20.11.1985
Efri deild: 16. fundur, 108. löggjafarþing.
Sjá dálk 778 í B-deild Alþingistíðinda. (606)

127. mál, skattur á verslunar- og skrifstofuhúsnæði

Ragnar Arnalds:

Virðulegi forseti. Ég kann ekki við annað en óska hæstv. fjmrh. til hamingju með það mál sem hann flytur hérna. Það er öllum kunnugt að Sjálfsttl. hefur barist af miklum þrótti gegn þessari skattlagningu og þegar ég var fjmrh. flutti ég aldrei framsöguræðu fyrir þessu máli svo að ekki stykki í stól nokkur stykki sjálfstæðismanna og hallmæltu þessum skatti og særu þess dýran eið að hann skyldi afnuminn þegar þeir kæmu til valda. Ég get því ekki látið hjá líða að óska hæstv. ráðh. til hamingju með sinnaskiptin, sem ég tel af hinu góða, þó vissulega hefði ég getað hugsað mér að skatturinn væri hærri en hann er því að fyrirrennari hans í embætti lækkaði þennan skatt verulega. Það er hins vegar skref í rétta átt að koma nú með skattinn óbreyttan frá því sem áður var þrátt fyrir allar fyrri yfirlýsingar og aldrei að vita nema ráðherrann fengist til að bæta einhverju ofan á. Að vísu mætti hugsa sér máltækið: Batnandi ráðherra er best að sitja. Ég vil þó ekki gera það að mínum orðum í þessu sambandi vegna þess að það er ýmislegt annað sem hæstv. ráðh. hefur á prjónunum og ég er ekki sérlega hrifinn af. En þetta er sem sagt merkur áfangi í störfum þessa ráðherra og sýnir í öllu falli að hann á það til að koma með góða hluti hér.