21.10.1985
Neðri deild: 5. fundur, 108. löggjafarþing.
Sjá dálk 95 í B-deild Alþingistíðinda. (63)

5. mál, jarðhitaréttindi

Menntmrh. (Sverrir Hermannsson):

Herra forseti. Ég hef enga sannfæringu fyrir því að það greiði framgang þessa máls að rugla með það milli nefnda í hinu háa Alþingi. Þetta mál á eðli síns vegna heima í iðnn. og verður auðvitað vísað þannig þótt það kunni að vera einhverjir garpar, afgreiðslugarpar, í öðrum nefndum sem gjarnan vildu leggja hönd á plóginn. En þeir geta það þá með öðrum hætti, til að mynda í stjórnmálaflokkum sínum, þingflokkum sínum, því að gjarnan þyrftu þessi mál að vinnast þar, að tekin væri afstaða til, svo sem háttur er um afgreiðslu mikilvægra mála.

Það var í fyrra sem ég tók undir við hv. 3. þm. Reykn. þegar hann hafði flutt framsögu fyrir sínu frv., margfluttu af hv. Alþýðuflokksmönnum á hinu háa Alþingi, og lét í ljós þá skoðun mína að menn þyrftu að komast að niðurstöðu um þetta mál og einnig með vísun til þeirra frv. sama eðlis og hv. 5. þm. Austurl. flutti framsögu fyrir hér.

Ég vann að þessu máli með þeim hætti að sett var saman frv. til laga um eignarrétt að fallvötnum, orkulindum og jarðhita á almenningum og afréttum og ætlaði að gera með þeim hætti tilraun til að taka það sem mér sýnist alveg augljóst að liggi fyrir með hvaða hætti skipað verður málum um eignarrétt á til handa almenningi. En það þarf ekkert að vera leyndarmál hér að þessi frumvarpsdrög mín náðu ekki fram að ganga, ekki aðallega fyrir andstöðu í mínum flokki þótt hún finnist, heldur fyrst og fremst fyrir andstöðu í samstarfsflokknum sem hafnaði þessu frv. Og ég verð að segja að að svo búnu getur það ekki aukið bjartsýni um að slíkt sanngirnismál nái fram að ganga þegar kemur að einkaeignarréttinum á landi. En þarna var eins og ég segi um það að tefla að hérna yrði eignarréttur almennings til orkugjafanna á afréttum og almenningum að svo miklu leyti sem menn eru sammála um þau svæði sem undir slíka skipan heyrir.

Ég er mjög eindreginn fylgismaður þess að sett verði í lög reglur að þessu leyti og þau rök sem flutt hafa verið hér fram, nú síðast af hv. 5. þm. Austurl. og áður verið flutt af hv. Alþýðuflokksmönnum, eru fullgild og mjög mikil nauðsyn á að þessu máli sé skipað í lögum með þeim hætti sem hér eru gerðar tillögur um, en ég álít hins vegar að það sé ekki, þótt nefndir vinni kannske misjafnlega skjótlega að málum, hægt að binda miklar vonir við framgang málanna meðan ekki næst skaplegt samkomulag hjá þeim flokkum, sem stjórna landinu þá og þá, um skipan þessara mála.

Ég sá ástæðu til að upplýsa það sem ég hef unnið að. Hið næsta var svo að reynt yrði að ná samkomulagi um skipan þessara mála þegar kæmi að einkaeignarréttinum. En ég varð satt að segja afar undrandi á, svo ekki sé meira sagt, að þessi byrjun á málinu skyldi hljóta svo öfluga andstöðu. Þetta var vissulega tilraun af minni hálfu sem ég, eins og ég segi, gerði mér vonir um að mundi ekki verða fyrir þeirri andstöðu sem raun bar vitni um. En ég mun áfram leggja lið mitt við að nýskipan þessara mála og lagasetning um þau nái fram að ganga og þá í heild sinni.