20.11.1985
Efri deild: 16. fundur, 108. löggjafarþing.
Sjá dálk 770 í B-deild Alþingistíðinda. (599)

121. mál, sala Kröfluvirkjunar

Davíð Aðalsteinsson:

Hæstv. forseti. Aðeins örfá orð. Það verður ekki annað sagt en hljótt hafi verið um Kröflumál síðustu misseri þar til nú, að þetta frv. er lagt á borð þm., frv. þess efnis að Kröfluvirkjun verði seld.

Nokkuð hefur borið á því í allri umræðu um Kröfluvirkjun að ræðumenn hafa - og er ég nú ekki einvörðungu að tala um þessar umræður hér heldur almennt úti í samfélaginu - skellt skuldinni, ef ég má svo að orði komast, á svokallaða Kröflunefnd. Nú ætla ég ekki að fara í þessum ræðustóli að ganga erinda Kröflunefndar. Hins vegar vil ég minna á að þegar stofnað var til Kröfluævintýrisins upp úr 1974 var það í kjölfar mikillar olíuverðsprengingar og sannleikurinn er sá að það komst ekkert annað að með þessari þjóð en að virkja og virkja fljótt, auka við uppsett afl í landskerfinu.

Með tilliti til þessa og ákvarðana stjórnvalda í þessum efnum, ákvarðana Alþingis, hlýtur maður að líta svo á, að vegna ákvarðana og ábyrgðar allra ráðamanna beri þjóðin öll sína ábyrgð. Fram hjá því verður ekki litið. Skuldinni verður því ekki skellt á Kröflunefnd að mínum dómi. Hitt er það að e.t.v. hefur sú ágæta nefnd með köflum sýnt af sér á sínum langa starfsferli, meðan hann var og hét, of mikinn dugnað. Nú er ég ekki að segja að hún hafi í ákvörðunum sínum gengið út á ystu nöf varðandi valdsvið sitt, ég vil ekkert fullyrða um það.

Eins og hér hefur verið vikið að í umræðunni markast þetta mál af nokkrum þáttum fyrst og fremst. Það er auðvitað augljóst að það verð sem hér er nefnt og greitt skal fyrir Kröfluvirkjun er fundið út frá meðalorkuverði frá Landsvirkjun. Þá er miðað við forgangsorku. Ég skal út af fyrir sig ekki fetta fingur út í að svo er. Þegar talað er um ábyrgð, þegar talað er um að einhverjir hafi ekki sést fyrir í málafylgju eða ákvörðunum - Kröflunefnd og í víðari skilningi stjórnvöld stóðu að þeim málum - fer ekki hjá því að í sömu andránni verði manni litið til Landsvirkjunar. Það hefur verið hart deilt á Landsvirkjun. En hvernig hefur Landsvirkjun fengið í raun sínar heimildir? Ekkert gerir Landsvirkjun öðruvísi en að hafa heimildir til lántöku, fjáröflunar til framkvæmda. Hvar eru þær ákvarðanir teknar? Hvergi annars staðar en á þessum stað hér. Auðvitað berum við alþm. fulla ábyrgð á því sem stundum hefur verið kallað, og var nefnt síðast í gær, orkuveisla.

Maður hlýtur að velta því fyrir sér hvað Landsvirkjun ætlast fyrir þrátt fyrir allt. Það er gert ráð fyrir að heimildir til orkuöflunar á svæðinu séu allt að 70 mw. af uppsettu afli. Hins vegar, eins og hér hefur komið fram og er að sjálfsögðu tíundað í samningnum, er gert ráð fyrir að uppsett afl verði ekki meira en 30 mw. allt til ársins 2010. Forvitnilegt væri að vita hvort einhverjar leynifyrirætlanir séu til um að auka uppsett afl frá því sem þarna segir. Við skulum gá að því að framsetningin með frv. varðar aðeins þennan kaupsamning. Landsvirkjun er því í lófa lagið að stofna til frekari orkuöflunar á svæðinu og frekari uppsetningar aukins afls.

Hvort heppilegra er að landsmenn greiði orkuna, sem beisluð hefur verið, í formi skatta eða með orkureikningum getur verið matsatriði. Mín skoðun er þó sú að skynsamlegra sé að vera ekki að fela hið raunverulega orkuverð. Það sé þegar á allt er litið skynsamlegra. Að vísu eru skattgreiðendur heldur fleiri en þeir sem fá sendan orkureikning. En um þetta má deila. Ég viðurkenni það. Ég er frekar á því að það sé af því tagi að stinga höfðinu í sandinn, fremur óskynsamlegt sem sagt, að skattgreiðendur borgi meiri hlutann af kostnaði með þeim hætti sem hér er lagt til.

Eitt finnst mér ekki hafa komið nægjanlega vel fram, hvorki í þessari umræðu né heldur í rökstuðningi með frv., og það er hversu mikill hluti af þeim liðlega 2 milljörðum sem út af standa er í raun rannsóknarkostnaður. Mér finnst vanta mikið á að það fylgi rökstuðningur og útlistun hvað snertir það fé sem út af stendur. Nú ætla ég að viðurkenna, með tilliti til þeirra vangaveltna minna hvort raforka á að greiðast af skattfé eða þegar almenningur borgar sína orkureikninga, að það er eðlilegra að greiða rannsóknir sem nýtast e.t.v. miklu víðar, eins og má til sanns vegar færa með ýmsar þær aðgerðir sem stofnað hefur verið til við Kröflu. Þær nýtast e.t.v. víðar. Þá er afsakanlegt að skattborgarar landsins greiði þær. Hitt má ljóst vera, og deili ég þá jafnt á alla sem báru og bera ábyrgð á Kröfluvirkjun, að auðvitað var ráðist allt of fljótt í virkjunina sjálfa. Auðvitað eru fleiri en færri sammála um að það hefði verið skynsamlegra og hefði raunar átt að rannsaka svæðið miklu betur. En allir æptu: Meiri orku!

Því miður er hæstv. iðnrh. ekki viðlátinn þessa umræðu. Mér gefst að sjálfsögðu tækifæri til að ræða málið og spyrja í iðnn. Til viðbótar við að ekki liggur fyrir útlistun á því hver er raunverulegur rannsóknarkostnaður liggur ekkert fyrir um hvað kostar í raun að afla þeirrar orku sem þarf til að bæta við um 30 mw. í uppsettu afli. Ekkert liggur fyrir um það. Ekki hef ég séð það. Væntanlega kemur það fram í umræðum og þeim upplýsingum sem vonandi berast til nefndarinnar.

Hv. 5. þm. Norðurl. e. taldi að nú væri þetta mál til lykta leitt. Ég ætla að vona að hann hafi fyrst og fremst átt við að þessi samningur, sem hann telur eftir atvikum góðan, sé í höfn. Við erum sáralitlu og líklega engu nær um heildarráðstafanir vegna okkar orkukerfis, vegna þess umframafls sem fyrir hendi er í landinu. Það er okkar mikli höfuððverkur.

Það hefði svo sem verið fróðlegt, þegar verið er að ræða öðrum þræði um orkunýtingu, enda þótt það sé með tilliti til þessa frv., sem varðar ekki nema hluta af landskerfinu, að heyra frá hæstv. iðnrh. hvað liði hugsanlegum samningum við erlenda aðila um sölu raforku til stóriðju. Eftir því sem manni skilst standa samningaviðræður yfir, einhverjar þreifingar, einhverjar vonir eru uppi, en lítið hefur verið upplýst um þau mál. Það má vel vera að óhjákvæmilegt sé að yfir því hvíli einhver leyndarhjúpur. Mál kunna að vera á viðkvæmu stigi. En öll þessi umræða skarast. Hún hlýtur að gera það.

Hæstv. forseti. Ég tel ekki ástæðu til að hafa þessi orð fleiri. Ég mun fyrst og fremst leggja áherslu á það við umfjöllun í iðnn. að Landsvirkjun og aðrir aðilar, sem þarna hafa komið nálægt, gefi upplýsingar, ekki síst varðandi rannsóknarþáttinn, að hve miklu leyti má meta hann til verðs í fyrsta lagi og í annan stað hvort fyrirætlanir, enda þótt þær komi ekki fram hér, liggi fyrir um frekari orkuöflun á Kröflusvæðinu og frekari uppsetningu aukins afls.