19.11.1985
Sameinað þing: 18. fundur, 108. löggjafarþing.
Sjá dálk 758 í B-deild Alþingistíðinda. (592)

Okurmál

Svavar Gestsson:

Herra forseti. Hv. 4. þm. Norðurl. e. lagði fyrir ríkisstj. nokkrar spurningar. Ráðherrarnir gerðu tilraun til að svara þessum spurningum. Svörin voru ákaflega óskýr og ófullnægjandi að mínu mati. Hér dugir ekki að vera með mál í athugun. Hér dugir ekki að menn séu að kanna frumvörp. Hér dugir ekkert annað en aðgerðir strax í dag. Ríkisstj. ætti nú að leggja fram frv. til laga á Alþingi um að stöðva okurlánastarfsemina, sem yrði afgreitt hér dagfari, náttfari í báðum deildum þingsins og yrði að lögum fyrir helgi. Auðvitað dugir ekkert annað í þessu efni. Það liggur Ljóst fyrir hvaða efnisatriði ættu að vera í slíku frv.

Í fyrsta lagi á þar að segja: Skuldabréf verði öll skráð á nafn. Í öðru lagi á að vera skýrt ákvæði þar um að þeir sem starfrækja verðbréfamiðlun hér á landi þurfi til þess sérstakt leyfi frá bankaeftirlitinu. Í þriðja lagi á að vera þar ákvæði um að engir kröfupappírar séu gildir af neinu tagi öðruvísi en þeir hafi áður hlotið viðurkenningu opinberra aðila. Í fjórða lagi á þar að vera ákvæði um að vaxtatekjur séu skattskyldar. Og í fimmta lagi á að setja um það reglur að samræma öll útlánaform hanka og annarra aðila hér í þjóðfélaginu.

Það liggur algerlega í augum uppi að þetta er hægt að gera og ákveða hér og nú. Menn eiga ekki að vera að dunda sér við að bíða eftir einhverjum frumvörpum meðan staðan er svona á heimilunum í landinu, meðan sameiningartákn ríkisstj., Lögbirtingablaðið, kemur út á hverjum einasta degi og tilkynnir dóm yfir fólki sem er að missa eignir sínar í stórum stíl.

Það var hlálegt þegar hæstv. forsrh. var að reyna að skjóta sér á bak við það að einhver maður, sem nefndur hefði verið í sambandi við nauðungaruppboð, hefði misfarið með fé. Með umræðum af þessu tagi eru ráðherrarnir að drepa málinu á dreif. Hér er um að ræða vandamál sem snertir fjölskyldurnar í landinu þúsundum saman þessa dagana og það dugir ekkert annað en að Alþingi svari kröfunni hér og nú og þegar í stað, hér fari í gegn lagafrv. um að stöðva þetta svínarí. Þegar staðan er orðin þannig að fólki er hótað líkamsmeiðingum eins og hjá mafíunni í Bandaríkjunum ef það segir frá því hvernig viðskipti það hefur átt við þessa aðila og þegar upplýsingar um það koma fram í Ríkisútvarpinu á Alþingi að grípa í taumana og það strax. Það er í raun og veru ekkert annað líðandi.

Þess vegna voru þessi svör ráðherranna eða tilraun til svara, sem að mörgu leyti er einfaldast að lýsa með íslenska orðinu „þvæla“, eins og blaut tuska framan í þetta fólk og sýndi skilningsleysi þeirra og tilfinningaleysi gagnvart þeim mannlegu vandamálum sem hér er við að stríða og koma niður á fjölskyldunum og börnunum með þeim hætti að óvíst er hvort það verði nokkurn tíma bætt. Þetta grundvallaratriði ætti að liggja í augum uppi.

En í stað þess að grípa til aðgerða þegar í stað horfa menn á þetta aðgerðarlausir, m.a. það að það eru ekki einasta Íslendingar sem eru að bauka við okurlánastarfsemina hér á landi heldur birtast um það upplýsingar í blöðum að verið sé að stofna fyrirtæki í London til að geta komið erlendu fjármagni inn á okurlánamarkaðinn hér á Íslandi.

Sleipnir Ltd. heitir fyrirtæki í London sem hefur tekið upp samstarf við tvö norsk fyrirtæki sem heita Nevi og Investa. Þessi fyrirtæki ætla sér að fara inn á íslenska verðbréfamarkaðinn með sitt fé til að ávaxta það hér í gegnum íslensk fyrirtæki, lepp sem stofnaður yrði fyrir þessi erlendu fyrirtæki.

Á sama tíma og þetta er að gerast og liggur fyrir hér í blöðum og er búið að gera um margra vikna skeið hreyfa menn sig ekki, menn haggast ekki og segja hér í yfirlýsingum á Alþingi að þeir vorkenni ekki því fólki sem er svo vitlaust að taka lán með 300% vöxtum. Halda menn virkilega í ríkisstjórn Íslands að þetta sé spurning um vit eða ekki vit? Það er örvinglan sem leiðir þetta fólk fram fyrir okurlánarana. Það er að bjarga gjaldföllnu matarreikningunum sínum með því að selja skuldabréf með afföllum. Halda menn að menn geti hrist þetta af sér hér, ráðherrar í ríkisstjórn Íslands, með einhverjum almennum lýsingum á sölu skuldabréfa út og inn úr ríkissjóði? Það er ekki hægt. Það er ekkert svar gagnvart þessu fólki og það er ekki líðandi af Alþingi að hlusta á slíkan málflutning, hvað þá heldur að láta hann nægja. (Gripið fram í: Það var spurt um það, hv. þm.)

Þessir erlendu aðilar, Sleipnir Ltd., Sleipnir hf., eru sérstaklega hrifnir af hinum íslenska verðbréfamarkaði. „Verðbréfamarkaðurinn er miklu vænlegri kostur í dag," segir í viðtali þessara aðila við Morgunblaðið. „Þróun verðbréfamarkaðarins er auðvitað af hinu góða," segir hér líka. „Hér þarf að þróa ýmis svið fjármálastarfseminnar. Hér á Íslandi eru stórkostlegir möguleikar fyrir þessa aðila.“ o.s.frv. Þetta er tilkynnt hér í blöðum, málgögnum ríkisstj., og menn aðhafast ekki neitt.

Það er þetta sem nú brennur á fólki og það á ekki að líða það að Alþingi sitji hér á fundum dag eftir dag meðan eignir fólks brenna upp á verðbólgubálinu án þess að tekið sé á þessu máli. Ríkisstj. á að beita sér fyrir því. Til þess hefur hún afl og vald - ef hún vill. Þá er einmitt komið að kjarna málsins. Samkvæmt hinum ofstækisfullu kennisetningum hægri stefnunnar, sem þessi stjórn stjórnar eftir, má ekki skerða hár á höfði markaðarins þó að markaðurinn sé að kreista fé undan nöglunum á fólki. Það er hin heilaga kennisetning formanns Sjálfstfl., yfirlýsing hans hér áðan. Það má ekki hrófla við markaðnum. Það má ekki hrófla við forsendum markaðarins vegna þess að þá hrynur módelið mikla sem Hannes Hólmsteinn og félagar og Þorsteinn Pálsson, hv. formaður Sjálfstfl., eru að innleiða hér á landi. Þessir menn eru fangar pólitískrar stefnu sem kemur niður á lifandi fólki. Það er grundvallaratriði. Það er þetta sem hér liggur fyrir. Þess vegna voru svör ráðherranna út í hött.

Ég geri ráð fyrir því, herra forseti, að þessi umræða um okurlánin haldi áfram hér á hv. Alþingi. Ég ætla ekki að fara að halda hér neina langa ræðu að þessu sinni þó að það væri fjöldamargt, sem kom fram í ræðum ráðherranna, sem var svo ósmekklegt og svo fráleitt að full ástæða væri til að fara yfir það hér í mjög löngu og ítarlegu máli. Eiga þeir þá allir svipaðan hlut, forsrh., fjmrh. og viðskrh.

Ég ætla ekki að þessu sinni, herra forseti, að fara að svara þessum ráðherrum hér og nú í einstökum atriðum. Til þess er ekki tími vegna þess að hæstv. forsrh. verður ekki hér til að svara nema núna smástund í viðbót og hæstv. viðskrh. hefur af ástæðum sem kynntar hafa verið þurft að fara af fundi. (Gripið fram í: Hvað er forsrh. að gera?) Það er rétt að hann svari því sjálfur.

Ég held að málið sé svo alvarlegt að það sé óþolandi annað en að á því verði hér tekið og það verði rætt mjög rækilega.

Í ræðu hæstv. fjmrh. komu fram fjöldamörg efnisatriði sem væri ástæða til að svara, sömuleiðis í ræðu hæstv. forsrh. og hæstv. viðskrh. Það sem var athyglisverðast við þessar ræður var að það var samnefnari í þeim öllum, það var skilningsleysi á hinum mannlegu vandamálum sem stjórnarstefnan er að leiða yfir fjölskyldurnar í landinu. Það var tilfinningaleysi og um leið ábyrgðarleysi alþm. sem hér og nú eiga að taka á málum af þessu tagi. Það getur enginn þm. setið rór á þessari samkomu meðan heimilin eru að fara, eins og kunnugt er, á gjaldþrotabálið. Og það á enginn maður að leyfa sér, sem kosinn er hér inn á þessa stofnun, það kæruleysi gagnvart fólkinu í landinu að hann ekki krefjist aðgerða og létti ekki þeim kröfum fyrr en þær aðgerðir hafa verið ákveðnar hér í þessari virðulegu stofnun.