19.11.1985
Sameinað þing: 17. fundur, 108. löggjafarþing.
Sjá dálk 706 í B-deild Alþingistíðinda. (542)

Eldgos í Kólumbíu

Ólafur G. Einarsson:

Herra forseti. Það á vissulega erindi hér inn á Alþingi að ræða hinar miklu hörmungar sem dunið hafa yfir Kólumbíu.

Ríkisstj. hefur þegar ákveðið að verja 1 millj. kr. til hjálparstarfsins. Um þá upphæð má vissulega deila, en þetta hefur ríkisstj. ákveðið og jafnframt falið Rauða krossi Íslands að hafa milligöngu um ráðstöfun þessa fjár.

Ég get tekið undir hugmyndir hv. þm. Ólafs Ragnars Grímssonar um að komið verði á fót sérstakri samstarfsnefnd sem hefði þá til athugunar frekari aðstoð sem hin íslenska þjóð gæti látið í té og þar á meðal miðlun þeirrar þekkingar sem íslenskir vísindamenn hafa á eldgosum.

Ég lýsi sem sagt stuðningi mínum við þessa hugmynd, en tel jafnframt eðlilegt, eins og ríkisstj. hefur þegar ákveðið, að Rauði krossinn hafi þar forustu.