérna.

„Tíminn vinnur með Albert Guðmundssyni, hæstv. iðnrh.“ - Ég ætla að vona að hann vinni með hv. 1. landsk. þm. líka. En ég veit ekki hvað hún er að gefa í skyn með þessu. Vinnur tíminn með mér til þess að hylma yfir eitthvað sem ég hef gert? Hef ég gert eitthvað óheiðarlegt? Felst það í orðunum?

„Ótæpileg afskipti Alberts Guðmundssonar af málinu.“ - Þetta skrifaði ég orðrétt. Hvernig þá? Hvað hef ég gert af mér? Var það hluti af glæp að taka við kjöri frá Alþingi til að gegna stöfum úti í þjóðfélaginu? Átti ég að hafna því á þeim forsendum að ég hef tekið þátt í atvinnulífinu? Átti ég að hafna því vegna þess að Útvegsbanki Íslands er upphafsbanki Tollvörugeymslunnar t.d. sem er ágætis fyrirtæki? Ég var stjórnarformaður Tollvörugeymslunnar þegar ég tók þetta starf að mér. Það hefur ekki komið fram hérna. Átti ég að gera það? Hvað er svona ótæpilegt og „kann að kalla á sérstaka rannsókn“?

Ég er alveg sammála því. Við skulum segja að þetta sé allt rétt hjá hv. 1. landsk. þm. Við skulum segja að það sé allt saman rétt hjá hv. 5. þm. Reykv. En viljum við þá ekki láta finna það út hvort það er rétt? Viljið þið þá ekki gera mér það sem félaga og samþingmanni, kosnum af Alþingi til að gegna ákveðnum trúnaðarstörfum sem ég hef brugðist á þennan hátt, að biðja mig um að afsala mér þinghelgi svo að þið getið á réttan hátt látið rannsaka þessar ásakanir eða þennan glæp eða guð almáttugur veit hvað það er sem verið er að tala um?

Hér er mikið um fullyrðingar en engar sannanir. Ég tek alveg undir það með þessum tveimur hv. þm. að þetta kallar á rannsókn. Ég er reiðubúinn til að taka þátt í þeirri rannsókn og ég er reiðubúinn til með höfuðið hátt að segja hverjum sem er að ég er stoltur af því að hafa fengið að vinna með þessum ungu mönnum sem nú eru í vanda.

Það kom fram hjá hv. 3. þm. Reykv. að hér væri verið að hjálpa þeim nýríku. Getur engum ykkar virkilega dottið í hug að menn, sem reyna að verða sjálfstæðir atvinnurekendur og nota til þess allt sem þeir eiga að byggja upp fyrirtæki og skapa atvinnutækifæri, geti með tímanum orðið nýfátækir? Það er eins og að ef maður kemur nálægt fyrirtæki sé hann stimplaður. Við skulum átta okkur á því að það eru kannske fleiri sem hafa orðið fátækir af því að reyna að verða sjálfstæðir atvinnurekendur en þeir nýríku sem alltaf er talað um.

Hv. 3. þm. Reykv. hafði ummæli eins bankastjóra Útvegsbankans yfir. Hann segir að verið sé að nota Útvegsbankann sem pólitíska gólfþurrku. Þetta er alvarlegt fyrir okkur öll sem erum í stjórnmálum. Þetta kallar líka á rannsókn. Er það virkilega rétt að einn þjóðbankinn, sérstaklega þessi sem hér er á dagskrá, sé notaður í pólitískum tilgangi sem pólitísk gólfþurrka. Það er alveg nýtt fyrir mér. Þetta er stór fullyrðing.

Ég tek undir það með hv. 3. þm. Reykv. að nauðsynlegt er að gera þetta mál upp, að rannsaka það og vita hvort þessi fullyrðing á sér nokkrar stoðir.

Það er líka rétt hjá hv. 3. þm. Reykv. að Útvegsbankinn er veikur banki vegna þeirrar skyldu sem á honum hefur hvílt. Þetta er alveg rétt. Þegar ég tók við bankaráðsformennsku í Útvegsbankanum var eitt af mínum fyrstu verkum að hreinsa burtu átta eða tíu byggðarlög á landinu úr viðskiptum hjá bankanum vegna þess að bankinn hafði engin útibú þar, hafði engan aðgang að sparifé fólksins á stöðunum. En heima fyrir voru hinir bankarnir, annaðhvort Landsbankinn eða Búnaðarbankinn eða sparisjóðir. Útvegsbankinn var látinn fjármagna bara af því að það var útvegur á stöðunum. Hann hafði engan aðgang að sparifé fólksins. Þetta hefur verið mjög íþyngjandi fyrir Landsbankann og er eitt af vandamálum Landsbankans núna. Það er engin furða. Búið er að mergsjúga Útvegsbankann á þennan hátt í gegnum tíðina. Þess vegna og í samhengi við þessar ráðstafanir var bankanum síðan hjálpað um eigið fé. Það var ekki að ástæðulausu. Það var ekki verið að gefa bankanum fimm milljarða á sínum tíma bara í afmælisgjöf eða vegna góðmennsku, hlýhugar til bankans. Það var ástæða fyrir því.

Meðan ég var stjórnarformaður Hafskips, sem ég var lengur en ég var bankaráðsformaður Útvegsbankans, var vikulega fylgst með öllum peningamálum Hafskips af aðallögfræðingi Útvegsbankans og ég veit ekki annað en að það sé gert enn þá. Það er þá hægt að fá það upplýst. En meðan ég var þar og frá þeim tíma sem þessir ungu og duglegu menn, sem nú eru í vanda, hófu uppbyggingu Hafskips var fylgst með öllu sem gert var í fyrirtækinu vikulega. Og það var ekki bara það heldur voru reglulegir fundir með verkamönnunum, með skrifstofufólkinu og með hluthöfunum til að ræða um hvernig hægt væri að gera hlutina betur. Tillögurnar komu frá viðkomandi faghópum í fyrirtækinu og voru flestar samþykktar og var unnið eftir þeim. Þessi vinnubrögð eru ný.

Ég skal ekki hafa þessi orð miklu fleiri. En ég verð að óska eftir því í Ljósi þess sem hér hefur komið fram að þetta mál verði rannsakað, sérstaklega það sem snertir mig. Ég er ekki að kalla rannsókn yfir neinn annan, bara þær fullyrðingar sem hafa komið hér fram. Ég hef aldrei verið talinn óheiðarlegur neins staðar þar sem ég hef verið og mér er heldur illa við að vera kallaður það hér á hv. Alþingi. En hvað gera menn ekki í pólitík, sérstaklega þegar þeir eru gersamlega snauðir í málflutningi sínum? Þá grípa menn til ýmissa ráða. Það vil ég endurtaka til hv. 5. þm. Reykv. að ég er reiðubúinn til að afsala mér þinghelgi ef það stendur í vegi.

Flutningar Hafskips eru nýr þáttur í siglingasögu Íslands, að flytja á milli annarra landa, milli heimsálfa. Önnur lönd gera það, Norðmenn eru þekktir fyrir það. En sú tilraun er nýlega hafin. Ég efast um að hún sé orðin ársgömul. Það er eftir mína daga hjá Hafskip. En bara af því að fyrirtækið sýnir ekki gróða, sýnir ekki þann árangur sem allir vilja, þ.e. að sjá peningana, á að brjóta það niður. Það á ekki að gefa því tækifæri til að þróast og verða arðbært. Fyrirtækið er á því augnabliki í sínu lífi að það verður að hætta við það og við vitum kannske aldrei hvort íslenskt hugvit nær út fyrir skerin til að vinna eitthvað meira nema þá að bora holur í jörðu einhvers staðar annars staðar.

Ég vil endurtaka, virðulegi forseti, að ég tel sjálfsagt að allar þær rannsóknir, sem hv. þm., sem hér hafa talað á undan mér, hafa minnst á, verði látnar fara fram. Það mun ekki standa á mér að afsala mér þeim hlífðarskjöldum sem Alþingi veitir hverjum og einum okkar, óski hv. 5. þm. Reykv. eða hv. 1. landsk. að svo verði gert.