20.11.1985
Neðri deild: 17. fundur, 108. löggjafarþing.
Sjá dálk 786 í B-deild Alþingistíðinda. (639)

67. mál, orkulög

Ólafur Þ. Þórðarson:

Herra forseti. Ég vil að það komi skýrt fram að mín afstaða í þessu máli, sem birtist í umræðum um málið, var á þá leið að ég taldi að öll þessi mál sem fjölluðu um eignarrétt ættu að fara til allshn. af efnisástæðum. Ég hef ekki fellt neinn dóm um störf manna í formennsku í nefndum og þó að vissulega sé rétt að nefndum ber að hafa það sem meginreglu að skila frá sér málum er þó betra að sitja á þeim en að láta þau fara frá sér vanhugsuð.

Hitt sýndist mér í þessu máli að komin væri alllöng bið og ég taldi að það væri ekki óeðlilegt miðað við efnisatriði málsins að vísa því til allshn. þó að ég ætli ekki að fara í neinn mannjöfnuð á milli nefndanna en hygg að hv. 2. þm. Reykn. hljóti að vera jafn að mannkostum í hvorri nefndinni sem hann situr.