19.11.1985
Sameinað þing: 17. fundur, 108. löggjafarþing.
Sjá dálk 727 í B-deild Alþingistíðinda. (577)

109. mál, stefna í málefnum vímuefnaneytenda

Heilbr.- og trmrh. (Ragnhildur Helgadóttir):

Herra forseti. Spurt er:

„Hefur ríkisstj. markað stefnu í málefnum vímuefnaneytenda?"

Ég vil geta þess að þegar ég ræði um vímuefni í þessu svari á ég bæði við hið löglega vímuefni, áfengi, og hin ólöglegu efni sem geta verið af mörgum toga.

Engum blandast hugur um að sérhver ríkisstj. hefur stefnu í vímuefnamálum því að um þau gildir margvísleg löggjöf. Það eru í gildi sérstök áfengislög sem hafa að megintilgangi að vinna gegn misnotkun áfengis og að útrýma því böli sem er samfara áfengisneyslu. Jafnframt eru ströng ákvæði um innflutning áfengis, um tilbúning þess, sölu og veitingu. Þá er í áfengslögum sérstakur kafli um ölvun. Þar kemur í ljós að engum er heimilt að neyta áfengis í þeim mæli að hann verði ölvaður ef hann á ekki að brjóta lög landsins.

Hvað öðrum vímuefnum viðkemur er innflutningur, sala og notkun þeirra óheimil og erum við þá komin inn á svið dómsmrh. Þá er eðlilegt að minnt sé á þáltill., sem samþykkt var hinn 7. maí 1981, um opinbera stefnu í áfengismálum, þar sem Alþingi lagði til grundvallar stefnu sína í þessum málum á eftirfarandi hátt:

að draga úr heildarneyslu vínanda,

að stórauka skipulagðar rannsóknir, fræðslu og umræðu um áfengismál,

að auka stuðning við áhugamannasamtök um áfengismál,

að skilgreina eðlilega meðferð áfengissjúklinga og kveða á um flokkun meðferðarstofnana,

að leggja ríkisvaldinu, sem verslar með áfengi, þær skyldur á herðar að vinna gegn ofneyslu áfengis með fyrirbyggjandi starfi, t.d. fræðslustarfsemi, svo og að liðsinna þeim sem eiga við áfengisvandamál að stríða.

Frumtillögur þeirrar nefndar sem um þetta fjallar voru lagðar fram haustið 1983, en lokatillögur nefndarinnar eiga að koma fram á næsta ári skv. skipunarbréfi hennar. Í þeim tillögum um vímuefni önnur en áfengi sem fyrrv. heilbrrh. tók við 27. febr. 1984 var því lýst sem skoðun nefndarinnar að útilokað sé að fjalla um vímuefnin nema sem heild, því að kannanir sýni að áfengi sé algengast og undantekningarlítið fyrsta vímuefnið sem ungt fólk reynir, en önnur og ólögleg vímuefni fylgi síðan oft í kjölfarið. Það virðist því almenn skoðun að bæði varnir og meðferðarúrræði verði að vera sameiginleg fyrir öll vímuefni.