18.11.1985
Neðri deild: 16. fundur, 108. löggjafarþing.
Sjá dálk 682 í B-deild Alþingistíðinda. (529)

5. mál, jarðhitaréttindi

Svavar Gestsson:

Herra forseti. Hér eru á dagskrá atkvæðagreiðslur í fjórum málum sem eru skyld. Þ.e. frv. um jarðhitaréttindi, orku fallvatna, orkulög og land í þjóðareign. Ég held að það væri eðlilegur hlutur að á þessum málum yrði tekið í samhengi eins og mun hafa verið rætt hér við umræður um málið. Þess vegna vil ég fara þess á leit við hæstv. forseta að hann fresti atkvgr. um þessi mál og það verði kannað hvort ekki er unnt að ná samkomulagi um meðferð þeirra hér í þinginu. Það teldi ég að gerðist best með því að þessu yrði vísað til sérstakrar nefndar til þess að fjalla um eignarrétt á landi og náttúrugæðum. En það er alla vega ljóst að miðað við þær umræður sem hér hafa farið fram þá er ekki samkomulag um að þessum málum verði öllum, eða að verulegu leyti, vísað t.d. til hv. iðnn.

Ég vil þess vegna leyfa mér að fara þess á leit við hæstv. forseta að hann fresti þessum atkvgr. og beiti sér síðan fyrir því að kanna hvort ekki er samkomulag um það að setja niður sérnefnd skv. 15. gr. þingskapa til að fjalla um þessi mál.