18.11.1985
Efri deild: 15. fundur, 108. löggjafarþing.
Sjá dálk 674 í B-deild Alþingistíðinda. (517)

119. mál, Hitaveita Suðurnesja

Davíð Aðalsteinsson:

Hæstvirtur forseti. Aðeins örfá orð. Ég vil byrja á að lýsa fylgi mínu við þetta frv. Það er aðeins varðandi 3. gr. frv.sem ég vil gera athugasemd, þar sem fjallað er um afgreiðslu mála og gert er ráð fyrir að að jafnaði sé viðhöfð hlutfallsleg atkvæðagreiðsla miðað við eignarhlutfall samkvæmt 2. gr., enda komi fram ósk a.m.k. eins stjórnarmanns þar um, og þarf þá 60% atkvæða til að mál teljist samþykkt. Síðan segir, með leyfi forseta:

„Undirskrift meiri hluta stjórnar bindur fyrirtækið.“ Það er spurning af minni hálfu af hverju taka þarf þetta fram í lok greinarinnar þegar áður hefur verið sagt að 60% atkvæða þurfi til þess að mál teljist samþykkt. Þar sem talað er um meiri hluta stjórnar, er þá átt við meiri hluta sem grundvallast á meirihlutaeign? Nú er mér ekki alveg ljóst hvar þessi skil kunna að vera, þ.e. hvenær mál eru afgreidd á grundvelli meiri hluta stjórnarmanna, þ.e. fimm greiða atkvæði með einhverju máli og fjórir á móti, einfaldlega tala stjórnarmanna, og hins vegar hvenær um væri að ræða atkvæðagreiðslu í krafti óska eins stjórnarmanns á grundvelli eignarhluta.

Ég hefði í sannleika sagt haldið að eðlilegast væri að hafa það sem reglu að eignarhlutur lægi ævinlega á bak við ákvarðanir. Það er alveg greinilegt að andi frv. gerir ráð fyrir því og þar með að Keflavíkurkaupstaður hafi allveruleg áhrif, ef hann óskar, áhrif á grundvelli síns eignarhluta. Það má svo sem vel vera að í einhverju minni háttar máli, sem e.t.v. engu máli skiptir fyrir veituna, verði ekki beðið um að afstaða verði tekin á grundvelli eignarhluta.

Um þetta verður að sjálfsögðu fjallað í nefnd, en ég vildi heyra frá hæstv. ráðh. um hvort þar sem getið er um undirskrift meiri hluta stjórnar sé ekki óyggjandi átt við meiri hluta á grundvelli eignaraðildar.