19.11.1985
Sameinað þing: 17. fundur, 108. löggjafarþing.
Sjá dálk 719 í B-deild Alþingistíðinda. (564)

98. mál, þátttaka Íslands í vísindasamstarfi Evrópuþjóða

Forsrh. (Steingrímur Hermannsson):

Herra forseti. Á fundi ríkisstj. 5. nóv. s.l. var fjallað um þessa svonefndu Eureka-áætlun eða European Research Coordination Agency og var á þeim fundi ákveðið að kanna möguleika á því að Íslendingar tækju þátt í þessu sameiginlega vísinda- og rannsóknastarfi Evrópulandanna. Þessi áætlun á nokkurn aðdraganda, þó ekki mjög langan. Ég hygg að það sé vorið 1985 að franska ríkisstjórnin leggur til að samstarf Evrópulandanna á þessu sviði verði kannað og einkum þó á sviði hátækniiðnaðar og þróunar. Var fundur um það haldinn í París 17. júlí s.l. Hæstv. menntmrh. mætti síðan á fundi um þessi mál 31. október og kynnti sér þá ítarlega hugmyndir Norðurlandanna um samstarf á þessu sviði. Lagði hæstv. menntmrh. fyrir ríkisstj. skýrslu um það mál sem var grundvöllur að þeirri ákvörðun sem ég gat um í upphafi míns máls.

Á þessum fundi, sem hæstv. menntmrh. sótti í Marienborg, var fjallað um liði eins og t.d. skrifstofu fyrir áætlunina, þátttöku Efnahagsbandalagsins sem slíks í þessari áætlun og undirbúning allan sem yrði fyrir opnum tjöldum og með þátttöku sem flestra iðnaðarfyrirtækja í viðkomandi löndum og rannsóknastofnananna. Um fjármögnun var á þessum fundi ítarlega rætt og möguleika norrænna iðnaðarfyrirtækja til að taka virkan þátt í þessu samstarfi. Ég get síðan upplýst að í framhaldi af þessari ákvörðun situr hæstv. iðnrh. nú fund með iðnaðarráðherrum Norðurlanda þar sem fjallað er um samræmingu á þátttöku Norðurlandanna í þessari áætlun. Þannig að þó að við kæmum aðeins seinna til þessa en sumar aðrar þjóðir þá erum við nú að kanna þessi mál og reyndar orðnir þátttakendur.

Ég tek undir það með hv. fyrirspyrjanda að fyrir okkar þróun á þessu sviði getur orðið mjög mikilvægt að taka þátt í þessu og ég held að það hljóti að verða mikilvægt því þó við séum litlir á þessu hátæknisviði þá þarf oft ekki mikið til þess að valda hér tímamótum í slíkum greinum.

Þarna er gert ráð fyrir því að fjalla um upplýsingatækni, fjarskipti, framleiðslutækni, líftækni, ýmis konar ný efni, „optronic“ sem svo er kallað - og er víst ekki til í íslenskri þýðingu - aflmikla lasergeisla, hugbúnað, stórar tölvur o.s.frv., sem of langt mál yrði hér að telja.

Ég verð að segja fyrir mitt leyti að ég vænti góðs af þessu og meira heldur en í orði, einnig í verki. Og af því að hv. fyrirspyrjandi komst svo að orði þá þykir mér ástæða til að vekja athygli á því að þær 50 millj. kr. sem ákveðið var af ríkisstj. að veita til rannsókna á ýmsum sviðum hafa sýnt það mikla þörf, og annað sem er enn þá ánægjulegra, sýnt að hér á landi eru mjög margir aðilar að vinna að ýmiss konar ákaflega athyglisverðum hugmyndum um nýsköpun og nýja þróun á ýmsum sviðum atvinnuveganna. Þessu fjármagni hefur verið úthlutað og athugun á umsóknunum leiddi þetta tvímælalaust í ljós. Ég held að það sé satt að segja brotið blað með úthlutun þess fjármagns til fjölmargra, bæði rannsóknastofnana og einstaklinga á ýmsum sviðum vísinda. Það er von mín að við getum gerst virkir þátttakendur í þessu samstarfi, bæði lagt þar nokkuð til mála og ekki síður hlotið verulega hagsbót af.