19.11.1985
Sameinað þing: 17. fundur, 108. löggjafarþing.
Sjá dálk 722 í B-deild Alþingistíðinda. (570)

96. mál, tóbaksvarnarlög

Fyrirspyrjandi (Kristín S. Kvaran):

Hæstv. forseti. Ég hef leyft mér á þskj. 106 að bera fram fsp. til hæstv. heilbr.- og trmrh. um framkvæmd tóbaksvarnalaga.

Öllum hér inni er víst enn í fersku minni sú umræða sem átti sér stað hér á hv. Alþingi umleikis setningu þessara laga. Í þeim eru ýmis ákvæði sem kveða á um að „bannað sé“ og ákvæði sem hefjast á orðunum „ekki má“. Það er mikið sem er bannað skv. þessum lögum og þar er einnig kveðið nánar á um eftirlit og viðurlög við brotum. Það er jafnvel kveðið svo sterklega að orði að sá sem brjóti gegn ákvæðum skuli sæta sektum eða varðhaldi séu sakir miklar eða brot ítrekuð. Við umræður um þetta mál á sínum tíma voru m.a. hafðar uppi efasemdir um að unnt reyndist að fylgja eftir lögum af þessu tagi og einnig að við værum að setja lög sem væru mjög vel fallin til þess að brjóta þau. Þess vegna finnst mér nauðsynlegt nú einu og hálfu ári seinna að spyrjast fyrir um það hvernig framkvæmd þessara laga hafi gengið fyrir sig.

Ég spyr þess vegna:

1. Hafa verið gerðar ráðstafanir til þess að draga úr tóbaksneyslu í samræmi við lög um tóbaksvarnir, nr. 74 1984?

2. Er bann það við auglýsingum, sem lögin kveða á um, í heiðri haft?

3. Hafa komið fram kærur vegna meintra brota á 8. gr. laganna? Eru t.d. brögð að því að börnum yngri en 16 ára sé selt tóbak?

4. Hafa verið sett nánari ákvæði um framkvæmd laganna með reglugerð, sbr. heimild í 16. gr.?

5. Hvaða sektum sætir sá sem brýtur gegn ákvæðum 6.-11. gr. og 13. gr. laganna?