14.11.1985
Sameinað þing: 16. fundur, 108. löggjafarþing.
Sjá dálk 658 í B-deild Alþingistíðinda. (501)

Hafskip og Útvegsbankinn

Kristín S. Kvaran:

Virðulegi forseti. Ég vil gera að umræðuefni orð hv. 3. þm. Suðurl. þegar hann talaði um að hér væri um lágkúrulegar vangaveltur að ræða. Ég held að ég hafi skrifað þetta alveg rétt eftir honum svo að ekkert fari á milli mála. Og hann sagði enn fremur að fyrst skuli staðreyndir koma fram áður en farið verði að dæma í málinu og nefndi í líkingum að við skyldum leyfa flugvélinni að lenda áður en væri farið að athuga hvort eitthvað hefði verið að fluglaginu. Það er einmitt það sem verið er að biðja um hér. Þm. virðist alls ekki geta skilið það.

Einnig sagði hann, ef ég man rétt: Það er þarna sem er ruglað saman staðreyndum, gífuryrðum og flugufregnum. En sú er einmitt ástæða þess að hafið er máls á þessu máli hér, að reyna að koma í veg fyrir að slíkt eigi sér stað. Það er einmitt kjarni málsins.

Ég tek að vísu ekki orð hv. þm. Árna Johnsen beinlínis til mín að því leyti til að ég hafi verið að fara með gífuryrði eða fleipur. Ég las að vísu upp fullyrðingar úr blöðum. Að öðru leyti voru orð mín hvorki gífuryrði né fleipur. Og til þess að fyrirbyggja að nokkuð fari á milli mála af því sem ég sagði hér áðan ætla ég að drepa á það aftur svo að það sé alveg á hreinu. Ég sagði, með leyfi forseta:

„Auðvitað hlýtur bankinn að meta hve miklu hann mundi tapa við að stoppa þessi viðskipti af og láta Hafskip fara á hausinn. Hann hlýtur að vega og meta þá möguleika sem séðir verða í stöðunni. Bankinn getur auðvitað tekið þá ákvörðun út frá einhverjum gefnum líkum að það geti verið hagstæðara allra hluta vegna að láta fyrirtækið rúlla áfram. Bankinn getur út frá þessum líkum metið stöðuna sem svo að tapið verði minna en ella hjálpi hann til við að fyrirtækið rúlli áfram og eigi með því möguleika í framtíðinni til að greiða upp skuldir sínar.“

Enn fremur sagði ég, með leyfi forseta:

„Þær tryggingar, sem settar höfðu verið, voru greinilega mjög háðar breyttum aðstæðum í milliríkjaviðskiptum. Þær breytingar sköpuðust vegna utanaðkomandi aðstæðna, sköpuðust vegna gildandi markaðslögmála í heildarviðskiptum milli þjóða.“

Ég get ekki betur séð en ég reyni að hafa fullan skilning á því í hverju vandamálið er fólgið, en það breytir ekki því að ástæðan til þess að farið var fram á að þetta mál skyldi rætt hér utan dagskrár er sú að það þarf að fá við þessu skýr svör, ekki endilega einmitt núna vegna þess að það virðist greinilegt að þau svör verði ekki gefin. En ég tek undir þá tillögu, sem fram hefur komið hér, að þingskipuð nefnd verði látin rannsaka þetta mál ofan í kjölinn. Það virðist greinilega ekki veita af.

Ég taldi einnig mjög mikilvægt að það væri athugað, miðað við á hvaða tíma lánin voru veitt, hvernig veðhæfni eignanna hafi verið á þeim tíma og hvort þar hafi verið um að ræða endurmat á hverjum tíma þegar ný lán voru veitt.

Eftir stendur auðvitað og fer ekki á milli mála að það er alveg ljóst að framkvæmdavaldið, ríkisstj., ber ábyrgð á þeim fyrirtækjum, sem rekin eru af því eða af hálfu þess, gagnvart löggjafanum. Það er þess vegna að það er nauðsynlegt að hér sé gerð gagngerð og nákvæm grein fyrir því hvað það er sem er á seyði. Það er alveg ljóst að það verður að gera þá kröfu, sem ég talaði um áðan, að ríkisbankarnir ásamt öðrum ríkisfyrirtækjum verði hafnir yfir slíka gagnrýni og að komið verði í veg fyrir hana með því að gera nauðsynlegar breytingar á þeim og starfsemi þeirra. Og þar er ég ósammála hv. 5. þm. Reykv. sem taldi að upplýsingarnar mundu ekki hafa komið fram ef bankaráðsmaður, og það bankaráðsmaður á vegum flokka, hefði ekki beðið um skýrslu. Þetta var allt að meira eða minna leyti komið fram í blöðunum. Við hefðum alveg eins getað hafið þessa umræðu hér þó að það hefðu ekki verið bankaráðsmenn á vegum flokkanna inni í bankaráðunum.

Ég ætla ekki að fara að rengja orð hæstv. iðnrh., en reynist þau orð hans rétt að hann hafi sem formaður bankaráðs Útvegsbankans ekki haft nein afskipti af málefnum Hafskips finnst mér það beinlínis vera ámælisvert að hann skuli ekki hafa gert það á þeim tíma. Auðvitað átti hann að hafa glöggt yfirlit yfir stöðuna og gera athugasemdir þær sem nauðsynlegar voru á hverjum tíma og bregaðst við og gefa skýrslu og helst að koma hér inn á Alþingi og gefa þá skýrslu.