20.11.1985
Neðri deild: 17. fundur, 108. löggjafarþing.
Sjá dálk 784 í B-deild Alþingistíðinda. (635)

67. mál, orkulög

Ólafur Ragnar Grímsson:

Herra forseti. Hv. þm. Guðrún Helgadóttir hefur þegar bent á alvarlegan annmarka þess að vísa þessu máli til hv. iðnn. Ég vil auk þess vekja athygli hæstv. forseta á því að þegar hefur komið fram í dag frá mönnum sem gjörkunnugir eru störfum þessarar deildar, m.a. öðrum hv. ritara deildarinnar Ólafi Þ. Þórðarsyni, að formaður iðnn. hefur ekki stýrt nefndinni með þeim hætti á undanförnum árum að frumvörp þau sem verið er að fjalla um og önnur lík hafi komið til deildarinnar aftur. Bæði hv. þm. Ólafur Þ. Þórðarson og ýmsir aðrir hafa dregið mjög í efa að iðnn. sé þannig ákjósanlegur vettvangur til þess að fá málin aftur hér inn í deildina, en það hlýtur að vera markmið þingsins að fá málin til afgreiðslu en ekki svæfa þau.

Þetta eru mjög alvarlegar ásakanir í garð hv. formanns iðnn., Páls Péturssonar. Ég vil beina þeirri ósk til hæstv. forseta að þessari atkvæðagreiðslu um nefnd verði frestað og tekin fyrir á næsta fundi. Tíminn verði notaður til þess að forseti deildarinnar afli sér upplýsinga um það hvaða málum iðnn. skilaði frá sér á síðasta þingi, hvaða mál sátu eftir í nefndinni, hvenær þeim var vísað til nefndarinnar og hve lengi þau voru þar óafgreidd, þannig að deildin geti fengið greinargerð um störf iðnn. áður en atkvæðagreiðsla fer fram. Ég tel það nauðsynlegt til þess að deildin hafi möguleika á að vega það og meta hvort iðnn., með tilliti til þeirra upplýsinga og skoðana sem hér hafa komið fram, sé treystandi fyrir málinu ef markmið okkar er að fá það aftur til umfjöllunar. Ég vil því, herra forseti, bera fram þá formlegu ósk að þessari atkvæðagreiðslu verði frestað þar til á næsta fundi deildarinnar og þessara upplýsinga aflað til næsta fundar.