19.11.1985
Sameinað þing: 17. fundur, 108. löggjafarþing.
Sjá dálk 708 í B-deild Alþingistíðinda. (545)

Eldgos í Kólumbíu

Páll Pétursson:

Herra forseti. Út af ræðu hv. málshefjanda vil ég taka af öll tvímæli ef þau hafa fólgist í ræðu minni. Ég er auðvitað hlynntur samstarfi þm. um þetta mál og tel það sjálfsagðan hlut.

Það liggur ekki fyrir á þessari stundu svo að ég viti hversu mikillar hjálpar endanlega verður þörf þarna, en það er sjálfsagt að fylgjast með því og líka á hvern hátt hún getur hagkvæmast orðið látin í té. Við höfum yfir sérfræðiþekkingu að ráða sem e.t.v. er ekki til taks hjá öllum öðrum og ég geri ráð fyrir að söfnun hljóti að fara í gang meðal fólksins í landinu, en mér finnst að ríkisstj. hafi brugðist rétt og drengilega við í fyrstu lotu og því fagna ég.