19.11.1985
Sameinað þing: 17. fundur, 108. löggjafarþing.
Sjá dálk 722 í B-deild Alþingistíðinda. (569)

98. mál, þátttaka Íslands í vísindasamstarfi Evrópuþjóða

Fyrirspyrjandi (Eiður Guðnason):

Herra forseti. Hæstv. forsrh. segir að það hafi verið fylgst með þessu máli lengi. Það má vel rétt vera. En mér þykja nú svona heldur rasshandarleg vinnubrögðin í sambandi við þetta allt saman. En það vildi ég taka undir með hæstv. menntmrh. að auðvitað væri það mjög ákjósanleg leið að við værum aðilar að þessu samstarfi í gegnum norrænar stofnanir eins og hann hér nefndi. Ég vil hins vegar vara við þeim hugsunarhætti að við horfum fram hjá þessu og tökum ekki þátt í þessu vegna þess að þetta sé eingöngu fyrir stórfyrirtæki, og jafnvel ekki SÍS, eins og hér var sagt í þessum ræðustól áðan, sé af þeirri stærðargráðu að það geti ekki tekið þátt í þessu. Ég vil bara benda á að við eigum frambærilega vísindamenn og við eigum fólk sem hefur náð langt í gerð hugbúnaðar á ýmsum tölvusviðum og það er kannske hægt að leggja til fleira en fé. Þó við höfum ekki mikið fé þá höfum við bæði hugvit og þekkingu og vel menntað fólk og það geta líka verið framlög í þessu máli.