18.11.1985
Efri deild: 15. fundur, 108. löggjafarþing.
Sjá dálk 671 í B-deild Alþingistíðinda. (512)

105. mál, hitaveita Reykjavíkur

Flm. (Stefán Benediktsson):

Herra forseti. Vegna orða hv. 4. þm. Vesturl., til varnar hv. 5. þm. Vesturl. vil ég benda á að öll verksummerki bentu til þess að hann mætti mjög vel lesinn til þessarar umræðu. Ég held því að það sé ekki hægt að halda því fram að til hennar hafi verið stofnað af tilviljun, eingöngu til þess að fylla upp í eyður.

Ég verð aftur á móti að lýsa yfir undrun minni á skyndilega upp kominni stofnanaþægð hv. 5. þm. Vesturl. sem spurði ítrekað eftir því hvort Hitaveita Reykjavíkur eða borgaryfirvöld Reykjavíkur hefðu æskt eftir þessari breytingu. Ég verð að minna hann á í framhjáhlaupi að ég er 8. þm. Reykv. og tel mig fulltrúa þeirra allra en ekki aðeins stofnana Reykjavíkurborgar. Í raun og veru skiptir því kannske engu máli hvort Hitaveita Reykjavíkur eða borgaryfirvöld hafa yfirleitt áhuga á þessu máli ef borgarbúar hafa áhuga á því.

Aftur á móti get ég upplýst hv. 5. þm. Vesturl., ef það róar hans geð eitthvað, um að forráðamenn Hitaveitu Reykjavíkur hafa áhuga á að hafa þessa möguleika eða þessa heimild og borgaryfirvöld einnig, að svo miklu leyti sem þau hafa um málið fjallað, en hnífurinn stendur náttúrlega þar í kúnni að borgaryfirvöld hafa ekki möguleika á að breyta landslögum. Til þess þarf athygli þingmanna.

Hv. 5. þm. Vesturl. spurði einnig hvort heimildin væri ótakmörkuð. Svarið við þeirri spurningu er já, að svo miklu leyti sem önnur landslög ekki koma í veg fyrir ótakmarkaða orkuframleiðslu. Að mínu viti sé ég ekki neina ástæðu til þess að þingið sé með lögum að binda á einn eða annan hátt hversu mikil þessi raforkuframleiðsla yrði.

Þá spurði hv. þm. einnig hvort rætt hefði verið um að kaupa umframorku Landsvirkjunar. Ef ég hef skilið hann rétt er hann hér að tala um það, ef ég umorða hans ræðu, hvort nokkur ástæða sé til þess að Hitaveita Reykjavíkur sé að framleiða raforku þegar hvort eð er er hægt að kaupa hana á lágu verði frá Landsvirkjun.

Ég skal ekki segja neitt ákveðið um hversu mikið þetta hefur verið til umræðu hjá yfirvöldum borgarinnar. Mér er ekki kunnugt um að slík umræða hafi farið fram. Aftur á móti er mér það nýlunda að heyra það frá hv. 5. þm. Vesturl. að raforka sé allt í einu orðin ódýr. Ég hafði það á tilfinningunni í umræðum sem hér fóru fram á síðasta þingi, m.a. um verðjöfnunargjald á raforku, að það gengi m.a. sá sjúkdómur að raforkuframleiðslusviðinu öllu að raforka væri allt of dýr.

En sem svar við þeirri spurningu sem fólst í orðum hv. 5. þm. Vesturl. vil ég eingöngu segja að það verður að virkja til að auka framboð á heitu vatni á hitaveitusvæði Reykjavíkur og þar sem þessa virkjun verður að byggja og fjármagna á næstu árum tel ég eðlilegt að menn hafi þann möguleika uppi í erminni að geta nýtt sér þá orku, sem þarna kemur upp úr jörðinni, til þess að framleiða rafmagn og draga þannig hugsanlega líka eilítið úr þeim framleiðslukostnaði sem hér verður um að ræða.

Að öðru leyti þakka ég fyrir þær undirtektir sem þetta frv. hefur fengið. Að vísu hefði verið, eins og fram kom, æskilegt að hæstv. iðnrh. hefði verið viðstaddur þessa umræðu, en við vitum líka að þegar málið kemur til 2. umr. geta menn rætt það og kynnt viðhorf sín til málsins. Auðvitað verður í nefndinni haft samband við þá aðila sem málið snertir hvað mest.