20.11.1985
Neðri deild: 17. fundur, 108. löggjafarþing.
Sjá dálk 787 í B-deild Alþingistíðinda. (640)

67. mál, orkulög

Friðrik Sophusson:

Herra forseti. Það kann að vera að fullmikið sé búið að tala um þetta mál, til hvaða nefndar á að vísa þessu máli. Ég vil í fyrsta lagi vegna þess að ég ber nokkra ábyrgð á hv. formanni iðnn., stakk upp á honum á fyrsta fundi og boðaði þann fund saman, lýsa því yfir sem einn af nefndarmönnum í hv. iðnn. að hann hefur starfað þar með ágætum og kvartanir ekki heyrst fyrr en nú frá utannefndarmönnum þannig að þetta eru ómaklegar árásir á formann iðnn. (PP: Fjórmenningar.) Hv. þm. Guðrún Agnarsdóttir er líka frænka formanns nefndarinnar og ég býst við að hann hafi ekki nefnt okkur tvö vegna þess að hann taldi ástæðulaust að nefna frændfólk sitt þegar hann var í ræðustólnum og ég þakka honum þá tillitssemi að láta ekki nokkurn mann vita af því að hann sé skyldur okkur báðum.

Það liggur fyrir í þessu máli að þegar er búið að fella tillögu þess efnis að kosin verði sérstök nefnd skv. þingsköpum til að taka á einum fimm málum sem hér eru á dagskrá. Meirihlutavilji deildarinnar liggur ljós fyrir. Þegar svo er komið kýs ákveðinn hópur þm. hér í hv. deild að reyna til þrautar hvort hægt sé að sameina málin, sem eru vissulega skyld að hluta, í allshn. Það hefur ekki tekist varðandi tvö fyrstu mál á dagskrá þannig að nú liggur fyrir hreinn og skýr meiri hluti fyrir því að málin fari til iðnn. eins og þau fóru á síðustu þingum. Þetta eru endurflutt mál og ekkert hefur komið fram sem hefur breytt afstöðu meiri hlutans til þess arna.

Ég tel, herra forseti, að það sé alveg ljóst að efni þeirra frv. sem eru 1., 2. og 3. mál á dagskrá eru iðnaðar- og orkumál og það er regla í þessari hv. deild að vísa málum sem snerta iðnrn., en það gera öll þessi mál óneitanlega, til iðnn. Þegar af þessum ástæðum tel ég algerlega út í bláinn að fresta þessari atkvæðagreiðslu. Það liggur fyrir skýr meirihlutavilji og ég bið um það að þessu máli verði ekki frestað heldur verði gengið til atkvæða og málið afgreitt þegar á þessum fundi þannig að iðnn. geti haldið áfram að starfa sleitulaust að þessum málum.