19.11.1985
Sameinað þing: 17. fundur, 108. löggjafarþing.
Sjá dálk 706 í B-deild Alþingistíðinda. (541)

Eldgos í Kólumbíu

Páll Pétursson:

Herra forseti. Ég fagna ákvörðun ríkisstj. og ég vil líka þakka hv. þm. Ólafi Ragnari Grímssyni fyrir að hefja máls á þessu hér á Alþingi. Ég lít svo á að sú ákvörðun sem ríkisstj. hefur tekið sé allmyndarlegt fyrsta skref í þessu máli. Mér finnst að ástandið sé þarna mjög óljóst og mjög óljóst hvers þarf með. Þetta er fyrsta aðstoð. Mér sýnist, a.m.k. í samræmi við það sem Finnar gerðu, að þetta sé myndarlegt skref í sjálfu sér.

En það getur vel verið að þarna þurfi miklu meira og við komum til með að fylgjast með þessu máli. Að sjálfsögðu er eðlilegt að hafa um það samráð á Alþingi meðal stjórnar og stjórnarandstöðu hver framvindan verður. Við höfum verulega sérfræðiþekkingu hér á Íslandi sem e.t.v. getur komið þarna að notum og er sjálfsagt að kanna og fylgjast með því með hverjum hætti við getum orðið að enn meira liði ef á þarf að halda.