18.11.1985
Efri deild: 15. fundur, 108. löggjafarþing.
Sjá dálk 672 í B-deild Alþingistíðinda. (515)

119. mál, Hitaveita Suðurnesja

Samgrh. (Matthías Bjarnason):

Herra forseti. Með lögum nr. 100 frá 31. des. 1974 var ákveðið að stofna Hitaveitu Suðurnesja sem hafa skyldi það markmið að virkja jarðhita í Svartsengi við Grindavík eða annars staðar á Reykjanesi.

Með lögum, sem samþykkt voru á Alþingi í árslok 1974, var mælt svo fyrir að ríkissjóður og sjö sveitarfélög á Suðurnesjum skyldu setja á stofn Hitaveitu Suðurnesja. Hitaveitan átti að virkja jarðhitann í Svartsengi, reisa þar varmaskiptistöð, leggja aðveituæðar til þéttbýliskjarna á Suðurnesjum, leggja dreifikerfi og annast sölu á heitu vatni til notenda.

Árið 1975 var Hitaveita Suðurnesja formlega stofnuð og var eignarhluti ríkissjóðs 40%, en sveitarfélaganna 60% eins og fyrir var mælt í þeim lögum.

Uppbygging hitaveitunnar fór að mestu fram á árunum 1975-1982 og þá lokið við að leggja dreifikerfi í sveitarfélögunum sjö og á Keflavíkurflugvöll, en gerður var samningur við varnarliðið um sölu á heitu vatni til hitunar húsa á vellinum. Nú njóta um 15 þús. íbúar á Suðurnesjum heita vatnsins frá Svartsengi, en þar er nú uppsett afl 125 mw. í varmanotkun og 8 mw. í raforku.

Vorið 1984 samþykkti Alþingi breytingu á áðurnefndum lögum frá 1974, um Hitaveitu Suðurnesja, þar sem kveðið er á um að iðnrh. veiti hitaveitunni sérstakt einkaleyfi til starfrækslu rafveitu á starfssvæði hennar. Það féll í hlut Sverris Hermannssonar fyrrv. iðnrh. að veita leyfið og undirrita samning milli ríkisstjórnar Íslands og Hitaveitu Suðurnesja um sölu á eignum Rafmagnsveitna ríkisins á Suðurnesjum. Með samningi, dags. 17. maí á þessu ári, var samið um kaup Hitaveitu Suðurnesja á eignum Rafmagnsveitna ríkisins á Suðurnesjum og fór yfirtaka eignanna fram 1. júlí s.l.

Þann 5. júlí var undirritað samkomulag milli Hitaveitu Suðurnesja og sveitarfélaga á Suðurnesjum um yfirtöku fyrirtækisins á öllum rafveitum á Suðurnesjum. Samið var um að eignir rafveitna sveitarfélaganna yrðu lagðar fram sem stofnframlög og að eignarhlutur ríkisins í Hitaveitu Suðurnesja minnkaði þar með þannig að ríkissjóður eigi 20% og sveitarfélögin 80% eignarhluta í hitaveitunni. Enn fremur er gert ráð fyrir að stjórn Hitaveitu Suðurnesja verði skipuð níu mönnum í stað fimm eins og nú er þannig að öll sveitarfélögin eigi alltaf fulltrúa í stjórninni.

Með lögum þessum kemst öll orkuvinnsla á Reykjanesi í umsjá eins og sama fyrirtækis. Eru þá mál komin í svipað horf á Reykjanesi og þau eru á Vestfjörðum. Það er almenn skoðun að með þessu fyrirkomulagi sé stuðlað að sjálfstæði sveitarfélaga í orkumálum og þeim veitt sjálfstæði í orkudreifingu innan eigin héraðs. Með því er stuðlað að hagkvæmni og bættri nýtingu orkulinda heima í héraði.

Herra forseti. Ég legg til að að lokinni þessari umræðu verði þessu frv. vísað til 2. umr. og hv. iðnn.