20.11.1985
Efri deild: 16. fundur, 108. löggjafarþing.
Sjá dálk 765 í B-deild Alþingistíðinda. (596)

121. mál, sala Kröfluvirkjunar

Björn Dagbjartsson:

Virðulegi forseti. Ég á sæti í þeirri nefnd sem um þetta fær væntanlega að fjalla en finnst þó ekki úr vegi að segja nokkur orð við 1. umræðu. Ég efast ekki um að nefndin vinni mjög vandað starf eins og hennar er von og vísa. En það eru auðvitað um þetta þó nokkuð skiptar skoðanir og hef ég ekki farið varhluta af því að heyra þær.

Þar er fyrst til að taka að mér finnst það að staðsetja Kröfluvirkjun í Suður-Þingeyjarsýslu eilítið ónákvæmt. Það væri svipað og að staðsetja Austurvöll í Gullbringu og Kjósarsýslu en látum það vera. Sömuleiðis Bjarnarflag og Námaskarð í Suður-Þingeyjarsýslu. Þetta er sjálfsagt rétt en að sjálfsögðu mætti staðsetja það nákvæmar í Mývatnssveit.

Ég segi fyrir mig að ég fagna því, og ég veit að ýmsir heimaaðilar sem voru nefndir áðan gera það líka, að þetta mál er til lykta leitt. Meðgöngutími er orðinn alllangur og menn hafa vitað eða gert sér grein fyrir því hvað til stæði, að þessi sala eða yfirtaka mundi eiga sér stað og það hefur verið illt fyrir starfsmenn og ýmsa íbúa að bíða eftir því. Auðvitað heyrast gagnrýnisraddir á það að verðið sé allt of lágt, að þetta sé gjöf. Það er nú oft svo að þegar um einn einasta kaupanda er að ræða fer þetta svona.

Ég skal ekki segja um þessa útreikninga hv. þm. Ragnars Arnalds sem hann var með áðan. Ég hef að vísu heyrt að 220 gwst. sala væri möguleg ef ein vél væri keyrð á fullu eða rúmlega ein vél væri keyrð á rúmlega 30 megawatta afli í, að mig minnir, nærri 350 daga á ári. En það er nokkuð sem er rétt aðeins tæknilega mögulegt. Mér skilst að hún þurfi vissa yfirferð og það sé tæplega mögulegt. Hitt er svo annað mál að væri leitað eftir meiri gufu, væri farið út í boranir, sem kosta auðvitað ærið fé, þá getur hugsast - og rétt er að loka ekki augunum fyrir því - að þarna komi upp hagkvæmur virkjunarkostur ef vantar rafmagn til sölu. Ef þetta allt saman gengur eftir hlýtur það að koma landsmönnum öllum til góða að þarna fáist hagkvæmur virkjunarkostur með ódýru rafmagni og væntanlega þá í lækkuðu rafmagnsverði frá Landsvirkjun.

Svo að ég vitni í núverandi aðstoðarmann iðnrh., sem nýlega tók við því starfi, minnist ég þess að hann flutti margar ræður fyrir svona 8-10 árum síðan sem enduðu flestar á þessu: „Auk þess legg ég til að Kröfluvirkjun verði lögð niður," eða hætt við Kröfluvirkjun. Sami maður, Jónas Elíasson verkfræðingur, sagði líka setningu, sem ég man eftir, einu sinni: „Hver segir að þótt borað sé við Kröflu þá komi endilega upp gufa?" Sannast að segja verðum við að viðurkenna að þar eru yfir tíu steindauðar holur. Þær eru ekki allar dauðar af jarðraski heldur vegna þess að menn vissu einfaldlega ekki hvað undir var. Mér dettur ekki í hug að álykta að með þessari yfirtöku eða sölu sé um aldur og ævi hætt við þess háttar virkjanir á Íslandi eða þessa virkjun yfirleitt. En menn þurfa að vita meira hvað undir er og það að menn bori þýði að upp komi gufa.

Auðséð er á töflunni sem fylgir frv. að ekki er gert ráð fyrir stækkun eða öllu heldur ekki gert ráð fyrir að hin vélin verði tekin inn í myndina, sett niður. Að vísu er hvergi sagt að þarna sé 20 megawatta afl heldur er sölutíminn sennilega þeim mun styttri á ári hverju eins og reyndar hefur verið raunin á.

Ég hef líka heyrt þær gagnrýnisraddir af heimaaðilum -og þekki það allvel - að reksturinn hefði getað verið betri og hagkvæmari. Auðvitað getur það hafa verið mælt af þekkingarleysi og ég skal ekkert um það dæma. En mér finnst að því leyti gott að fyrirtækið Landsvirkjun, sem þekkt er fyrir ráðdeild, skuli taka þetta yfir og færa til betri vegar.

Ég tel sem sagt að með þessu sé engan veginn verið að slá striki undir það að Krafla verði lítið eða ekkert notuð. Mér finnst einmitt koma vel til greina að með þessu móti geti það orðið hagkvæmt fyrir hinn nýja eiganda, ef þarna er hagkvæmur virkjunarkostur, ef skyndilega vantar orku eða afl, að hefjast handa á nýjan leik.

Minnst hefur verið á að hugsanlega mætti flytja túrbínuna annað. Ég held ekki. Ég held að þessar túrbínur séu hannaðar fyrir ákveðnar aðstæður, ákveðið mettunarstig af gufu, ákveðinn þrýsting og samsetningu gufunnar yfirleitt. Ég á von á því að það gæti verið hreint tap fólgið í því að fara að færa hana eitthvað annað og að hún mundi alls ekki henta aðstæðum á öðrum háhitasvæðum landsins.

Ég skil það vel að móðureyra hv. þm. Ragnars Arnalds sé nokkuð þunnt þegar um þessa virkjun er rætt en ég tel að áhyggjur hans um afkomu þessa afkvæmis séu að miklu leyti ástæðulausar.