20.11.1985
Neðri deild: 17. fundur, 108. löggjafarþing.
Sjá dálk 780 í B-deild Alþingistíðinda. (613)

5. mál, jarðhitaréttindi

Ólafur Ragnar Grímsson:

Herra forseti. Það er slæmt að ekki hafi náðst samstaða um að skoða öll þessi mál í einni heild. Hefði nú mátt vænta þess að þingið, sem samþykkt hefur ný þingsköp til þess að tryggja betri og virkari vinnubrögð, ætti að vera reiðubúið til þess að fallast á jafnskynsamlega aðferð og hér hefur verið lögð til. Það hafa ekki hér og nú komið fram skýrar ástæður fyrir því hvers vegna þessari beiðni var hafnað. Væri æskilegt að þær kæmu hér fram á nýjan leik. Hitt hefur svo verið venja hér í þinginu almennt að taka tillit til óska flm. um það til hvaða nefnda málum er vísað. Flm. þessa máls hefur óskað eftir því að því sé vísað til allshn. og það er einsýnt að það er tillaga sem fyrst á að bera upp. Hæstv. forseti ætlaði hins vegar að fara að bera upp tillögu um að þessu yrði vísað til iðnn. og ég vil gjarnan spyrja hæstv. forseta: Hver er flm. þeirrar tillögu að þessu máli verði vísað til iðnn.?