19.11.1985
Sameinað þing: 17. fundur, 108. löggjafarþing.
Sjá dálk 709 í B-deild Alþingistíðinda. (548)

83. mál, almenn stjórnsýslulöggjöf

Forsrh. (Steingrímur Hermannsson):

Herra forseti. Það er rétt, sem hv. fyrirspyrjandi sagði, að hér er um mjög mikilvægt mál að ræða. Þess vegna fól ég þeirri stjórnkerfisnefnd, sem ég skipaði 18. ágúst 1983, að kanna einnig þetta mál. Til að hraða meðferð málsins ákvað ég að fela þremur lögfræðingum, sem í nefndinni eiga sæti, að gera drög að frv. til stjórnsýslulaga. Þessir þrír lögfræðingar eru: Eiríkur Tómasson hrl., Jón Steinar Gunnlaugsson hrl. og Helga Jónsdóttir aðstoðarmaður forsrh. Þau hafa tjáð mér að þau geri ráð fyrir að drög að frv. verði tilbúin í desembermánuði. Þá hafði ég ákveðið að biðja um fulltrúa frá öllum þingflokkum til að fjalla um það mál. Ég geri síðan ráð fyrir að unnt verði að leggja fyrir Alþingi frv. til almennra stjórnsýslulaga þegar þingið kemur saman að nýju eftir áramótin. Þetta er að vísu mikill lagabálkur og kannske miklu lofað þegar þetta er sagt, en ég tek undir það með hv. þm. að þetta er ákaflega mikilvægt mál.

Ég vil upplýsa að í frv. er gert ráð fyrir þremur meginköflum, kafla um almenna meðferð mála hjá öllum stjórnvöldum, kafla þar sem ítarlega verður fjallað um meðferð mála í Stjórnarráði Íslands og kafla þar sem gert er ráð fyrir að sett verði á stofn embætti umboðsmanns Alþingis og reglur um starfsháttu hans og verksvið.