19.11.1985
Sameinað þing: 17. fundur, 108. löggjafarþing.
Sjá dálk 704 í B-deild Alþingistíðinda. (536)

Eldgos í Kólumbíu

Ólafur Ragnar Grímsson:

Herra forseti. Í samræmi við ný ákvæði þingskapa, sem hæstv. forseti hefur vitnað til, kveð ég mér hljóðs utan dagskrár til að ræða hvernig Íslendingar geti látið í té sérstaka aðstoð vegna hörmunganna sem orðið hafa af völdum eldgosa í Kólumbíu. Rúmlega 20 000 íbúar hafa látið lífið, mörg byggðarlög hafa grafist undir gjósku og leir, farsóttir hafa brotist út, neyðarástandi hefur verið lýst á stórum svæðum, tugþúsundir hafa slasast, misst heimili sín eða glatað nánustu ættingjum. Eldgosin í Kólumbíu eru meðal hinna mannskæðustu á síðustu 2000 árum. Aðeins eitt annað á þessari öld hefur valdið slíku tjóni.

Við Íslendingar þekkjum hörmungar af völdum eldgosa. Saga okkar geymir mörg dæmi um miskunnarlausa glímu við heljaröfl náttúrunnar. Skaftáreldar 1783 eru á skrá yfir röskan tug mestu eldgosa mannkynssögunnar og í kjölfar þeirra komu móðuharðindin. Þá missti okkar litla þjóð um 10 000 manns vegna hungurs eða sóttar. Eins og öllum er í fersku minni lamaði gosið í Vestmannaeyjum blómlegustu verstöð landsins fyrir röskum áratug þótt blessunarlega týndi enginn lífi, en mikið tjón varð á eignum. Þá barst okkur Íslendingum mikil aðstoð frá öðrum löndum.

Við Íslendingar ættum því að skilja betur en flestir aðrir ógnir eldgosa. En okkur hefur einnig verið falinn sérstakur trúnaður á alþjóðavettvangi hvað snertir þekkingaröflun á þessu sviði. Hér er starfandi jarðhita og eldfjalladeild Háskóla Sameinuðu þjóðanna og norrænar þjóðir hafa reist hér sérstaka rannsóknastöð á þessu sviði.

Herra forseti. Það er því við hæfi að Íslendingar leggi nú fram myndarlega og sérstaka aðstoð í þágu þjóðar Kólumbíu. Sú aðstoð gæti verið bæði í formi fjármuna og tækniaðstoðar, gagna og þjónustuhjálpar. Ég vil því beina þeirri hugmynd og þeirri fsp. til bæði forsrh. og forystumanna allra þingflokka hér á Alþingi hvort ríkisstj., þingflokkar hennar, sem og aðrir þingflokkar hér á Alþingi geti myndað nú þegar samstarfsnefnd sem á næstu dögum skili tillögum um sérstaka og myndarlega aðstoð Íslendinga vegna eldgosanna í Kólumbíu. Verði þá í þessu efni einnig leitað álits og aðstoðar almannasamtaka utan þings og stofnana sem starfa á þessu sviði.

Herra forseti. Það hafði verið ákveðið í gær að þessi umræða færi hér fram í dag, en nú bárust í hádeginu fréttir af því að ríkisstj. hefði áður en mál voru rædd hér ákveðið á fundi sínum í morgun að verja 1 millj. kr. til þessarar neyðaraðstoðar. Þó að sú upphæð geti vissulega verið byrjun er hún ekki stór. Hún nær ekki einu sinni árslaunum eins ráðherra og getur varla talist myndarlegt framlag af hálfu okkar Íslendinga með tilliti til sögu okkar, aðstæðna og alþjóðlegra skuldbindinga á þessu sviði.

Ég vona því, herra forseti, að hæstv. forsrh. sem og forystumenn allra þingflokka hér á Alþingi taki vel þeirri hugmynd að við myndum í sameiningu samstarfsnefnd sem á næstu dögum komist að niðurstöðu um myndarlegt framlag Íslendinga í þessum efnum sem er í senn í samræmi við sögu okkar og reynslu á sviði eldgosa og í ætt við þær alþjóðlegu skuldbindingar sem við höfum tekið að okkur á þessu sviði.