19.11.1985
Sameinað þing: 17. fundur, 108. löggjafarþing.
Sjá dálk 721 í B-deild Alþingistíðinda. (568)

98. mál, þátttaka Íslands í vísindasamstarfi Evrópuþjóða

Forsrh. (Steingrímur Hermannsson):

Herra forseti. Ég vil aðeins leiðrétta það hjá hv. fyrirspyrjanda að ekki hafi verið fylgst með þessu máli nokkurn veginn frá upphafi. Þetta mál á ekki uppruna sinn á Norðurlöndunum heldur, eins og ég sagði áðan, þá eru það Frakkar sem hófu máls á þessu og þetta hefur verið rætt innan OECD eða Efnahags- og framfarastofnunar Evrópu. Við erum þátttakendur í vísindanefnd þeirrar stofnunar í gegnum Rannsóknaráð ríkisins og það er alllangt síðan að ég fékk upplýsingar þar frá um þessar hugmyndir. Það var hins vegar talið óhjákvæmilegt að kanna hvort við hefðum yfirleitt fjárráð til að taka þátt í þessu svo marktækt væri. Og ég hygg að leið til þess kunni helst að opnast í gegnum svona samstarf Norðurlandanna, eins og m.a. hæstv. menntmrh. lýsti hér áðan, svo þetta hefur haft nokkurn aðdraganda, verið í könnun. Ég legg áherslu á að við viljum ekki reisa okkur hurðarás um öxl og gerast þátttakendur og geta ekki staðið við okkar skuldbindingar.