20.11.1985
Neðri deild: 17. fundur, 108. löggjafarþing.
Sjá dálk 785 í B-deild Alþingistíðinda. (636)

67. mál, orkulög

Páll Pétursson:

Herra forseti. Mér þykir það nú vera fullmikil tilætlunarsemi hjá hv. stjórnarandstöðu ef hún býst við að iðnn. deildarinnar sé einhver sjálfsafgreiðslustofnun. Það er unnið þar í málum og það er farið vandlega yfir þau. Fjallað er um þau á mörgum fundum; sum eru afgreidd og sum ekki eftir því sem efni standa til.

Við höldum samviskusamlega fundi og það er mikið mannval í þessari nefnd því að það er ekki það að ég eigi þar einn sæti heldur sitja miklu fleiri góðir menn í deildinni. Ég nefni af handahófi hv. þm. Birgi Ísl. Gunnarsson, hv. þm. prófessor Gunnar G. Schram, hæstv. fyrrv. iðnrh. Hjörleif Guttormsson, hæstv. fyrrv. sjútvrh. Kjartan Jóhannsson, hæstv. forseta deildarinnar Ingvar Gíslason. (Gripið fram í.) Forseti deildarinnar. Það er fljótlegt að skera úr því. Ég beini því til forseta deildarinnar hvort ég muni það ekki rétt að hann eigi sæti í iðnn. Ég held að enginn vafi leiki á því. Þetta mál hefur verið til umfjöllunar í hv. iðnn. áður og eins og með fleiri mál höfum við á því víðtæka þekkingu og mikla reynslu í meðferð málsins og þess vegna tel ég að eðlilegt sé að það sé þar niður komið.