19.11.1985
Sameinað þing: 17. fundur, 108. löggjafarþing.
Sjá dálk 728 í B-deild Alþingistíðinda. (578)

109. mál, stefna í málefnum vímuefnaneytenda

Fyrirspyrjandi (Kristín S. Kvaran):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. heilbr.- og trmrh. fyrir svörin. Það er rétt að um vímuefnaneyslu gilda lög, þ.e. að efnin eru ólögleg, þau sem hér um ræðir og ég spyr sérstaklega um, en mér finnst rétt að taka af öll tvímæli um að það er skoðun mín og reyndar mjög margra fleiri að öll umræða um vímuefnaneyslu unglinga hafi einkennst af tvískinnungshætti. Af og til eru umræðuþættir, ráðstefnur og hvað þetta heitir allt saman þar sem menn ræða vítt og breitt um þennan gífurlega vanda. Menn ræða þar af alvöruþunga og eru fullir vandlætingar um þetta voðaástand og þar með er búið að hreinsa samviskuna. Síðan gerist ekkert fram að næsta umræðuþætti eða ráðstefnu. Það er býsnast yfir því að unglingarnir skuli leita á þessa glapstigu og sækja í þessi vímuefni. Þess vegna finnst mér vera mikilsvert, og það er þess vegna sem þessi fsp. kemur hér fram, að stjórnvöld komi fram með skýrt markaða stefnu í þeim málum sem varða ólögleg vímuefni þó svo að auðvitað verði að hafa mjög góða samvinnu við alla þá aðila sem hafa með að gera fræðslu og löglegar aðgerðir varðandi varnir í þessum málum.