20.11.1985
Efri deild: 16. fundur, 108. löggjafarþing.
Sjá dálk 761 í B-deild Alþingistíðinda. (595)

121. mál, sala Kröfluvirkjunar

Ragnar Arnalds:

Virðulegi forseti. Hér liggur fyrir frv. um heimild fyrir ríkisstj. til að selja Landsvirkjun Kröfluvirkjun. Söluverðið er 1171 millj. kr. Hins vegar er vitað að skuldir virkjunarinnar eru miklu hærri; þær eru þrefalt hærri. Og mismunurinn á að lenda á ríkissjóði.

Í þessu sambandi er nauðsynlegt að rifja upp að við alþm. höfum tvívegis fengið upplýsingar um möguleika Kröfluvirkjunar til að standa sjálf undir greiðslu þeirra lána sem tekin hafa verið henni til handa. Í skýrslu sem samin var í maí 1983 og dreift var til alþm. á því ári kom fram eins og segir í niðurstöðu þeirrar skýrslu, með leyfi forseta: „Ef miðað er við skuldastöðu í dag og núverandi samning um orkusölu ætti Kröfluvirkjun að geta greitt sjálf niður skuldir sínar u.þ.b. skömmu eftir aldamót og miðast niðurstaða þessi við að afl yrði aukið í 60 mw.“ Og á öðrum stað í niðurstöðunum sagði: „Orkukostnaður við að auka afl virkjunarinnar úr 20 mw. í 60 mw. virðist svipaður og framleiðslukostnaður frá hagkvæmustu vatnsaflsvirkjunum landsmanna.“ Þess var reyndar getið að ef virkjunin væri ekki stækkuð úr 30 mw. í 60 mw. gæti virkjunin eftir sem áður greitt niður allar sínar skuldir miðað við að hún fengi aðstöðu til að selja þessi 30 mw. en það tæki 5 eða 6 árum lengri tíma.

Áður en ég held lengra áfram er rétt að rifja upp að það er ekki aðeins þessi skýrsla sem okkur hefur borist um skuldastöðu Kröfluvirkjunar heldur barst okkur skýrsla á s.l. hausti, í formi svars iðnrh. við fsp. frá Steingrími J. Sigfússyni, um sama efni. Í því svari var að vísu talið að möguleikar Kröfluvirkjunar til að greiða niður skuldir væru aðeins lakari en talið hafði verið árið áður, en þó var það niðurstaðan að miðað við 60 mw. framleiðslu gæti virkjunin greitt niður allar sínar skuldir, að vísu á mismunandi tíma, miðað við mismunandi forsendur. Þó er upplýst að eftir að sú skýrsla var gefin hafa möguleikar Kröfluvirkjunar til þessa aukist og batnað vegna þess að Landsvirkjun fékk verulega hækkun á töxtum sínum eftir að skýrslan var samin.

Hvað veldur þá þessum gríðarlega mikla mismun þar sem annars vegar er talað um að hægt sé að láta virkjunina standa alla undir sínum skuldum og hins vegar að ríkið selur virkjunina fyrir þriðjung af þeim skuldum sem á henni hvíla?

Ég verð að segja alveg eins og er að mér finnst umræður um þessa hlið málsins hafa verið einkennilega litlar og að landsmenn og alþingismenn hafi haft litla möguleika til að átta sig á hvar hnífurinn stendur í kunni og hvernig stendur á þessum gífurlega mun. Ég held að almennt sé viðurkennt af forráðamönnum Landsvirkjunar, það hefur t.d. komið skýrlega fram í samtölum mínum við ýmsa aðila sem tengdir eru Landsvirkjun, að þessi samningur er ákaflega hagstæður fyrir Landsvirkjun. Og ég veit að forráðamenn Reykjavíkurborgar eru mjög ánægðir með þennan samning vegna þess að Reykjavíkurborg er aðili að Landsvirkjun. Og ég veit að forráðamenn Akureyrar eru líka mjög ánægðir með þennan samning. En minna heyrist frá eigandanum sem er að selja eign sína, ríkissjóði, sem ætlar að taka á sig þessa stóru byrði. Það er eins og þar hafi málum ekki mikið verið velt fyrir sér, hvort þetta væri hagstæður samningur eða ekki, því að sjálfsögðu er sá útreikningur sem hér liggur fyrir og fylgir þessu frv. gerður af Landsvirkjun, af kaupandanum, án þess að nokkuð liggi fyrir um að samsvarandi útreikningar hafi verið gerðir af söluaðila, af stjórnendum Kröfluvirkjunar eða stjórnendum Rafmagnsveitna ríkisins.

Ég vil leitast við að útskýra í hverju þessi gífurlegi munur er fólginn því ég vona að með þeim orðum mínum átti menn sig á því að ekki er verið að meta í þessu söluverði hvers virði Kröfluvirkjun raunverulega er heldur er eingöngu verið að svara þeirri spurningu hvers virði virkjunin er fyrir Landsvirkjun. Og staðreyndin er auðvitað sú að Landsvirkjun hefur enga þörf fyrir þessa virkjun. Landsvirkjun hefur orku langt umfram þörf. Það er veruleg umframorka í orkukerfinu eftir byggingu Hrauneyjafossvirkjunar, eftir framkvæmdir við Kvíslaveitur, framkvæmdir við Sultartangastíflu, og verður bersýnilega áframhaldandi offramboð á orku, enda kemur Blönduvirkjun bráðlega inn í myndina.

Þegar Landsvirkjun telur sig ekki geta greitt meira fyrir þessa virkjun er hún að meta hverjar séu hennar þarfir. Hún miðar bara við ástandið eins og það er; hún miðar einungis við aðra vél virkjunarinnar, ekki báðar og virðist fá seinni vélina, sem þó er búið að kaupa, í kaupbæti án þess að nokkurn tíma sé reiknað með nokkrum ávinningi af henni.

Til að útskýra þetta betur er rétt að rifja upp að núverandi afl Kröfluvirkjunar er 30 mw., þ.e. ein vél, en eftir að seinni vélin hefur verið tekin í notkun er grunnafl stöðvarinnar 60 mw., getur reyndar farið upp í 70 mw. á mesta álagspunkti. En í útreikningunum sem eru hér á bls. 11 er einungis miðað við 20 mw. til að byrja með sem smám saman er hækkað upp í 30 mw. og fer aldrei hærra á 25 ára tímabili.

Sé talað í orkueiningum verður munurinn enn meiri vegna þess að skv. upplýsingum framkvæmdastjóra Kröfluvirkjunar gæti hún framleitt í dag 220 gwst. á ári. Það þýðir að tvær vélar gætu framleitt 440 gwst. En ef menn skoða þessa töflu um orkusölu frá Kröfluvirkjun á næstu 25 árum munu menn sjá í 4. dálki, orkusala gwst., að orkusalan verður aldrei meiri en 170 gwst. og til að byrja með er hún aðeins 125 gwst. eða rétt u.þ.b. 1/3 af orkuvinnslugetu stöðvarinnar.

Ég er ekki hér að vefengja rétt Landsvirkjunar til að reikna þetta dæmi út frá sínum sjónarmiðum. Og ég vefengi ekki að rétt er reiknað. Forsendur þessara útreikninga eru þær að Landsvirkjunarmenn telja sig hafa sáralitla þörf fyrir þessa virkjun á næstu árum. Og þeir hugsa sér ekki að nýta hana nema að sáralitlu leyti eða, eins og ég hef þegar sagt, aðeins að 1/3 hluta miðað við orkuvinnslugetu virkjunarinnar til að byrja með, og aldrei meira en 170 gwst. af þeim 440 sem virkjunin gæti framleitt.

Menn geta rétt ímyndað sér hvers virði einstakar virkjanir hér á landi yrðu taldar ef þær væru reiknaðar út frá samsvarandi forsendum. Við skulum t.d. hugsa okkur að Sigölduvirkjun hefði verið byggð af ríkinu en ekki af Landsvirkjun eða Rafmagnsveitum ríkisins, væri sem sagt eign annarra aðila en Landsvirkjunar, og svo hygðist Landsvirkjun kaupa þá virkjun núna. Hvað ætli kaupverðið yrði þá talið stór hluti af raunverulegu kostnaðarverði virkjunarinnar ef reiknað væri á svipaðan hátt og hér er gert? Öllum er kunnugt um að Sigölduvirkjun hefur reynst okkur afar dýr. Þar voru gerð mikil mistök og þau hafa kostað Landsvirkjun geysilegt fé. Það er alveg ljóst að á margan hátt væri afskaplega dýrt fyrir Landsvirkjun að eiga að reikna það dæmi og borga þá upphæð og einkum og sér í lagi að bera hana síðan saman við raunveruleg not af virkjuninni á næstu árum og hvað sá skuldabaggi hefur þá í för með sér fyrir reikningslega útkomu virkjunarinnar þegar vextir hlaðast upp og fjármagnskostnaður.

Ég er sem sagt sannfærður um að þetta dæmi má reikna út á marga vegu aðra en gert er hér. Ég er sannfærður um að ef t.d. ríkið hefði sagt sem svo: Við erum hér með Rafmagnsveitur ríkisins; Rafmagnsveitur ríkisins eiga sér allstóran orkumarkað. Við byggjum Kröfluvirkjun upp, ætlum henni þann orkumarkað sem rafmagnsveiturnar m.a. hafa og nýtum Kröfluvirkjun til fulls - ja, þá kæmi dæmið vafalaust út á þann veg að virkjunin borgaði sínar skuldir upp að fullu. Auðvitað þýddi það að einhver annar aðili tapaði. Í þessu tilviki mundi sem sagt Landsvirkjun ekki fá jafnmiklar tekjur af orkusölu eins og hún ella mundi fá. Það er alveg rétt. En það vill nú einu sinni svo til að Landsvirkjun annars vegar og ríkissjóður hins vegar eru ekki alveg sami hluturinn. Á þessu tvennu er verulegur munur þar sem Landsvirkjun er sameignarfélag margra aðila. Og það er enginn vafi á því að dæmið hvað snertir Kröflu kæmi út á allt annan veg.

Ég get upplýst til bráðabirgða að ef þetta dæmi væri reiknað á annan veg en hér er gert, t.d. bara með því að miða við fulla nýtingu þessarar einu vélar nú þegar og það væri ekki beðið allt til ársins 1992 að nýta þessa einu vél heldur væri byrjað að nýta hana strax, mundi það skila í tekjum og gera kaupverð Kröfluvirkjunar skv. þessum útreikningum 200 millj. kr. hærra, bara þetta eina atriði. Ef aftur á móti væri miðað við að virkjunin væri rekin með 220 gwst. afli fljótlega, t.d. frá árinu 1988, að nýtingin væri smám saman aukin allt til ársins 1988, að um fulla nýtingu væri að ræða á þessari einu vél, 220 gwst., yrði söluverð virkjunarinnar, reiknað á nákvæmlega sama hátt, einhvers staðar á milli 300 og 800 millj. kr. hærra eftir því hvernig orkan væri verðlögð. Ef hins vegar seinni vélin er tekin inn í myndina breytist auðvitað allt dæmið og mestar líkur væru á að þá gæti virkjunin staðið að fullu undir öllum sínum skuldbindingum með söluverði virkjunarinnar einu.

Ég ætla ekki að fara nánar út í þessa sálma að sinni. Ég álít að nefndin sem fær þetta mál til athugunar verði að gefa sér ráðrúm til að kanna þessa hlið málsins. Þetta dæmi verði að reikna út frá öðrum forsendum en gert er í þessu dæmi hér á bls. 11 þar sem söluverðið er fundið. Og gjarnan mætti leita álits framkvæmdastjóra Kröfluvirkjunar eða Rafmagnsveitna ríkisins á þessari sölu. Því að menn hljóta auðvitað að spyrja sig: Hver er það sem óskar eftir þessari sölu? Er það Landsvirkjun sem óskar eftir að kaupa Kröfluvirkjun? Ég get alveg hiklaust svarað neitandi. Landsvirkjun kærir sig ekkert um að eignast þessa virkjun. Og það er einmitt þess vegna sem verðið er svona lágt að hún telur sig ekki vera í neinni þörf á að kaupa virkjunina. Er það þá Reykjavíkurborg eða Akureyrarbær sem hafa áhuga á því að kaupa þessa virkjun? Auðvitað ekki. Eru það þá Rafmagnsveitur ríkisins sem hafa svona mikinn áhuga á að láta virkjunina frá sér? Ég er sannfærður um að þessi sala á sér ekki stað að beiðni þeirra. Er það þá ríkissjóður sem vill selja og til hvers? Til þess að taka á sig þessa miklu skuld? Ég trúi því varlega. Ég trúi því helst að þeir sem skrifuðu undir þennan samning af hálfu ríkisvaldsins hafi í raun og veru ekki áttað sig til fulls á því hvað þeir voru að gera. Og þess vegna er þeim mun meiri ástæða fyrir alþm. til að átta sig á þessu dæmi og leita álits fleiri aðila en Landsvirkjunar á þessari sölu.

Ég er ekki með þessum orðum mínum að áfellast Landsvirkjun fyrir að vilja ekki greiða hærra verð fyrir virkjunina. Ég skil þá afskaplega vel. Auðvitað reyna þeir að komast að sem allra hagkvæmustum samningum. Auðvitað reyna þeir að reikna sitt dæmi þannig að það komi sem allra best út fyrir þá. Það er skiljanleg afstaða. Og kannske geta menn sagt að þetta skipti ekki öllu máli þar sem Landsvirkjun er annars vegar og ríkið hins vegar og ríkið á langstærsta hlutinn í Landsvirkjun. Þó er þarna munur á því að það eru bara tvö sveitarfélög í landinu sem eiga í Landsvirkjun. Og þá er spurningin hvort þessi samningur er ekki í eðli sínu afskaplega óhagstæður fyrir önnur sveitarfélög í landinu en Reykjavíkurborg og Akureyrarbær. Það er spurningin.

Fyrir svo utan hitt að ég hygg að heimaaðilar séu ekkert allt of hrifnir af þessum samningi. Það væri fróðlegt að leita álits heimaaðila á þessari sölu því að menn sjá af þessum útreikningum hver áform Landsvirkjunar eru. Það á sem sagt alls ekki að reka Kröfluvirkjun eins og venjulega virkjun. Það á ósköp einfaldlega að reka hana sem toppstöð sem er í gangi svona öðru hvoru og framleiðir ekki nema 1/3 af því afli sem hún getur framleitt. En það verða vatnsaflsvirkjanir Landsvirkjunar sem hafa allan forgang í þessu dæmi og Kröfluvirkjun er þá slík aukageta í kerfinu að ekki er talið taka því að gefa henni möguleika til að greiða niður sínar skuldir.