19.11.1985
Sameinað þing: 17. fundur, 108. löggjafarþing.
Sjá dálk 724 í B-deild Alþingistíðinda. (573)

103. mál, fræðsla til varnar vímuefnaneyslu

Fyrirspyrjandi (Kristín S. Kvaran):

Herra forseti. Ég hef leyft mér að bera fram fsp. á þskj. 113 til hæstv. menntmrh. um fræðslu til varnar vímuefnaneyslu.

Það hefur ekki farið fram hjá neinum þeim, sem að einhverju leyti hefur litið til þessa málaflokks, að hér eru á ferðinni mjög alvarlegir atburðir sem geta haft ófyrirséðar afleiðingar. Þegar svo er komið fyrir fjölda fólks að vímuefni eru farin að ráða eða stjórna gerðum þess að meira eða minna leyti er ástandið orðið mjög alvarlegt. Þess vegna er ljóst að brýn þörf er á því að líta til uppvaxandi æskufólks í þessu tilliti og athuga hvað það er sem helst er hægt að gera til að koma í veg fyrir að það ánetjist vímuefnum.

Af öllum þeim hættum sem steðja að samfélaginu almennt, en þó unglingum sérstaklega, er líklega engin svo eyðileggjandi sem notkun vímuefna. Slík notkun hefur í för með sér margþætt vandamál. Afleiðingar slíkrar notkunar hafa auðvitað fyrst og fremst eyðileggjandi áhrif á notandann og fjölskyldu hans, en valda um leið minnkandi afkastagetu á vinnustað og í skóla. Það er útbreiddur misskilningur að unglingum og reyndar öllum öðrum sé óhætt að fara út í notkun vímuefna, svo sem marijúana, kókaíns og heróíns, í þeirri fölsku trú að slík efni megi nota áhættulaust. Reynslan hefur sýnt að hafi fólk einu sinni skilið hættuna á heilsutjóni, sem slík efni leiða af sér, er það líklegra til að taka upp ábyrgari afstöðu gegn þeim. M.a. þess vegna er svo mikilvægt að efla fræðslu til varnar því að börn og unglingar ánetjist vímuefnum. Með því eykst möguleikinn til þess að afstýra óbætanlegum andlegum og líkamlegum skaða og verja með því þjóðfélagið gegn þeirri þungbæru byrði sem slík neysla er.

Það ber bráða nauðsyn til þess að við rekum af höndum okkar hina eyðileggjandi notkun vímuefna unglinga hérlendis. Ef við berum ekki gæfu til þess mun umtalsverður hluti heillar kynslóðar lifa við skertan andlegan og líkamlegan þroska. Þess vegna er nauðsynlegt að ráðast gegn því ört vaxandi vandamáli sem notkun vímuefna er.

Þetta eru ástæðurnar sem liggja að baki því að ég hef leyft mér að bera fram fsp. til hæstv. menntmrh. á þskj. 113 og er hún svohljóðandi:

„Hefur ríkisstj. í hyggju að efla fræðslu til varnar því að börn og unglingar ánetjist vímuefnum?"