21.10.1985
Neðri deild: 5. fundur, 108. löggjafarþing.
Sjá dálk 96 í B-deild Alþingistíðinda. (64)

5. mál, jarðhitaréttindi

Kjartan Jóhannsson:

Herra forseti. Ég þakka hv. menntmrh. fyrir þá greinargerð sem hann hefur hér gefið varðandi störf sín sem iðnrh. að þessum málum. Hann hefur greinilega leitast við að finna minnsta samnefnarann, ef ég skildi hann rétt, sem hægt ætti að vera að sættast á, að hans dómi, til að byrja með. Það er góðra gjalda vert. En nú er enn einu sinni komin upp sú staða í þessu máli, samkvæmt upplýsingum hæstv. menntmrh., sem við höfum fengið að kynnast mörg undanfarin ár, og reyndar ekki bara í þessu máli heldur og í ýmsum öðrum málum. Hæstv. menntmrh. upplýsir nefnilega að fáeinir menn í stjórnarflokkunum tveimur, nokkrir í hans eigin flokki en þó enn frekar í samstarfsflokknum, setji fótinn fyrir þetta frv. sem hann hafi samið. Þess vegna muni það ekki verða lagt fram. Orð hæstv. menntmrh. verða ekki skilin öðruvísi.

Hér gerist það að tiltölulega lítill hópur þm. er að beita Alþingi eins konar neitunarvaldi, neitunarvaldi um það í þessu tilviki að fá að fjalla um frv. sem hæstv. menntmrh. lét semja meðan hann var iðnrh. Það er sams konar aðferð og notuð hefur verið að undanförnu varðandi bæði það frv. sem hv. þm. Hjörleifur Guttormsson hefur hér mælt fyrir og þau frv. sem ég og ýmsir aðrir þm. Alþfl. hafa mælt fyrir á undanförnum árum. Þau hafa kafnað í nefnd, þau hafa kafnað í yfirlýsingum um að það ætti að vinna að málum. Þau komast ekki út úr nefnd af því það er lítill hópur þm. sem beitir eins konar neitunarvaldi gagnvart hinum mikla fjölda þm. Þetta eru að mínum dómi ótæk vinnubrögð. Vissulega má ætla að í viðkvæmum málum geti það komið fyrir þegar þau eru fyrst flutt að komi upp hörð andstaða og þá vilji menn doka við og taka tillit til minni hluta hópsins og sjá hvað hann hefur fram að færa. En þegar það gerist ár eftir ár, og nú liggur mér við að segja áratug eftir áratug, í máli eins og þessu, því þetta mál er aldeilis ekki nýtt eins og kom fram í máli hv. þm. Hjörleifs Guttormssonar hér áðan þar sem vitnað er til fyrrv. ráðherra Bjarna heitins Benediktssonar og þar fram eftir götunum, er orðið langt gengið. Málið er ekki nýtt. Það er búið að ræða þetta áratugum saman liggur mér við að segja. Það gengur vitaskuld ekki að í mörg ár, jafnvel áratugum saman, skuli svo vera að minni hluti beiti þingið ofríki með þessum hætti. Ég gæti sjálfsagt tilfært önnur mál líka þar sem eins hefur staðið á, að minni hlutinn beitir þingið í rauninni ofríki, beitir eins konar neitunarvaldi, beitir stóru flokkunum kannske fyrst og fremst fyrir sig til þess að mál komi ekki til afgreiðslu, en ég ætla ekki að rekja það neitt frekar. Mér dugar að halda mér við þetta mál.

Ég tel að þetta geti ekki gengið til lengdar. Það er þinginu til vansæmdar að það fái ekki að koma í ljós í máli sem svo oft hefur verið fjallað um eins og þetta hver sé hin raunverulega skoðun Alþingis, hver sé meirihlutavilji Alþingis. Ég tel að það sé fyrir neðan virðingu okkar að láta fara svona með okkur og ég tel að sérhver minnihlutahópur eigi að sjá sóma sinn í að haga sér ekki með þessum hætti árum eða áratugum saman. Þess vegna legg ég áherslu á að nú bindist menn samtökum um að koma þessu máli til afgreiðslu í þinginu. Eins og eðlilegum starfsháttum er varið á Alþingi er það auðvitað hlutverk iðnn. þegar mál kemur enn einu sinni til hennar að leita eftir meiri hluta í þinginu við ákveðin lágmarkssjónarmið. Mér er auðvitað ljóst að hér skiptast menn nokkuð í hópa. En það er hlutverk iðnn. að sjá til þess að þessi mál komi til afgreiðslu í þinginu. Ekki beinlínis kannske það frv. sem hér er flutt því önnur hafa verið flutt áður og önnur eru til smíðuð, en iðnn. á að sjá til þess að deildin fái tækifæri til að taka afstöðu í þessu máli. Ég skora á hv. forseta deildarinnar að beita nú áhrifum sínum til þess að iðnn. sinni þessu verkefni þannig að þessi málsmeðferð verði ekki Alþingi til vansa öllu lengur.