21.10.1985
Neðri deild: 5. fundur, 108. löggjafarþing.
Sjá dálk 92 í B-deild Alþingistíðinda. (60)

5. mál, jarðhitaréttindi

Flm. (Hjörleifur Guttormsson):

Herra forseti. Ég mæli hér fyrir frv. til laga um jarðhitaréttindi sem ég er 1. flm. að, en með mér flytja málið allir aðrir þingmenn Alþb. í hv. deild.

Þetta frv. er nú flutt í þriðja sinn, má ég segja, hér á hv. Alþingi frá því að það fyrst kom fram seint á þingi veturinn 1983, en þá var það lagt fram sem stjfrv. Með frv. þessu er stefnt að því að lögfestar verði reglur um umráðarétt og hagnýtingarrétt jarðhita. Það er gert ráð fyrir því að landeigendur hafi umráð jarðhita á yfirborði landsins og undir því að 100 m dýpi, en umráð alls annars jarðhita, hvort sem er á landsvæðum sem ekki eru háð einkaeignarrétti eða eru undir yfirborði einkaeignarlands á meira en 100 m dýpi, verði í höndum ríkisins, þ.e. verði almannaeign, sameign þjóðarinnar.

Þetta frv. tekur til alls jarðhita, hvort sem um er að ræða jarðhita á svonefndum lághita- eða háhitasvæðum. Meginstefnumörkun frv., sem ég hef þegar rakið, kemur fram í 1. gr. þess og í 6. gr. þar sem kveðið er á um markalínurnar á milli einkaeignarréttar og almannaeignar á jarðhita.

Þetta mál hefur oft borið fyrir hér á hv. Alþingi og má leita býsna langt til baka að fyrst voru flutt frv. til þess að fá skorið úr um eignarrétt á þessari mikilvægu auðlind okkar Íslendinga, jarðhitanum. Sett voru lög 1940 um eignar- og notkunarrétt jarðhita, en þar var ekki skorið úr um þessi efni. Árið 1945 flutti dr. Bjarni Benediktsson frv. til laga um viðauka við lög nr. 98 1940, um eignar- og notkunarrétt jarðhita, og ég vil leyfa mér að vitna hér til ummæla dr. Bjarna um þessi efni, sem getið er um í greinargerð með þessu frv., með leyfiforseta:

„Var lagt til að jarðboranir, er ná dýpra en 10 m, megi ekki framkvæma án leyfis ráðherra, sem skyldi synja leyfis, ef hætta kynni að vera á því, að með jarðborunum væri spillt hagnýtingu jarðhita í eign annars manns, sem þegar er hafin, eða hagnýtingu síðar meir, enda sé sú hagnýting jarðhitans mun verðmeiri en sú hagnýting, sem stefnt er að með hinni fyrirhuguðu jarðborun.“

Ekki var í frv. ákvæði um bætur, enda sagði í grg. með frv. dr. Bjarna Benediktssonar m.a., og á því vek ég sérstaka athygli:

„Hér er aðeins um almenna takmörkun á eignarréttinum að ræða, sem löggjafarvaldinu er heimilt að setja, þrátt fyrir ákvæði stjórnarskrárinnar um friðhelgi eignarréttarins.“

Þetta er úr grg. dr. Bjarna Benediktssonar 1945. Þarna var miðað við mörk miðað við 10 m dýpi. Hér er farið niður á 100 m dýpi sem ekki er óeðlilegt miðað við tækniþróun og vissulega álitamál hvar mörk af þessu tagi skuli draga nákvæmlega, en 100 m dýpi sýnist ekki óskynsamleg regla og er hér gerð tillaga um hana.

Prófessor Ólafur heitinn Jóhannesson ráðherra fjallaði um þessi efni á sínum tíma og það er getið um niðurstöður hans á bls. 6 í grg., en þær voru þess efnis í aðalatriðum að þrátt fyrir að réttur landeigenda til umráða og hagnýtingar jarðhita í landi sínu sé, að því er virðist, litlum skorðum bundið að núgildandi lögum þá megi auðvitað setja honum ýmis takmörk með nýrri löggjöf ef ástæða þykir til. Ólafur segir að það sé sanngjörn regla og í samræmi við eðli máls að sérstök náttúruauðæfi, sem enginn einstakur hefur átt þátt í að skapa, séu sameign þjóðarinnar allrar.

Ég sé sérstaka ástæðu til áð vitna hér til tillagna og skjalfestra ummæla fyrrverandi formanna í þá stærstu stjórnmálaflokkum landsins, þar á meðal í þeim flokki sem hefur mælt ákveðnast fyrir um einkaeignarsjónarmið, og ég tel að af þeim megi ráða að á sinni tíð var verulegur stuðningur hjá þessum virtu lögfræðingum, sem jafnframt voru formenn flokka sinna, við það að auðæfi af þessu tagi yrðu lýst sameign þjóðarinnar og það bryti ekki í bág við stjórnarskrá lýðveldisins að setja takmarkanir af því tagi sem dr. Bjarni á sínum tíma gerði tillögur um og eins og gerð er tillaga um í þessu frv. til laga um jarðhitaréttindi.

Ég vek athygli á því einnig að hér er um afar stórt hagsmunamál að ræða fyrir landsmenn alla og einnig einstök sveitarfélög. Menn eru þegar farnir út á þá braut, illu heilli, áður en Alþingi hefur skorið úr um þessi efni, að greiða verulegar fjárhæðir fyrir jarðhita sem sóttur er í iður jarðar. Þannig voru greiddar umtalsverðar upphæðir fyrir jarðhita í Svartsengi á sínum tíma, áður en nýting hófst þar á vegum Hitaveitu Suðurnesja og á sínum tíma greiddi Reykjavíkurborg umtalsverða upphæð þegar hún keypti Nesjavelli. Hins vegar tók fyrst steininn úr á þessu ári þegar borgarstjórn Reykjavíkur ákvað kaup á Ölfusvatnslandi fyrir um 60 millj. kr., eða hluta úr þeirri landareign, en jörðin er samkvæmt fasteignamati talin 400 þús. kr. virði. En meiri hlutinn hjá Reykjavíkurborg sá ástæðu til að gera samning, með raunar ýmsum undanþágum og ýmsum ákvæðum sem eru til hagsbóta fyrir seljendur, um kaup á jörðinni fyrir 60 millj. kr., eða hluta úr landi jarðarinnar.

Hér er verið að fara út á braut sem full ástæða er til að hætt verði við, og ég tel það hina mestu ósvinnu í rauninni að löggjafarsamkoman skuli ekki hafa tekið á sig rögg til að kveða á um hvaða réttur skuli gilda í þessu efni. Sé það niðurstaða manna á hv. Alþingi að til þess að staðfesta sameign á þessari auðlind, miðað við tiltekin mörk á djúphita, þurfi stjórnarskrárbreytingu, stendur að sjálfsögðu ekki á Alþb. að standa að tillögum um slíkt og standa að slíkum breytingum fyrir sitt leyti.

Ég ætla ekki að hafa langt mál um þetta frv. hér, herra forseti, þótt veruleg ástæða væri til þess að rifja upp ýmis þýðingarmikil atriði sem málið snerta. Það er gerð mjög ítarleg grein fyrir lögfræðilegum sjónarmiðum þessa máls og álitamálum í greinargerð með frv. og það er niðurstaða þeirra lögmanna sem unnu að þessu máli á sínum tíma fyrir iðnrn. að eignarréttarákvæði 67. gr. stjórnarskrárinnar væru engin hindrun í vegi lagasetningar af þessu tagi.

Ég legg til, herra forseti, að að lokinni þessari umræðu verði máli þessu vísað til 2. umr. og hv. iðnn. og ég treysti því að þingflokkar sjái til þess að mál þetta geti fengið þinglega meðferð. Ég treysti því að það fari ekki eins um þetta mál og í fyrra. Þá var það flutt sem 4. mál þingsins, nú kemur það fram sem 5. mál Alþingis, en þrátt fyrir að það kæmi snemma fram á síðasta þingi var það ekki afgreitt út úr nefnd til 2. umr. Ég vænti þess að málið fái lyktir á yfirstandandi þingi.