19.11.1985
Sameinað þing: 17. fundur, 108. löggjafarþing.
Sjá dálk 725 í B-deild Alþingistíðinda. (574)

103. mál, fræðsla til varnar vímuefnaneyslu

Menntmrh. (Sverrir Hermannsson):

Herra forseti. Fyrr í þessum mánuði stóð menntmrn. að dagskrá um heilbrigðisfræðslu og heilsuvernd í skólum og var einn dagur helgaður fíkniefnafræðslu í skólastarfi. Verður tekið mið af niðurstöðum ráðstefnunnar við skipulagningu fræðslustarfsins í grunnskólum, en í skólaþróunardeild menntmrn. fer fram stefnumótun fyrir ávana- og fíkniefnafræðslu í grunnskólum.

Ekki hefur verið unnið skipulega að námsefnisgerð fyrir grunnskóla um ávana- og fíkniefni, en til er í kennslumiðstöð Námsgagnastofnunar nokkurt safn námsefnis sem grunnskólakennarar geta fengið til afnota. Kennaranemar vinna enn fremur að námsefnisgerð á þessu sviði.

Menntmrn. gaf út fyrir nokkrum árum kennsluleiðbeiningar fyrir grunnskóla um bindindisfræðslu. S.I. vor kom út á vegum Námsgagnastofnunar bókin Fíkniefni, ný viðhorf til vandans, eftir Helen Nowlis. Bókin er einkum ætluð kennurum, foreldrum og stjórnmálamönnum. Þar er m.a. lögð áhersla á mikilvægi þess að sem flestir aðilar vinni saman að fræðslu og fyrirbyggjandi starfi til að sporna við fíkniefnaneyslu. Við stefnumótunina, sem nú fer fram í skólaþróunardeildinni í menntmrn., hefur verið og verður haft samráð við heilbr.- og trmrn., sérstaklega skólayfirlækni og aðra aðila sem eiga aðild að starfi grunnskólanna í þessum efnum.